19.12.1979
Neðri deild: 5. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

20. mál, hækkun lægstu launa

Forsrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Í nóvembermánuði s.l. varð ljóst að laun, sem voru lægri en 263 þús. kr. á mánuði fyrir dagvinnu, mundu að öllu óbreyttu hækka um 2% minna en hærri laun hinn 1. des. n.k., þar sem þá mundi koma til framkvæmda frádráttur frá verðbótum vegna viðskiptakjararýrnunar sem frestað hafði verið frá 1. júní s.l. með bráðabirgðaákvæðum í lögum nr. 13 frá 10. apríl 1979, um stjórn efnahagsmála o.fl. Viðskiptakjarafrádráttur þessi á lægstu laun var upphaflega ákveðinn þegar við því var búist að úr verðbólgu drægi á árinu. Sú varð ekki raunin og bar því brýna nauðsyn til að rétta hag þeirra sem lægst laun höfðu þegar greidd var verðbót 1. des. Til að ná þessu marki á sem einfaldastan hátt þurfti því að hækka lægstu launataxta um 2% frá og með 1. des. 1979. Þessum röksemdum til viðbótar vil ég bæta því við, að fram undan eru samningar um kaup og kjör nálega allra stétta í þjóðfélaginu. Var því mjög brýn nauðsyn á að skapa samræmi sem skorti á milli launataxta þeirra lægra og hinna hærra launuðu miðað við það mark sem ég nefndi áður, og stuðlar sú breyting, sem hér er um að ræða, að því marki.

Um mál þetta voru haldnir fundir með öllum þeim aðilum vinnumarkaðarins sem ríkisstj. ber að ráðgast við samkv. þeim lögum sem í gildi eru um þau samráð. Að því loknu voru 20. nóv. gefin út brbl. um 2% hækkun launa sem þá voru undir 263 þús. kr. á mánuði fyrir dagvinnu. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er á venjulegan hátt frv. um staðfestingu á þeim brbl.

Ég vil taka það fram bæði um þetta frv. og önnur frv. sem eru staðfesting á brbl., að afgreiðsla þeirra er ekki svo aðkallandi að henni þurfi að ljúka í þessari viku. Það er nægilegt samkv. stjórnskrá að Alþ. afgreiði slíkt frv. áður en því verður slitið, en það verður væntanlega ekki fyrr en einhvern tíma með vori. En úr því að tími gefst til er sjálfsagt að taka málin fyrir og koma þeim til n., þó ég telji rétt að taka þetta fram og ítreki þá ósk að þau mál verði jafnan látin ganga fyrir sem óhjákvæmilegt er að afgreiða fyrir næstu helgi.

Herra forseti. Að lokum legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.