19.12.1979
Neðri deild: 5. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

42. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég bið afsökunar á því, að mér varð á að gleyma að svara fyrirspurn hv. 2. þm. Reykv. áðan. Þessi áætlun um 12 milljarða lántökuþörf er gerð af Seðlabanka Íslands með tilliti til þeirra verkefna sem leitað hefur verið til hans með svo að haldið verði áfram tilteknum framkvæmdum. Svo ég nefni dæmi um framkvæmdir sem hér er átt við, þá er það Vesturlína, eins og ég nefndi dæmi um áðan, en efnispöntun vegna þeirra framkvæmda verður að fara fram mjög fljótlega, þannig að þeir verða að vita af því, sem leggja þá línu, hvort og hvenær þeir geta gengið frá þeirri efnispöntun og greiðslu.

Dæmi um aðrar framkvæmdir er Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar sem verður að fá sín mál útkljáð strax í upphafi næsta árs.

Ég las í framsöguræðu minni þann lista sem fjárlaga- og hagsýslustofnun og Seðlabanki Íslands hafa útbúið um þessar framkvæmdir, þar sem einmitt kemur fram það sem hv. 2. þm. Reykv. spurði um áðan, þ.e. hvaða framkvæmdir það eru sem hér er um að ræða, hvað af því er þegar búið að taka ákvörðun um og hvers af því er að áliti Seðlabanka Íslands algjörlega óhjákvæmilegt að hafist verði handa um að útvega fé til.

Þessar skýringar lét ég hv. formanni fjh.- og viðskn. í té áðan í fimm eintökum, og hv. 2. þm. Reykv. getur að sjálfsögðu fengið þær nú þegar. Ég hef líka getið þess, að að sjálfsögðu mun fjh.- og viðskn. fá allar frekari upplýsingar um þessi mál sem tiltækar eru.