13.12.1978
Efri deild: 26. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1488 í B-deild Alþingistíðinda. (976)

126. mál, Seðlabanki Íslands

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Mál það, sem hér er til umr., er vissulega stórmál, þó að lítið fari kannske fyrir frv. sem þm. hafa fengið að sjá. Hins vegar hefur hæstv. viðskrh. flutt ítarlega ræðu um málið —og skýrt ýmislegt af því sem nauðsynlegt er að þm. fái skýringar á áður en þeir geta afgreitt svo mikið mál sem hér um ræðir. Menn mundu kannske halda að ég vildi þegar í stað lýsa yfir fyllsta stuðningi við þetta frv., vegna þess að sumum þm .a.m.k. mun kunnugt um að um alllangt skeið hef ég talið að öll afurðalán útflutningsframleiðslunnar ættu að vera gengistryggð með þeim hætti einmitt sem lagt er til í þessu frv. Á s.l. sumri ritaði ég smágrein um þetta mál og ýmsar fleiri hugleiðingar um hvernig hugsanlegt væri að glíma við þann mikla vanda, sem við Íslendingar höfum — átt við að stríða, og benti þá á þessa leið og nokkrar aðrar. Ég tók einmitt fram, að þetta væri til hugleiðingar fyrir hverja þá sem ríkisstj. kynnu að mynda, og að því leyti til gleðst ég auðvitað yfir því, að núv. hæstv. ríkisstj. hefur skoðað þetta mál og gert það að hluta til að sínu.

En sá er þó hængurinn á, að annan lið þessa máls vantar í þetta frv. Till. mínar o.fl., sem um þetta hafa fjallað, voru þær, að samhliða því sem afurðalánin yrðu gengistryggð yrði aflað gengistryggðs fjár innanlands, þ.e.a.s. að fólkið í landinu fengi að leggja inn á reikninga sína peninga tryggða í erlendri mynt og mundi með þeim hætti fjármagna útflutningsatvinnuvegina. Hér er hins vegar lagt til að taka ýmist erlend lán til að fjármagna útflutningsatvinnuvegina eða nota svokallað erlent mótvægi, sem mætti kannske orða skýrar eins og ýmislegt annað í skjölum sem koma frá hinum margháttuðu stofnunum, en þar vill nú oft svo fara að málalengingar eru og ýmiss konar ívaf. Ég held samt að ég skilji hvað erlent mótvægi sé, og reyndar reyndi hæstv. ráðh. að útskýra hvað það væri, þ.e.a.s. það á að nota yfirdráttarheimildir og lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í þessum tilgangi. Að vísu upplýsti hæstv. ráðh. mér til mikillar gleði, að hugmyndin væri að í staðinn mundi lán ríkissjóðs við Seðlabankann verða í innlendum peningum, án þess að upplýst sé hvernig þess fjár eigi að afla. Ég veit ekki hvar það á að taka. En vissulega væri æskilegt, ef erlendar lánsheimildir og erlend lán yrðu notuð í þessum tilgangi, að þá tækist að afla innlends lánsfjár til allra ríkisframkvæmda og til að borga skuld ríkissjóðs við Seðlabankann. Tel ég raunar að það sé nánast forsenda þess, að þetta mál beri tilætlaðan árangur, og forsenda þess, að það verði ekki til bölvunar beinlínis. Ef nú verða tekin erlend tugmilljarða lán til þess að fjármagna rekstur íslenskra atvinnuvega, þá hlýtur það að leiða til þess, að enn þá meir verður kynt undir verðbólguna. Þá þarf ekki sömu bindingu, þá verður meira sett af fjármagni í umferð, þá er enn þrýst á verðbólguna og verðbólguhjólinu snúið hraðar. Þetta mun þó áreiðanlega allt saman skýrast þegar þm. fá ræðu hæstv. ráðh. til frekari yfirvegunar og geta spurt yfirvöld fjármagnsmála á Íslandi nánar um þetta efni. Skal ég þess vegna ekki leggja á það fullnaðardóm, en vildi vekja á því athygli, að það er mikill munur á þeim till., sem ég o.fl. höfum sett fram, og því, sem hér er um að ræða, að þessu leyti. Það átti að afla innlends lánsfjár eftir okkar hugmyndum og það átti að gefa fólkinu kost á því að fá nýtt sparnaðarform, að geta látið peninga sína sem fulltryggt fé í íslenska banka og nota fjármunina í ríkari mæli til sparnaðar fremur en til þess að byggja steinkumbalda, flytja inn endalaust sjónvörp, bíla og ýmiss konar óþarfa að auki. Þennan lið vantar því miður í till., en kannske er þetta upphaf að því sem koma skal. En fyrst og síðast þurfum við að gæta þess, að þetta verði ekki til þess að auka enn á verðbólguna með því að taka erlend lán í stað þeirra innlendu, sem nú eru notuð, og dengja þeim út í efnahagslífið, því að þá fyrst yrði hér allt óviðráðanlegt. Þetta mun verða skoðað í fjh.- og viðskn., sem ég á sæti í.

Ég fagna því svo sannarlega, að þessu máli skuli hreyft á Alþ., því að af því ætti gott að geta leitt. Hins vegar er ég ekki alveg eins bjartsýnn og hæstv. ráðh. þegar hann heldur því fram að þessi aðgerð muni bæta heildarhag útvegsins um 2%. Ég hefði haldið að þegar fram í sækti mundi hagur útvegsins að vísu batna vegna þess að hann gæti fengið meiri lán og fyrr en áður og auðvitað á lægri vöxtum, en hann tekur á sig gengistrygginguna í staðinn. Og jafnvel þótt beinn hagur hans yrði ekki mikill, kannske enginn fyrst í stað, þá væri áreiðanlega rétt að fara út á þessa braut ef peningarnir væru innlendir.

Því er raunar haldið fram hér líka, að staða útvegsins hafi þegar verið bætt um önnur 2 eða jafnvel 3%. Þetta orkar meira en tvímælis allt saman, en út í þá sálma skal ég ekki fara öllu lengra. Það er hægt að tala um vaxtalækkun, og vissulega er þetta vaxtalækkun, en eins og ég sagði kemur gengistryggingin að sjálfsögðu í staðinn, og þá er þetta fyrst í stað kannske ekki útgjaldalækkun í þeim skilningi sem hér er haldið fram, þó að áreiðanlega verði svo þegar fram í sækir ef heilbrigt fjármálakerfi kemst á í þessu landi, sem er frumforsenda þess að það þýði yfirleitt fyrir okkur að vera að tala um að kljást við verðbólgu, enda öll þessi viðnámsfrv. gegn verðbólgu endaleysa eins og menn vita og m.a.s. ekki hægt að koma þeim saman í réttu lagalegu formi, eins og hér hefur verið rætt um áður.

Hæstv. ráðh. upplýsti, að endurkaup Seðlabankans umfram bindiskyldu væru nú orðin hvorki meira né minna en 9 milljarðar kr. og það þyrfti að auka bindiskylduna úr 25 í 35% til að leysa hinn brýnasta vanda. Við vitum að ef bindiskyldan yrði nú aukin úr 25 í 35%, þá mætti í bókstaflegri merkingu loka bönkunum. Ég er dálítið smeykur um það, og vil láta það koma fram hér strax, að það, sem hér sé á ferðinni, sé í aðra röndina tilraun til að bjarga til mjög skamms tíma þessari hæstv. ríkisstj. með því móti að taka nú erlend lán og jafnvel að lina á bindiskyldunni, þannig að bankarnir hafi þó eitthvert fé milli handa. Ég vona, eins og ég sagði áðan, að þetta sé rangt hjá mér, að það sé hugmyndin að afla innlends fjár í staðinn með öðrum hætti en þeim sem ég hef gert till. um, að fá féð lánað beint frá fólkinu — ég vona að það takist og það verður væntanlega upplýst, með hvaða hætti það skuli gert, þegar málið kemur til umr. í n. En ef það er ekki gert, þá er hér um enn eina skammtímalausn að ræða og þá allra verstu, vegna þess að það magnar auðvitað allan vanda ef nú ætti að dengja nýjum 10 eða 20 milljörðum út í kerfið til viðbótar öðru. Þetta held ég að allir hljóti að skilja ef þeir skoða það niður í kjölinn, enda gat hæstv. ráðh. þess réttilega, að það væru mikil vandkvæði því samfara að ætla að auka bindiskylduna núna vegna þess að bankarnir eru í miklum vandkvæðum. Ég hef reyndar orðað það þannig úr þessum ræðustól, að bankakerfið væri hrunið, — það er það, og eins gott að þjóðin og þingið horfist í augu við að það þarf á því algeran uppskurð, en þetta gæti verið liður í slíkum uppskurði.

Ég veit ekki hvort ég þarf að ræða þetta miklu meira. Við munum í fjh.- og viðskn. að sjálfsögðu skoða rækilega ræðu hæstv. ráðh. Ég leyfi mér að óska eftir því, að við fáum hana í fjölriti strax til athugunar, vegna þess að vissulega vil ég fyrir mína parta, og ég tala þar áreiðanlega fyrir hönd okkar beggja í stjórnarandstöðunni, gera allt sem í okkar valdi stendur til að greiða fyrir því, að þetta mál fái mjög rækilega skoðun og því verði fram hrundið, ef við komumst að raun um að samhliða þessu verði ekki aukið á vandann með þeim hætti sem ég áður hef lýst. Og raunar sagði hæstv. ráðh. hér líka — ég held orðrétt — að það ætti ekki að auka að hans mati — mér skildist að það væri hans persónulega mat — erlendar skuldbindingar. Ég er innilega sammála honum um að það eigi ekki að auka erlendar skuldbindingar. En eins og málið lítur út, þá er verið að auka erlendar skuldbindingar bæði beint og óbeint. Það verður að koma á móti eitthvert innlent fé, annaðhvort með þeim hætti sem hér er boðað, án þess að nokkur skýring sé á því, hvernig það eigi að framkvæma, þ.e.a.s. að ríkissjóður greiði upp skuldir sínar með innlendum peningum, eða þá með því að þeir verði fengnir beint frá almenningi í framtíðinni.

Herra forseti. Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál á þessu stigi.