04.12.1978
Neðri deild: 26. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

114. mál, dómari og rannsóknardeild í skattamálum og bókhaldsmálum

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að kynna frv. til l., á þskj 128, sem ég flyt ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur, hv. 12. þm. Reykv., um sérstakan dómara og rannsóknardeild í skattamálum og bókhaldsmálum.

Ég vil segja það fyrst, að þegar sérstaklega hefur þótt bera við, þá hafa sérdómstólar þótt gefa góða raun, bæði hérlendis og víða annars staðar. Ég vil sérstaklega nefna svokallaðan fíkniefnadómstól, sem hér hefur verið í nærri því áratug. Ég vil vekja athygli á mjög sérstæðu ástandi, sem hafði skapast í fíkniefnamálum, og jafnframt reifa þá sannfæringu mína, að þessi dómstóll hafi unnið mjög fyrirbyggjandi starf í fíkniefnamálum.

Eins og fram kemur í grg. með þessu frv. er það að mjög verulegu leyti sniðið eftir lögum um fíkniefnadómstól. Ástæðan fyrir því, að þessi tiltekni málaflokkur er tekinn út úr og lagt til að settur sé upp sérdómstóll að því er tekur til skatta- og bókhaldsmála, er auðvitað einfaldlega sú, að á undanförnum árum hefur hið almenna dómskerfi lítt dugað til þess að fást við mál af þessu tagi. Þar kemur auðvitað margt til. Í fyrsta lagi það, að sérhæfðan starfskraft hefur vantað, en einnig hitt, að það er á stundum eins og það hafi, að manni finnst, vantað pólitískan vilja til þess að fylgja þessum málum eftir með þeim hætti og af þeim krafti sem nauðsynlegt hefði verið.

Ég held að það sé ekki sagt neitt leyndarmál þegar það er fullyrt, að skattsvik á Íslandi eru mjög veruleg. Þau eru auðvitað með ýmsum hætti, bæði með hreinum lagabrotum og eins með öðrum hætti sem kalla mætti meiri takmarkatilfelli. Dæmi um hið síðara, sem við höfum stundum nefnt neðanjarðarhagkerfi, er einfaldlega sú aukna tilhneiging sem virðist vera í samfélaginu til þess að þeir, sem fyrir fyrirtækjum ráða, skrái meira eða minna alla einkaneyslu sína, bílana sem ekið er í, húsin sem byggð eru, jafnvel matinn sem er etinn, á rekstrarliði þessara fyrirtækja. Og það segir sig alveg sjálft, að með aukinni verðbólgu, slævðu fjármálalegu siðferði, eins og hefur ævinlega í öllum löndum fylgt slíku ástandi, hafa tilhneigingar í þessa átt mjög aukist. Það er sannfæring mín, að ef sérstakur dómstóll væri settur upp í þessum efnum, sem hefði það beinlínis að verkefni að snúast til varnar gegn þessum efnahagslega vágesti, þá mundi sá dómstóll fá miklu meiru áorkað en verið hefur undanfarin ár.

Annar þáttur þessara mála, sem hér er lagt til að sé settur undir þennan dómstól einnig, er svokölluð bókhaldsbrot eða efnahagsleg afbrot. Ég held að það sé líka ljóst, að það hefur verið aukin tilhneiging í samfélaginn til slíkra brota. Ég nefni aðeins blaðafregnir undanfarnar vikur, þar sem eru fréttir um afbrot þeirra sem stunda viðskipti með bifreiðar. Einhvern veginn er það svo, að hvort sem þetta hefur verið stundað um lengri eða skemmri tíma, þá er eins og skyndilega hafi vaknað skilningur á því að þarna er alvara á ferðum. — Þetta er auðvitað aðeins einn þáttur efnahagslegra afbrota. Íslenskir blaðalesendur vita mætavel, að á undanförnum árum hefur athygli almennings verið vakin mjög rækilega á því, að þetta eru vandamál í samfélaginu, sem okkur ber að snúast gegn af fullri hörku, en þó auðvitað þannig að alls hófs sé gætt.

Það er ekki vilji okkar, sem að frv. þessu stöndum, að dómskerfið fari offari, og það er ekki vilji okkar, að of hart sé fram gengið. En það er vilji okkar, að á afbrotum sé tekið af fullri hörku og að fyrir afbrot sé refsað, því refsingar eiga að vera fyrirbyggjandi, koma í veg fyrir að slík afbrot breiðist út. Ég er þeirrar skoðunar, að á undanförnum árum hafi þessu ekki verið svo farið með skattsvik og með efnahagsleg afbrot. Ég er þeirrar skoðunar, að þeir, sem hafa stundað slíkt, hafi hagnast á því og að dómskerfið hafi hvergi dugað til að snúast gegn þessu.

Enn eitt, sem við leggjum til í þessu frv., er að þessi dómari eða dómstóll og þar með rannsóknardeild í skattamálum eða skattrannsóknastjóri, sem nú er kallaður, verði allt flutt undir einn hatt, flutt undir dómsmrn. Ástæðan fyrir þessu er m.a. sú, að undirstrika þá skoðun stjórnkerfisins að hér sé um afbrot að ræða. Skattsvik eru eins og hvert annað afbrot, eins og hver annar þjófnaður, og eiga að fá meðhöndlun samkv. því. Slík áherslubreyting stjórnvalda hygg ég að mundi verða mjög til bóta í átt til bæði meira efnahagslegs réttlætis í samfélaginu og í átt til þeirrar einföldu reglu, að þeim skal refsað, sem brjóta leikreglur samfélagsins.

Ég hygg að það sé sögulega svo, að það hefur skort vilja stjórnvalda til þess að snúast gegn efnahagslegum afbrotum, hvort sem um venjuleg fjársvik hefur verið að ræða eða brot á skattalögum. Það hafa verið fluttar hér till. — nú síðast fyrir nokkrum dögum var flutt till. til þál. um það, að gegn þessum málum skuli snúist, — en þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir yfirlýsingar allra stjórnmálaflokka, og a.m.k. þekki ég engan stjórnmálamann eða konu sem ver skattsvik í sjálfu sér, þá einhvern veginn hefur það samt verið svo, að þennan vilja stjórnkerfisins hefur vantað þegar á hefur reynt. Með því að breyta eins og við erum hér að leggja til, þá held ég að sköpuðust forsendur til þess að snúast bæði gegn skattsvikum og gegn efnahagslegum afbrotum, og þjóðfélagið þarf á slíku að halda.

Undanfarin ár er það auðvitað svo, að hér hefur geisað óðaverðbólga, meiri óðaverðbólga en nokkru sinni fyrr samfellt í sögu þjóðarinnar. Skaðsemi þessa þekkja auðvitað allir. Kannske er alvarlegast, að efnahagslegt og fjármálalegt siðferði meðal þjóðarinnar allrar er í stórfelldri hættu. Aukin skattsvik, aukin efnahagsleg afbrot eru nátengd þessu ástandi. Hér er verið að leggja til að snúast með ákveðnum hætti gegn þessari þróun, og ég vænti þess, að þetta frv., kannske að einhverju leyti í breyttri mynd, nái fram að ganga.

Ég vil svo að lokum. herra forseti, leyfa mér að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og til allshn.