19.12.1979
Neðri deild: 5. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

7. mál, söluskattur

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er 7. mál þessarar hv. d., flutt á þskj. 7 og fjallar um staðfestingu á brbl. um breyt. á lögum nr. 10 frá 22. mars 1960, um söluskatt, með síðari breytingum.

Forsaga málsins er sú sama og ég lýsti varðandi það frv. sem var hér til umr. næst á undan. Hér er um að ræða staðfestingu á brbl. frá 16. okt. 1979, sem gefin voru út vegna þingrofsins þar eð ekki gafst tími til, áður en af þingrofi varð, að fjalla um og afgreiða brbl. frá því í sept. um sama efni. Tilefni þeirrar brbl.-setningar var það sama og ég greindi í ræðu minni með fyrra málinu, þ.e.a.s. að afla ríkissjóði tekna svo unnt væri að ná saman endum í ríkisrekstrinum. En eins og ég gat um í ræðu minni áðan var áætlað í sumar að þá skorti á tekjuöflun ríkissjóðs um 7 milljarða kr. til þess að hallarekstur yrði ekki á þessu ári.

Efnisatriði þessa frv. eru þau, að söluskattur var hækkaður úr 20 í 22%, þar af hinn almenni söluskattur úr 18 í 20%, eða um 2 stig. Sveitarfélögum var tryggður hluti hins hækka gjalds, sem er 8% af innheimtum söluskatti, þannig að sveitarfélögin fá þar með sinn hluta af alls 20 stigum af hinum 22 söluskattsstigum sem innheimt eru, þ.e.a.s. þau fá tekjur af hinum almenna 20% söluskatti, en ekki, eins og kunnugt er, af 2% söluskattsaukanum sem aukalega er innheimtur.

Í sept. s.l. voru áætlaðar tekjur af þessari söluskattsbreytingu 670 millj. kr. á mánuði, og er gert ráð fyrir að á fyrstu þremur mánuðum næsta árs, ársins 1980, renni tekjurnar af þessari söluskattshækkun til þess að greiða skuld ríkissjóðs við Seðlabanka Íslands að upphæð 4112 milljarður, sem stofnað var til í tengslum við þá ákvörðun hæstv. fyrrv. ríkisstj. að afla fjár með þeim hætti sem ég hef getið um, en bæði fyrrv. og núv. ríkisstj. gera ráð fyrir að innheimtu þessara tveggja viðbótarsöluskattsstiga verði haldið áfram til loka ársins 1980.