27.11.1978
Neðri deild: 20. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Umr. um efnahagsmál á Alþ. eru skrýtnar umr. Hér eru haldnar langar og miklar ræður, en í stað þess að leggja fram ráð og nýjar hugmyndir um viðnám gegn verðbólgu, þar sem hv. þm. gerðu sér far um að sameinast í raunhæfum tillöguflutningi til þess að Alþ. gæti náð árangri í því vandamáli sem við er að etja, er deilt um keisarans skegg.

Stjórnarandstæðingar eru undrandi yfir því í þessum ræðustóli, að vandi skuli vera á höndum, að það skuli vera efnahagsvandi á höndum, sem þessi ríkisstj. hefur sett sér að glíma við. E.t.v. kemur þetta okkur Alþfl.mönnum ekkert á óvart, vegna þess að við sáum síðustu stjórnarflokka, og þá sérstaklega Sjálfstfl., hafa forustu um það að átta sig aldrei á því á fjögurra ára valdatímabili sínu, að vandi var á ferðinni í íslensku samfélagi, þar sem var verðbólguvandinn. Og enn eru Sjálfstfl.-menn undrandi yfir því, að ríkisstj. skuli láta sér detta í hug að segja að hún berjist við vanda í efnahagsmálum. Það er séð að sjálfstæðismenn eru enn við sama heygarðshornið.

Vandinn, sem við er að etja, er ekki nýr vandi. Við erum að takast á við viðskilnað síðustu ríkisstj. Við erum að takast á við þann vanda, sem síðasta ríkisstj. skildi eftir sig í efnahagsmálum, sem gerði það að verkum að stjórnarflokkar síðustu ríkisstj. misstu traust í síðustu kosningum.

Þjóðin gerir kröfur til núv. ríkisstj. Hún gerir nýjar kröfur, kröfur um að ríkisstj. taki efnahagsvandann traustum og nýjum tökum og ráði niðurlögum verðbólgunnar. Þetta finnst sjálfstæðismönnum enn skrýtið.

Þeim finnst skrýtið að ríkisstj. skuli láta sér detta í hug að leggja fram á Alþ. raunhæfar till. er miði að viðnámi gegn verðbólgu.

En ríkisstj. verður einnig að standast þær kröfur sem gerðar eru til hennar. Hún hefur setið 3 mánuði á valdastóli. Sú gamla sat 4 ár og tókst ekki að koma neinu fram er miðaði að raunhæfum árangri í efnahagsmálum. En þessari ríkisstj. hefur þó á þremur mánuðum tekist það sem þeirri gömlu tókst aldrei, að setja fram drög að stefnumótun, sem a.m.k. lýsir því, hvernig hæstv. ríkisstj. ætlar að meðhöndla vandann.

Það frv., sem hér er til umr., fjallar fyrst og fremst um þann vanda, sem upp kemur 1. des. Það gera sér allir grein fyrir því, að ekki hefur gefist svigrúm til þess að koma á framfæri frv. til l. um að lögbinda hugmyndir um öll þau fjölmörgu atriði sem getið er um í grg. með þessu lagafrv. En rétt þykir að gefa þjóðinni og hinu háa Alþingi kost á því að fá upplýsingar nú með góðum fyrirvara, á hvern hátt ríkisstj. ætlar næstu daga og næstu vikur að takast á við efnahagsvandann með viðnámsaðgerðum gegn verðbólgunni.

Við skulum gera okkur grein fyrir því, að verðbólguvandinn verður á engan hátt leystur með því að einblína stöðugt á launaþáttinn. Vissulega verður að móta kjarastefnu til lengri tíma, en kjarastefna eða kjaramálastefna er aðeins einn liður margþættra aðgerða sem ríkisstj. verður að hafa á prjónunum og koma í framkvæmd til þess að ná raunhæfum árangri. Ef ríkisstj. ætlar eingöngu að einblína á launamálaþáttinn og ætlast til þess að launþegar beri þann kostnað, sem þjóðin þarf að bera til þess að komast út úr verðbólgunni, þá er ljóst að við komumst ekki út úr henni. Það, sem gildir, er að leggja byrðar á þjóðina. Það skilja allir. Það kostar sitt að komast út úr verðbólguhringiðunni. En það verður að jafna þessum álögum þannig niður, að stéttir landsins geti tekið á sig þær byrðar sem axla verður til þess að komast út úr vítahringnum.

Í dag erum við að fjalla um það sem snýr að launþegum. En okkur er sýnt fram á loforð um að einnig verði tekið á öðrum þáttum málsins, og er það vel. Það er sýnt fram á ákveðin drög að kjarastefnu, sem þó hefur ekki verið rædd í nákvæmnisatriðum við aðila vinnumarkaðarins. Það hefur ekki verið tekist á um það í viðræðum við aðila vinnumarkaðarins, hvernig heildarstefnu í kjaramálum verður komið fyrir allt næsta ár, 1979. Þetta þarf að gera. Ríkisstj. getur ekki sett fram stefnu í kjaramálum án samráðs við launþega þessa lands, án samráðs við verkalýðshreyfinguna og án þess að hún hafi þar hönd í bagga. Það er kjarasáttmáli sem gildir og annað ekki. Kjarasáttmáli felur það í sér, að valdhafar leitist eftir nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins um þá stefnu sem þeir óska eftir að ríki í kjaramálum til framtíðar. En verðbólguvandinn verður ekki leystur með bráðabirgðaráðstöfunum. Því styð ég þá stefnu sem hefur verið gerð tilraun til þess að móta: að gera kjaramálastefnu til langs tíma, en undanskil að það verður ekki gert án náins samráðs við aðila vinnumarkaðarins.

Það hefur verið rætt um það í þessum umr., að vandi atvinnurekstrar sé mikill í landinu. Það hefur einnig verið ýjað að því, að ekki sé fært að leggja á atvinnureksturinn einar eða aðrar byrðar. Mér er kunnugt um að greinar atvinnurekstrar eru mjög misjafnlega á vegi staddar. Sumar, eins og t.d. í sjávarútvegi og fiskiðnaði og þá sérstaklega á ákveðnum byggðasvæðum, eru illa á vegi staddar. En okkur hlýtur einnig að vera kunnugt um að til eru þær greinar atvinnurekstrar sem standa allvel. Þar vil ég nefna t.d. ýmiss konar milliliðastarfsemi, sem hér „grasserar“ í þjóðfélaginu og hefur aukist stórlega á undanförnum árum, og síðast en ekki síst innflutningsverslunina. Auk þess hafa ýmsar greinar á sviði þjónustu styrkt stöðu sína mjög umfram það sem almennir launþegar hafa getað gert. Það þarf að gæta að því að leggja byrðarnar réttlátlega á í þjóðfélaginu og einnig að ná til þess verðbólgugróða, sem ýmsar atvinnugreinar, m.a. þær sem ég nefndi, hafa náð undir sig í skjóli ýmissa aðferða.

Ég fagna þeirri stefnu, sem hér kemur fram hvað varðar fjárfestingarmálin, hvað varðar skattamálin, og vil undirstrika það sérstaklega, sem kemur fram í grg., að tekjuskattur verði lækkaður á næsta ári. Ég tel að hér séum við Alþfl.-menn að ná fram einu því baráttumáli sem á brattan hefur verið að sækja innan ríkisstj. og innan stjórnarflokkanna á undanförnum dögum.

Það er ljóst, að áhrif Alþfl. innan þessarar ríkisstj. eru mikil. Áhrifin felast í því að leggja áherslu á mótun samræmdrar efnahagsstefnu til langs tíma, til lengri tíma en þriggja mánaða. Áhrifin felast einnig í því að leggja megináherslu á hin ýmsu og mikilvægu félags- og hagsmunamál launþega. Þetta hefur Alþfl. lagt áherslu á og mun halda áfram að gera.

Viðnám gegn verðbólgu er kjarabót. Launþegar skilja að ef þeir taka á sig ákveðnar byrðar, þá getur það verið fjárfesting til langs og betri tíma. Launþegar vilja einnig sjá það, að álögur verði lagðar á aðra aðila samfélagsins, og þá munu þeir ekki láta sitt eftir liggja.

Herra forseti. Mál er að linni. Ég vildi að afstaða mín til þessa frv. og þeirra mála, sem nú hafa verið ofarlega á baugi, kæmi hér fram. Ég tel að ríkisstj. sé fær um að takast á við efnahagsvandann með árangri, síðast, en ekki síst vegna þess að vá er fyrir dyrum. Önnur verkefni, sem bíða úrlausnar, verða að þoka fyrir lausn verðbólguvandans. Við Alþfl.-menn viljum sjá árangur. Við viljum sjá að það séu gerðar raunhæfar tilraunir til þess að ná árangri. Við erum óþolinmóðir. Við höfum horft upp á það s.l. 4 ár, að hvert tækifærið af öðru hefur verið látið úr greipum ganga. Við getum ekki beðið öllu lengur. Við viljum fara að sjá árangur og við viljum fara að sjá fram á raunhæfar aðgerðir sem miði að þessum árangri. Við komum ekki til með að gefa þeirri ríkisstj., sem nú situr við völd, langan umþóttunartíma. Ég fyrir mitt leyti vil gefa henni eðlilegan umþóttunartíma, ekki allt of langan, en eðlilegan til þess að koma ætlunarverkum sínum í framkvæmd. Ég tel að ríkisstj. hafi viljann til verksins og svo lengi sem annað kemur ekki í ljós tel ég að hún sé stuðnings verð.