12.03.1980
Neðri deild: 42. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Sighvatur Björgvinsson:

Hæstv. forseti. Oft hefur verið meiri sagnfræðiþekking í Reykholti en nú. Hv. síðasta ræðumanni til upplýsingar skal ég geta þess, og fara svo ekki frekar út í ræðu hans, að flestöll býli við Ísafjarðardjúp fóru í eyði þegar Framsfl. stjórnaði landbúnaðarmálunum, en Alþfl. var í stjórnarandstöðu. Ef þeir Reykhyltingar hugsa sér að endurnýja Heimskringlu ættu þeir að afla sér frekari þekkingar en nú er til í Reykholti.

Ég ætla ekki að fara öllu frekar út í umr. um landbúnaðarmálin almennt, enda gefst til þess tími og tækifæri síðar, eins og hæstv. landbrh. hefur lofað okkur. En það virðist fara mjög í vöxt að ráðh. í ríkisstj. á Íslandi biðji Alþ. um að samþ. áskoranir á sjálfa sig. Ég held að slíkt hafi fyrst gerst í fyrra þegar hæstv. þáv. iðnrh. lagði fram á Alþ. þáttill. um að Alþ. skoraði á iðnrh., þ.e. hann sjálfan, að gera tilteknar aðgerðir. Nú virðist hæstv. landbrh. ætla að feta dyggilega í fótspor iðnrh. og leggja einhvern tíma á næstunni fram á þingi þáltill. þar sem landbrh. óskar eftir því að Alþingi Íslendinga skori á hann að gera tiltekna hluti. Ég held að slíkt sé algerlega þarflaust. Ég held að hæstv. ráðh. geti stundað ráðherrastörf í sínu rn. án þess að hafa fyrir því að biðja Alþ. að skora á sig að gera það sem hann langar til að gera. Ég hef ekki orðið var við annað og við þm. en að hæstv. landbrh. geri það sem honum dettur í hug, hvort sem á hann er skorað eða ekki. Væntanlega getur hann fundið möguleika hjá sér til að halda slíku áfram. En sem ég segi, ég ætla þá að fresta því að ræða frekar um landbúnaðarmál almennt þangað til hæstv. landbrh. óskar eftir að hv. Alþ. skori á hann að gera hluti sem hann langar til að gera.

Ég vil þó fara örfáum orðum um nokkur atriði, sem hafa dregist inn í umr. hér, og þá fyrst nefna í örfáum orðum það sem rætt hefur verið um niðurgreiðslur á búvöru. Auðvitað er rétt að niðurgreiðslur eru tæki ríkisstj. til að hafa áhrif á hvernig vísitala mælir framfærslukostnað í landinu. Hún er alþekkt t.d. sú árátta Alþb. að nota ávallt skatta, sem ekki eru inni í vísitölu, eins og tekjuskattinn, til að afla fjár, svo að greiða megi niður vörur sem eru mældar í vísitölu, og halda því síðan fram við almenning í landinu að þarna hafi orðið stórkostleg kjarabót. Skatturinn, sem á er lagður, mælist ekki í vísitölunni, en varan, sem niðurgreidd er, mælist í vísitölu. Út af fyrir sig er rétt að niðurgreiðsla á vöruverði er til þess gerð að hafa áhrif á útreikning framfærsluvísitölu á Íslandi.

En það hefur líka sitt að segja í þessu máli, hvaða vörur eru valdar til þess að greiða niður. Sá hefur verið siður stjórnvalda um langan aldur að velja til þess einvörðungu landbúnaðarafurðir, en auðvitað er hægt að greiða niður fjölmargar aðrar mikilvægar neysluvörur, t.d. bensín fyrir bílaeigendur, rafmagn, húshitun og fjöldamargt annað. Vitaskuld hefur það sitt að segja fyrir landbúnaðinn og er vissulega stuðningur við hann, að afurðir hans skuli valdar úr öllum neysluvörum sem þjóðin greiðir niður. Enginn annar atvinnuvegur á Íslandi nýtur þess, að skattfé almennings, sem til niðurgreiðslu er varið, sé alfarið látið renna til að greiða niður framleiðsluvörur hans. T.d. íslenskir fataframleiðendur, sem nú eru að eigin sögn flestallir að fara á hausinn, ætli þeir vildu ekki gjarnan að eitthvað af skattfé almennings rynni til þess að greiða niður íslensk föt? Menn þurfa að ganga í fötum alveg eins og menn þurfa að borða mat! Skyldu ekki íslenskir fataframleiðendur hafa áhuga á slíku? Flestar húsgagnaverslanir landsins þrífast nú á því að selja innfluttar vörur þar sem íslenskur húsgagnaiðnaður er ekki lengur samkeppnishæfur. Skyldu þessir íslensku framleiðendur ekki hafa áhuga á að eitthvað af niðurgreiðslufénu rynni til þess að greiða niður framleiðsluvörur þeirra? Þetta er þó íslensk atvinnugrein, og fólk þarf húsgögn í íbúðir sínar ekkert síður en föt utan á skrokkinn á sér eða mat í magann á sér. Landbúnaðurinn á Íslandi nýtur þess hins vegar að hann hefur ávallt setið einn að niðurgreiðslum.

Í fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. er gert ráð fyrir að verja á árinu 1980 rúmum 24 milljörðum til þess að greiða niður vísitöluna á Íslandi með því að leggja 24 milljarða skatt á landsmenn til að lækka verð á landbúnaðarvörum. Þetta eru 488 þús. kr. útgjöld fyrir hverja meðalfjölskyldu í landinu. Hver meðalfjölskylda í þessu landi verður að snara út 488 þús. kr. á yfirstandandi ári til þess að greiða niður landbúnaðarvöruverð á innanlandsmarkaði. Skyldi ekki mega ætla að þessi útgjöld íslenskra heimila til þess að greiða matvæli ofan í okkur sé líka stuðningur við bændur og íslenskan landbúnað? Auðvitað liggur í augum uppi að svo er, enda vek ég athygli á að það var Stéttarsamband bænda sem í janúarmánuði s.l. óskaði þess mjög eindregið að niðurgreiðslur yrðu auknar, vegna þess að ef niðurgreiðslur á búvörum drægjust saman mundi sennilega draga talsvert úr innanlandsneyslu búvaranna, sem mundi aftur á móti auka útflutningsvandann. Það voru stéttarsamtök bændanna sjálfra sem óskuðu eftir að niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum innanlands yrðu auknar. Það sér auðvitað hver maður í hendi sér, að Stéttarsamband bænda gerði það vegna þess að hér var um beint hagsmunamál stéttarsamtakanna að ræða, að landsmenn yrðu látnir borga á árinu 1980 488 þús. kr. hver meðalfjölskylda til að lækka á innanlandsmarkaði verð á framleiðsluafurðum bænda. Auðvitað er þetta hagsmunamál fyrir landbúnaðinn. Niðurgreiðslur eru ekki fundnar upp fyrir bændur, síður en svo. En það skiptir þá vissulega máli hvernig niðurgreiðslunum er beitt. Ég er t.d. sannfærður um að ef sú ákvörðun yrði tekin að taka hluta af þessum 24 milljörðum, t.d. 4 milljarða, til þess að greiða niður aðrar neysluvörur en landbúnaðarvörur, t.d. rafmagn eða húshitun, mundi Stéttarsamband bænda mótmæla. Bændur mundu telja að það væri árás ákjör þeirra að breyta um niðurgreiðsluvenjur. Ég er alveg sannfærður um að þeir menn, sem hér hafa talað, mundu mótmæla því að slík breyting yrði gerð.

Það er ekkert lögmál til sem segir, að þegar menn ætla að greiða niður vísitöluvörur þurfi það endilega að vera búvörur. Það er hægt að greiða vísitöluna álíka mikið niður og gert er með niðurgreiðslum á búvörum með því að breyta niðurgreiðslunum á búvörum í fjölskyldubætur. Hvað eru fjölskyldubætur? Það eru niðurgreiðslur á vöruverði, nákvæmlega hliðstæðar niðurgreiðslum á búvöruverði. Munurinn er bara sá, að ef um fjölskyldubætur er að ræða ræður hver og einn neytandi hvaða vöru hann vill nota niðurgreiðsluféð til þess að greiða niður fyrir sig. Ef menn ætla að njóta góðs af niðurgreiðslum á búvöru verða menn að kaupa búvöru og ekkert annað en búvöru til að njóta ávaxtanna. Maður, sem t.d. kaupir sér föt, nýtur ekki góðs af niðurgreiðslufénu. Til þess að geta notið ávaxtanna af niðurgreiðslufénu verður maðurinn að hætta við að kaupa sér föt, en kaupa heldur mjólk eða smjör, og þeim mun meiri ábata sem maðurinn ætlar sér að hafa af niðurgreiðslufénu, þeim mun meira af landbúnaðarvöru, smjöri, kjöti og mjólk, verður maðurinn að kaupa. Þetta liggur alveg í augum uppi.

Ef hins vegar væri valin sú leið, sem oft hefur verið farin, að láta hluta af þessu fé koma sem niðurgreiðslu á vöruverði í formi fjölskyldubóta, þannig að neytandinn ráði sjálfur hvernig hann notar þá peninga, þá gæti hann tekið þá ákvörðun að nota peningana að hluta til að greiða niður verð á klæðnaði á sig og fjölskyldu sína eða á húsbúnaði eða á heimilistækjum. Það kostar álíka mikið eða álíka lítið hvert vísitölustig í slíkri niðurgreiðslu í fjölskyldubótum og að greiða niður hvert vísitölustig með niðurgreiðslum á landbúnaðarvörum. En stjórnvöld hafa tekið þá ákvörðun að svipta neytendur alfarið öllu frelsi í því að ráða, hvernig þeir nota niðurgreiðslurnar. Stjórnvöld hafa ákveðið að skattleggja sérhverja meðalfjölskyldu á Íslandi í ár um 488 þús. til þess að afla fjár til niðurgreiðslna. Og stjórnvöld hafa af vísdómi sínum jafnframt ákveðið að ef fjölskyldur á Íslandi ætla að njóta góðs af þessari niðurgreiðslu verði þær að gjöra svo vel að kaupa fyrir peningana smjör, kjöt og mjólk. Ef þær kaupa eitthvað annað njóta þær ekki góðs af niðurgreiðslunum.

Hæstv. landbrh. brosir að þessu, en þetta er engu að síður staðreynd. Þessi niðurgreiðsla er ekki til annars gerð en að lækka vísitölubætur til launafólks. Við getum keypt álíka mörg vísitölustig með því t.d. að nota 14 milljarða af þessum 24 í niðurgreiðslur á búvöruverði og 10 milljarða af þessum 24 í fjölskyldubætur. En hæstv. landbrh. vill það ekki. Hann vill ekki að fólkið, sem borgar þennan skatt, 488 þús. kr., fái neinu að ráða á hvaða vörum niðurgreiðslan kemur til með að lenda. Hæstv. landbrh. vill ráða því sjálfur og segja við fólkið í landinu: Þið skuluð kaupa kjöt, mjólk og smjör ef þið ætlið að fá eitthvað af þessum peningum til.baka. Þeim mun meira kjöt sem þið borðið, þeim mun meiri mjólk sem þið drekkið og þeim mun meira smjör sem þið notið ofan á brauðið, þeim mun meira af peningunum fáið þið til baka. Þetta var aðferðin sem Lúðvík Jósepsson og Alþb.-menn ætluðu að beita til þess að fá íslenska neytendur til að borða allar landbúnaðarvörurnar. Þeir sögðu: Málið er mjög einfalt. Við skulum skattleggja fólkið fyrst nógu mikið, kannske tvisvar sinnum meira en nú er gert, kannske þannig að hver fjölskylda sé skattlögð upp á millj., en ekki 488 þús. Þetta fé skulum við síðan nota til þess að greiða niður landbúnaðarvöruverðið þangað til búvörurnar eru orðnar svo ódýrar að fólkið étur tvisvar sinnum meira af þeim en það vill. Þetta var hin einfalda kenning Lúðvíks Jósepssonar og Alþb.-manna. Þetta var hin einfalda kenning sem menn muna að Lúðvík Jósepsson boðaði um allar sveitir þessa lands. Lúðvík Jósepsson sagði á bændafundum hverjum á eftir öðrum: Það er enginn offramleiðsluvandi í landbúnaðinum. Við framleiðum ekki of mikið af landbúnaðarafurðum, síður en svo. Búvörurnar eru bara of dýrar miðað við kaupgjald í landinu. Ef annaðhvort kaupgjaldið hækkar eða búvörurnar lækka éta Íslendingar alla framleiðsluna. Og ég veit að hæstv. landbrh. og þeir hv. framsóknarmenn, sem hér sitja, muna vel eftir að þessi var boðskapurinn. En oft vill verða hjá þeim Alþb.-mönnum að árangurinn fer ekki eftir því sem ætlað var.

En það er ekki nóg með að það eigi að skattleggja um 488 þús. kr. hverja meðalfjölskyldu í landinu til þess að greiða landbúnaðarvörur niður í sjálf okkur svo við freistumst til að éta meira en við ella mundum gera. Við þurfum líka að flytja út hvorki meira né minna en þriðja hvern dilkskrokk sem framleiddur er í landinu. Þrátt fyrir hinar gríðarlegu skattálögur á landsmenn, sem notaðar eru til að lækka verð innanlands á búvörum svo menn fáist til að éta meira, torga Íslendingar ekki nema tveimur dilkskrokkum af hverjum þremur sem til falla í landinu. 1/3 framleiðslunnar þurfum við að flytja út. Við þurfum að flytja hana út til Norðurlanda og við þurfum hreinlega að gefa frændum okkar á Norðurlöndum meginhluta verðsins svo að þeir fáist til þess að borða k jötið okkar. Og hvað skyldum við þurfa að borga mikið á Íslandi í ár til þess að geta gefið nágrönnum okkar í matinn með þessum hætti? Jú, við þurfum að borga, eftir því, sem sagt er í fjárlagafrv., 8.4 milljarða kr. á þessu ári m.a. með ostum ofan í Bandaríkjamenn og Tékka. Þeir greiða 15–20% af framleiðslukostnaði ostsins: En við Íslendingar, íslenskir skattborgarar, þurfum að greiða 80–85% af framleiðslukostnaðinum svo að Tékkar og Ameríkumenn fáist til að éta þennan ost. Það er okkar þróunaraðstoð við þessar ríku þjóðir. Hvað skyldum við þurfa að borga mikið með íslenskum matvælum á árinu 1980 ofan í erlenda neytendur? Jú, fjárlagafrv. segir: 8.4 milljarða. Það er 160 þús. kr. skattur á hverja meðalfjölskyldu á Íslandi. Til þess að geta gefið Bandaríkjamönnum, Tékkum, Norðmönnum, Færeyingum og Bretum að borða íslenskar landbúnaðarafurðir þarf hver meðallaunafjölskylda á Íslandi að snara út 160 þús. kr. En það er ekki nóg. Það vantar næstum því jafnháa upphæð til viðbótar, og nú erum við að ræða um að leggja á launamannafjölskylduna 60 þús. kr. til viðbótar, þannig að hún mun bera á árinu 1980 ekki 160 þús. kr., heldur 240 þús. kr. skatt fyrir að gefa Tékkum, Bandaríkjamönnum og frændum okkar í Skandinavíu að borða. Og það er ekki nóg. Framleiðsluráð landbúnaðarins segir að það vanti 6.8 milljarða í viðbót, og það vill fá þessa 6.8 milljarða frá skattborgurum á Íslandi á þessu ári til viðbótar hinu. Þá væru íslenskir skattborgarar farnir að borga að meðaltali hver fjölskylda í landinu 360 þús. kr. á árinu 1980 í þróunaraðstoð við Bandaríkin, við Stóra-Bretland, við Tékkóslóvakíu, við frændur okkar á Norðurlöndum o.s.frv. Svo eru menn að tala um að það sé að ástæðulausu sem verið sé að gagnrýna slíka landbúnaðarpólitík! Hver fjölskylda í landinu er fyrst skattlögð um 488 þús. kr. á einu einasta ári til að hægt sé að borga kostnaðinn af þeim tilraunum sem gerðar eru til að fá landsmenn sjálfa til að éta meira af framleiðsluvörum landbúnaðarins, og síðan er lögð á sömu fjölskyldu 360 þús. kr. skattbyrði að auki svo að hægt sé að gefa útlendingum að borða!

Ég ætla ekki að fara frekar út í þessa sálma, því að ástæða mun gefast til þess síðar. Ég ætla að snúa mér að því frv. sem hér er til umr., en óska eftir því við hæstv. forseta, að hæstv. fjmrh. verði viðstaddur. Ég þarf að spyrja hann nokkurra spurninga. — Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir að gefa sér tíma og skal ekki verða langorður. En ástæðan fyrir því, að ég óskaði eftir að hæstv. ráðh. væri viðstaddur, er sú, að ég þarf að bera upp örfáar spurningar við hann vegna frv. um ábyrgðarheimildir o.fl. sem hér er nú til umr. Áður en ég geri það vil ég fara fyrst mjög fáum orðum um frv. sjálft.

Í fyrsta lagi er það ekkert óeðlilegt, við slíkar aðstæður eins og hér eru, þó það komi tilmæli frá samtökum bænda eða Framleiðsluráði landbúnaðarins um ríkisábyrgð vegna lántöku. Slíkt fordæmi hefur iðulega verið gefið. M.a. hefur verið skrifað um það í blöðunum, að árið 1975 hafi Flugleiðum hf. verið veitt ríkisábyrgð fyrir láni að upphæð 2 milljarðar kr. Hæstv. fjmrh. hefur verið beðinn um að sú ábyrgðarheimild verði nú gerð virk þannig að ríkissjóður veiti Flugleiðum hf. umrædda ábyrgð. Hæstv. fjmrh. hefur talið nauðsynlegt, áður en hann veitir ábyrgðina, að láta fara fram sérstaka könnun á aðstæðum Flugleiða hf., m.a. til að kanna hvort óhætt sé fyrir ríkissjóð og skattborgara að taka á sig þessa skuldbindingu. Nú er um að ræða þriðjungi hærri ríkisábyrgð til Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Það er gert ráð fyrir að skattborgarar veiti Framleiðsluráði landbúnaðarins ríkisábyrgð fyrir 3 milljörðum kr. á sama tíma og hæstv. fjmrh. veiti ríkisábyrgðarheimild til Flugleiða upp á 2 milljarða. Nú hef ég áhuga á að vita hvort hæstv. ráðh. telur ástæðu til að þingflokkarnir, fulltrúar skattborgara í þessu ágæta og reisulega húsi, kanni með svipuðum hætti og þeir eiga að kanna varðandi Flugleiðamálið hvort skattborgurum sé óhætt að veita Framleiðsluráði landbúnaðarins umbeðna fyrirgreiðslu, og þá m.a. hvort Framleiðsluráð landbúnaðarins hafi þau veð til þess sem hæstv. ráðh. telur nauðsynlegt að gengið sé úr skugga um að Flugleiðir hf. hafi. Þetta er auðvitað framkvæmdaatriði sem ekki skiptir neinum sköpum í þessu sambandi, vegna þess að það hefur ekki alltaf gerst að þingflokkarnir hafi verið látnir athuga sérstaklega hvort einhverjum tilteknum aðila væri treystandi til að fá ríkisábyrgð. En það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt þó svo að það sé leitað eftir ríkisábyrgð í þessu sambandi og hefur oft verið gert.

En þá kemur spurning númer tvö til hæstv. fjmrh.: Getur hæstv. ráðh. gert það, sem enginn af starfsmönnum Alþ. hefur getað gert fyrir mig, sýnt mér eitt fordæmi þess að hér á hinu háa Alþingi hafi verið lagt fram frv. til l. um ríkisábyrgð vegna lántöku þriðja aðila? Í 2. gr. segir að ríkissjóður skuli greiða afborganir og vexti. Hvenær hefur það gerst áður, að veitt hafi verið ríkisábyrgð fyrir lántöku þriðja aðila, eins og segir í 1. gr. frv. að fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs sé heimilt að ábyrgjast með sjálfsskuldarábyrgð lán allt að einhverri tiltekinni upphæð sem einhver aðili úti í bæ tekur? Svo kemur 2. gr., sem segir að ríkissjóður skuli annast afborganir, vexti og allan kostnað. Ég hef spurst fyrir um það hér í þinginu, hvort til séu nokkur fordæmi um svona frv., hvort menn muni eftir því, að svona frv. hafi nokkurn tíma áður verið flutt. Ég hef fengið nei. Menn vita ekki til þess hér að svona frv. hafi áður verið flutt. Getur hæstv. fjmrh., sem flytur þetta frv., bent á einhver fordæmi? Ég held ekki.

Við skulum taka eitt dæmi. Getur maður, sem er að byggja hús og þarf á láni að halda, tekið lán hjá Húsnæðismálastofnun og farið síðan t.d. í ríkissjóð til að borga lánið? Get ég t.d. ef ég þarf á bankaláni að halda, hafið lán í Landsbankanum og falið síðan hæstv. fjmrh. að borga afborganir og vexti? Eða svo að við tökum enn þá kunnari samlíkingu: Gæti ég t.d. gengið frá víxli í Landsbanka Íslands, þar sem hæstv. fjmrh. væri ábekingur, sem væri þannig að ég tæki lánið, en hæstv. fjmrh., sem ætlar að veita mér ábyrgð fyrir lántökunni, sæi um afborganir, vexti og allar greiðslur kostnaðar? Ég er hræddur um að færu að gerast skrýtnir hlutir á íslenskum lánamarkaði ef þetta væri almennt tíðkað. Ég veit ekki um neitt dæmi þess, að ríkissjóður hafi veitt aðila úti í bæ ábyrgðarheimild, en í sama frv. hafi verið sagt að ríkissjóður ætlaði sér að greiða afborganirnar. Auðvitað er það ekki lántaka aðilans úti í bæ. Lántökuaðilinn úti í bæ er gersamlega óþarfur milliliður. Það, sem hér er að gerast, er að ríkissjóður er einfaldlega að taka lán og taka á sig að borga það lán.

Ef menn skoða heitið á þessu frv. sést fyrst hversu broslegt málið er. Frv. heitir: Frv. til l. um ábyrgðarheimildir og greiðsluheimildir vegna lántöku. Hvað er frv. um greiðsluheimildir? Jú, alþm. hafa fengið að sjá það að undanförnu. Frv. um greiðsluheimildir er lagt fram og afgreitt vegna þess að engin fjárlög eru. Þegar fjárlög eru, svo maður tali nú ekki um þegar fjárlög eru í samningu, á ekki að þurfa neinar greiðsluheimildir, því að fjárlögin eru greiðsluheimildirnar — ekki satt?

Nú er fjárlagafrv. hér til afgreiðslu. Að vera svo jafnframt að biðja Alþ. samþ. greiðsluheimildir fyrir ríkissjóð er ekki bara barnalegt, það er bæði broslegt og hlægilegt. Það hefur oft komið fyrir að ríkissjóður hafi veitt ábyrgðarheimild til þriðja aðila úti í bæ, jafnvel þó vitað hafi verið að sá aðili mundi ekki geta staðið í skilum með afborganir og vexti af láninu. Það var t.d. gert þegar ríkissjóður veitti ábyrgð vegna kaupa á Herjólfi og veitti Skallagrími hf. ábyrgð vegna kaupa á Akraborg. Þá lá það fyrir nokkuð ljóst, að aðilinn, sem var að taka lánið, mundi ekki, a.m.k. fyrst framan af, geta staðið undir vöxtum og afborgunum og ríkissjóður mundi þurfa að hlaupa undir bagga. En engum datt þá í hug að gera ráð fyrir því í ábyrgðarheimildinni, að svo yrði, heldur fór einfaldlega þannig, eins og jafnan hér í slíkum tilvikum, að lántökuaðilinn komst í vanskil við Ríkisábyrgðasjóð, gat ekki staðið í skilum við Ríkisábyrgðasjóð, þannig að Alþ. þurfti í fjárlögum að ákvarða að verja sérstöku fé til viðkomandi aðila til að gera honum fært að endurgreiða lánið. Slík eru hin venjubundnu vinnubrögð sem Alþ. viðhefur og á að viðhafa í þessu máli sem öðrum.

Það er sjálfsagt athugandi að veita Framleiðsluráði landbúnaðarins ríkisábyrgðarheimild fyrir láni. Það getur vel komið til mála, að ríkissjóður styðji Framleiðsluráð landbúnaðarins í greiðslu lánsins ef kemur í ljós að Framleiðsluráðið getur ekki staðið í skilum við Ríkisábyrgðasjóð. En það er dæmigert fjárlagamál sem á að afgreiða við fjárlagaafgreiðslu, en ekki með jafnheimskulegum og fordæmalausum hætti og lagt er til að gert verði hér. Ef það er hægt, hvað er þá á móti því að þau vinnubrögð verði tekin upp á hinu háa Alþingi að t.d. verði lagt fram frv. til l. um ábyrgðarheimildir og greiðsluheimildir vegna lántöku Ríkisútvarpsins til byggingar nýs útvarpshúss, þar sem sagt er í 1. gr.ríkisstj. sé heimilt að ábyrgjast lán fyrir Ríkisútvarpið allt að 6 millj. kr. til byggingar útvarpshúss og sagt í 2. gr. að ríkissjóður greiði vexti og afborganir af láninu að svo miklu leyti sem Ríkisútvarpið geti ekki staðið undir því sjálft? Það er hægt að leysa bókstaflega öll eða flestöll málefni fjárlaga með þessum hætti. Það er orðið þarflaust að vera að afgreiða fjárlög á hinu háa Alþingi fyrst hægt er að fara svona að. Það er opin leið fyrir þá menn, sem áhuga hafa, að leysa öll vandamál fjárlagagerðar með útgáfu svona fjárlagakálfa, eins og hæstv. fjmrh. er nú að gera.

Það er algerlega fordæmalaust, algerlega fráleitt og raunar broslegt að leggja fram svona frv. Þess vegna hef ég leyft mér að flytja brtt. við frv. þar sem gert er ráð fyrir að 2. gr. hreinlega falli niður, ábyrgðin verði veitt, en það verði viðfangsefni fjárlagagerðar hverju sinni hvort ríkissjóður á að styðja lántakandann til þess að greiða afborganir og vexti af láninu vegna þess að hann getur það ekki sjálfur. Ég vil óska eftir því við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða fyrir þessari skriflegu tillögu.

Að lokum er aðeins ein spurning sem ég hef áhuga á að fá svar við hjá hæstv. fjmrh. Nú leggur hæstv. ráðh. fram frv. til l. um að útvega fé að upphæð 3 milljarðar kr. vegna, eins og hæstv. ráðh. segir, skorts á útflutningsbótum frá árinu 1979. Áætlaður útflutningsbætur fyrir árið 1980 eru 8.4 milljarðar kr., og að sögn Framleiðsluráðs landbúnaðarins skortir þá 6.8 milljarða kr. vegna ársins 1980 til þess að Framleiðsluráðið fái úr ríkissjóði fullar útflutningsbótagreiðslur. Auðvitað hljóta alþm. að hafa áhuga á, þegar þeir fjalla um fjárvöntunina frá árinu 1979, að vita hvað hæstv. ríkisstj. ætlar að gera varðandi fjárvöntunina fyrir árið 1980. Og ég spyr hæstv. ráðh.: Eru upphaf og endir málsins þessir 3 milljarðar kr. sem hér er verið að biðja um? Er það svarið við tilmælum frá Framleiðsluráði landbúnaðarins um 3 milljarðana frá árinu 1979 og 6.8 milljarðana frá árinu 1980, að það eigi að fá 3 milljarðana, en ekki 6.8? Er það svarið, eða eigum við eftir að fá annað frv. frá hæstv. ráðh., annaðhvort í vor eða næsta haust, þar sem afla á umræddra 6.8 milljarða til viðbótar? Þetta verða þm. auðvitað að fá að vita þegar þeir eru nú að afgreiða útflutningsbætur til viðbótar á árinu 1979. Hvað ætlar ríkisstj. að gera í fjárvöntun vegna ársins 1980? Á að standa við fyrirheitin sem óbeint eru gefin í málefnasáttmála ríkisstj. og beinlínis voru gefin af hæstv. landbrh. á Búnaðarþingi, að það ættu að koma til viðbótar við það fé, sem ég hef nefnt hér, 8.4 milljarða, 3 milljarðar frá árinu 1979 og 6.8 milljarðar til viðbótar? Á að standa við þessi fyrirheit, eða hefur umr. um landbúnaðarmálin orðið til þess að hæstv. ríkisstj. hefur heykst á því?