16.10.1979
Sameinað þing: 3. fundur, 101. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

Tilkynning frá ríkisstjórninni og umræða um hana

Forsrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég les fyrst forsetaúrskurð um skipun og skipting starfa ráðherra: „Forseti Íslands gerir kunnugt:

Samkvæmt tillögu forsrh. og með skírskotun til 15. gr. stjskr., laga nr. 73 frá 1969, um Stjórnarráð Íslands, og reglugerðar skv. þeim frá 31. des. 1969, er störfum þannig skipt með ráðherrunum:

Benedikt Gröndal fer með forsrn. og utanrrn. Kjartan Jóhannsson fer með sjútvrn. og viðskrn. Magnús H. Magnússon fer með félmrn., heilbr.- og trmrn. og samgrn.

Bragi Sigurjónsson fer með landbrn. og iðnrn. Sighvatur Björgvinsson fer með fjmrn. og Hagstofu Íslands.

Vilmundur Gylfason fer með menntmrn. og dóms- og kirkjumrn.

Með úrskurði þessum falla úr gildi eldri ákvæði um skipting starfa ráðherra.

Bessastöðum, 15. okt. 1979.

Kristján Eldjárn.

Benedikt Gröndal.“

Þegar fyrrverandi hæstv. forsrh. baðst lausnar fyrir ráðuneyti sitt hóf forseti Íslands þegar könnun á myndun nýrrar ríkisstjórnar. Hann mun hafa þreifað fyrir sér fyrst af öllu um það, hvort kostur væri á að mynda nýja meirihlutastjórn með venjulegum hætti, en af viðræðum við formenn stjórnmálaflokkanna sannfærðist hann um að slíkir kostir væru ekki fyrir hendi við núverandi aðstæður.

Fyrst eftir það komu til tals líkur á myndun stjórnar einhvers eins flokks eða utanþingsstjórn. Nú varð það ljóst að bæði Alþfl. og Sjálfstfl. töldu rétt og nauðsynlegt að efnt yrði til kosninga á þessu ári. Þessir tveir flokkar hafa meiri hluta á þingi og var því sýnilega meirihlutavilji fyrir kosningum í ár.

Í framhaldi af viðræðum á vegum þingflokka Alþfl. og Sjálfstfl. um þessi mál og um leiðir til þess að tryggja að þing yrði rofið og gengið til kosninga fyrir miðjan desembermánuð n.k. urðu flokkarnir ásáttir um eftirfarandi meginatriði:

1) Alþfl. myndaði skammtímaríkisstjórn í þeim tilgangi að rjúfa Alþingi og efna til kosninga eigi síðar en 2. og 3. des. n.k. Þingflokkur Sjálfstfl. hét því að verja þessa stjórn Alþfl. vantrausti til þess að koma þessu máli í framkvæmd.

2 ) Til þess að gera kosningar mögulegar eigi síðar en 2. og 3. des. n.k. mun ríkisstj. Alþfl. gefa út auglýsingar um styttingu kjörskrárfresta eftir því sem með þarf og setja brbl. um styttingu framboðsfrests og styttingu tíma til atkvæðagreiðslu utan kjörfunda ef þörf krefur. Enn fremur verða sett brbl. er heimila kjósanda að greiða atkv. utan kjörfundar þótt hann sé heima á kjördegi. Um þessar breytingar er samkomulag milli flokkanna og munu þeir hafa samráð sín á milli um gerð þeirra.

3) Alþfl. tekur fram, að ríkisstj. sú er hann nú myndar hefur fyrst og fremst það verkefni að stuðla með umræddum hætti að þingrofi og kosningum. Þar sem hún á aðeins að sitja í rúma tvo mánuði og þing situr ekki þann tíma hefur stjórnin augljóslega mjög takmarkaða möguleika til að koma fram veigamiklum stefnumótandi nýmælum. Minnihlutastjórn Alþfl. mun fyrst og fremst reyna að halda landsstjórninni í horfinu og afgreiða þau vandamál sem að höndum ber, en áskilur sér þó allan rétt eftir því hver gangur mála verður og hvaða verkefni verða talin aðkallandi.

Ríkisstj. mun boða Alþingi til fundar eigi síðar en tíu dögum frá kjördögum og mun þá biðjast lausnar, enda verður þá eðlilegt að reynt verði að mynda meirihlutastjórn með venjulegum hætti, sem gæti þá tekið við völdum.

Það er raunar óhjákvæmilegt að nýtt þing komi saman í desember, þar sem samþykkja verður heimildir fyrir greiðslum úr ríkissjóði til nauðsynlegustu þarfa þangað til fjárlög hafa verið afgreidd í upphafi næsta árs.

Að öðru leyti en ég nú hef greint hefur ekkert samkomulag verið gert milli Sjálfstfl. og Alþfl. Hvor þeirra um sig gengur með öllu óbundinn til kosninga, og það takmarkaða samkomulag, sem flokkarnir hafa gert, byggist aðeins á því að þeir hafa sameiginlega vilja til að koma fram þingrofi og kosningum, en mun engin áhrif hafa á stefnumörkun þeirra eða störf að öðru leyti í kosningabaráttunni eða eftir kosningarnar.

Þegar litið er á hag þjóðarinnar á þessum haustdögum kemur í ljós að ýmislegt gengur vel eða á viðunandi hátt. Ber þar fyrst og fremst að nefna að atvinnuleysi er ekkert í landinu, en það er hið mesta böl í mörgum nágrannaríkjum okkar. Framleiðsla er mikil í flestum greinum og viðskiptajöfnuður furðugóður þegar tekið er tillit til þróunar olíuverðs. Á hinn bóginn ber fjölda vandamála hátt og þar framar öllu öðru er verðbólgan. Óðaverðbólgan, sem við búum við, er undirrót spillingar og misréttis og veldur margvíslegum og miklum erfiðleikum í nálega öllum greinum þjóðfélagsins. Verðbólga hefur lengi verið fylgifiskur okkar Íslendinga þegar lítið er yfir síðustu áratugi, en keyrt hefur um þverbak síðan 1974, og hin síðustu ár hefur verðbólgan verið um og stundum yfir 50%. Því hefur verið haldið fram að Íslendingum hafi gengið furðuvel að lifa við rúmlega 10% verðbólgu, sem árum saman var að meðaltali, en 50% er allt annað og miklum mun alvarlegra vandamál. Þjóðin þolir ekki slíka verðbólgu til tengdar. Hún mun ganga út yfir hag fjölskyldna og einstaklinga. Hún mun valda og veldur þegar atvinnufyrirtækjum stórkostlegum erfiðleikum sem geta hvenær sem er leitt til þess að atvinnuleysi heldur innreið sína í landinu. Og slík verðbólga er hættuleg fyrir sjálft fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar.

Tvær síðustu ríkisstjórnir hafa reynt án árangurs að vinna bug á verðbólgunni. Leitað hefur verið margra ráða, en þó hefur skort mjög á að tekið væri á þessu vandamáli í heild og gerð samfelld sókn gegn verðbólgunni á öllum vígstöðvum. Þetta mál hefur því gnæft yfir önnur vandamál þjóðarinnar, og það hlýtur því framar öllu öðru að vera verkefni þings og stjórnar að vinna bug á verðbólgunni eða a.m.k. að koma henni niður á svipað stig og gerist í helstu markaðslöndum okkar.

Alþfl. var þátttakandi í þeirri stjórn sem fyrir nokkrum dögum hefur farið frá. Flokkurinn hefur lagt mikla áherslu á verðbólgumálin og lagt fram frumvörp og tillögur um þau. Er það í fullu samræmi við að flokkurinn hafði kynnt mjög rækilega hugmyndir sínar, tillögur og kröfur varðandi þetta mál í baráttunni fyrir síðustu kosningar. Eftir rúmlega eins árs reynslu sannfærðist Alþfl. um að þessi stjórn mundi ekki ráða við dýrtíðina. Allt þetta ár hafði þetta verkefni verið efst á lista hjá þeim flokkum sem að stjórninni stóðu, og gerðar höfðu verið margvíslegar ráðstafanir, sem því miður voru yfirleitt til skamms tíma og fólu ekki í sér samfellda gagnsókn gegn verðbólgunni sem hefði getað leitt til meiri árangurs.

Vegna þess að Alþfl. hafði sannfærst um að fyrrv. ríkisstj. mundi ekki taka á þessum málum eins og hann taldi nauðsynlegt, eins og hann taldi sig hafa heitið sínum kjósendum, sleit flokkurinn stjórnarsamstarfinu. Segja nú aðrir flokkar og talsmenn þeirra að Alþfl. hafi farið úr stjórninni án nokkurs málefnalegs ágreinings. Ég mótmæli því og bendi á að ekkert mál er vandasamara en verðbólgumálið, og ágreiningurinn um það hefur verið hverjum manni ljós sem hefur fylgst með þeim málum. Það er því með öllu ástæðulaust að halda því fram að stjórnarslitin hafi ekki verið af málefnalegum ástæðum. Það er ekkert málefni þjóðarinnar veigameira en baráttan við verðbólguna, og aðilar fyrrv. stjórnar verða að bíta í það súra epli að Alþfl. komst að þessari niðurstöðu. Þegar hann hafði komist að þessari niðurstöðu taldi hann óhjákvæmilegt að hverfa úr þeirri ríkisstj., taldi það meiri ábyrgð að játa staðreyndir, taka afleiðingum af þeim og fara úr ráðuneytinu heldur en að sitja áfram eftir að flokkurinn hafði misst von um að þetta ráðuneyti gæti leyst þetta verkefni.

Við töldum óhjákvæmilegt að áfrýja þessu stóra máli til hins æðsta dómstóls sem er til, þjóðarinnar sjálfrar, í kosningum. Það verður að halda áfram að stokka spilin í íslenskum stjórnmálum á einn eða annan hátt uns lausn finnst á dýrtíðarvandanum. Þá fyrst getur þjóðin af öryggi og festu snúið sér að öðrum málum og haldið áfram að byggja upp það réttláta og mannúðlega þjóðfélag sem okkur dreymir um.

Alþfl. hefur ekki skorast undan ábyrgð, hann hefur þvert á móti tekið á sig þunga ábyrgð með því að rjúfa ríkisstj. og með því að eiga þátt í því að efna til alþingiskosninga eins og gerst hefur.

Myndun núv. ríkisstj. er í beinu, rökréttu framhaldi af þeim atburðum öðrum sem ég hef lýst. Úr því að atvikin höguðu því svo að það kom til greina að Alþfl. myndaði bráðabirgðaríkisstjórn með það meginhlutverk að koma fram kosningum í desember, þá skoraðist hann ekki undan því, þótt vafalaust sé flokkurinn eða þeir einstaklingar, sem í ráðuneytinu sitja, ekki öfundsverðir af þessu pólitíska hlutverki. En Alþfl. treystir dómi kjósenda, og hann mun berjast áfram ótrauðlega fyrir stefnu sinni til gæfu fyrir land og þjóð.