19.12.1979
Neðri deild: 6. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

44. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Virðulegi forseti. Þegar lög nr. 40 frá 1978, um tekjuskatt og eignarskatt, voru samþ. á Alþingi var ljóst að skattlagning og framkvæmd innheimtu beinna skatta á árinu 1980 gæti ekki átt sér stað nema til kæmi ný lagasetning af hálfu Alþingis. Ástæða þess var sú, að samhliða frv. því sem síðar varð að lögum nr. 40 frá 1978 var flutt frv. um staðgreiðslu opinberra gjalda. Voru ákvæði tekjuskattsfrv., sem síðar varð lög nr. 40 frá 1978, öll miðuð við það greiðslukerfi. Staðgreiðslufrv. náði ekki fram þá á þinginu og er nú fullljóst að ekki verður af staðgreiðslu opinberra gjalda á árinu 1980. Þegar af þessum ástæðum ber brýna nauðsyn til að breyta lögum nr. 40 frá 1978 og aðlaga ákvæði þeirra eftirágreiðslukerfi skatta. Slík aðlögun er annar meginþáttur í frv. því sem hér er til umr. Hinn meginþáttur frv. eru tillögur til endurbóta á þeim ákvæðum laga nr. 40 frá 1978 sem ætlað var að aðlaga skilgreiningu skattstofna verðbólgunni. Að því er þann þátt varðar má segja að í flestum efnum sé byggt á meginstefnumörkun þeirri sem fólst í lögum nr. 40 frá 1978, en þeirri hugsun, sem í þeim lögum fólst, er fundinn nýr farvegur að vissu leyti og sitthvað mótað á nokkuð annan hátt en þar var. Auk þessara tveggja meginefnisbreytinga hefur frv. að geyma allnokkuð af hreinum tæknilegum lagfæringum á texta laga nr. 40 frá 1978, eins og er reyndar augljóst hverjum þeim sem lítur yfir frv. það sem hér er til umr.

Verulegur hluti frv. þessa lýtur að breytingum á ákvæðum um skattlagningu atvinnurekstrar. Í 43. og 44. gr. laga nr. 40 frá 1978 er kveðið á um tekjufærslu rekstraraðila vegna rýrnunar skulda í verðbólgu. Þar voru teknar annars vegar allar skuldir rekstraraðila, en hins vegar skattalega óverðtryggðar eignir hans. Væru skuldirnar hærri og aðilinn því að hagnast á verðbólgunni, þar sem rýrnun á höfuðstól skuldanna varð meiri en rýrnun á verðmæti peningaverðseigna, var kveðið á um að sá hagnaður aðila af verðbólgunni skyldi færður upp í sérstakan mótreikning fyrninga er síðan skyldi færður til takmörkunar á gjöldum með tilteknum hætti. Með 22. gr. frv. þess, er hér liggur fyrir, eru gerðar tillögur til nokkurra breytinga á þessum ákvæðum. Eru tillögur þessar tvíþættar. Lúta þær annars vegar að því að taka tillit til verðbólgunnar í báðar áttir, ef svo má segja. Eldri ákvæði tóku einungis tillit til verðbólgunnar að þessu leyti ef atvinnureksturinn var að hagnast á henni, þ.e.a.s. ef skuldir hans voru hærri en skattalega óverðtryggðar eignir. Með 22. gr. frv. þessa er gert ráð fyrir að einnig verði tekið tillit til verðbólgu í því tilviki er skattalegar eignir aðila, þ.e.a.s. peningaverðseignir hans, eru hærri en skuldir og hann því að tapa á verðbólgunni. Verður að telja eðlilegt að leiðrétting sem þessi eigi sér stað í báðar áttir. Hins vegar er gert ráð fyrir að mótreikningur fyrninga verði lagður niður og sá hagnaður, sem menn hafa af rýrnun höfuðstólsskulda í verðbólgunni, verði allur færður til tekna í einu lagi í stað þess að hlaða honum upp á mótreikning fyrninga.

Á móti þessu er svo gert ráð fyrir annars konar gjaldfærslu fjármagnskostnaðar en lög nr. 40 frá 1978 gera ráð fyrir. Er gerð tillaga um að gengismunur og verðbætur verði allar færðar til gjalda á því ári sem gengisbreyting á sér stað eða vísitölubreyting, í stað þess að lög nr. 40 frá 1978 gera ráð fyrir að gjaldfærsla dreifist á afborgunartíma skuldarinnar, og er ákvæðum um tekjufærslu fjármagnstekna breytt á hliðstæðan hátt.

Á móti beinni tekjufærslu á verðbólguhagnaði aðila af skuldarýrnuninni kemur þannig í mörgum tilvikum aukin gjaldfærsla fjármagnskostnaðar strax á því ári sem höfuðstóll viðkomandi skuldar breytist auk þess sem kveðið er á um heimild til sérstakra flýtifyrninga sem nemur 25% af tekjufærslunni. Ástæðan fyrir þessari heimild er sú, að bætt eignarstaða aðila, sem leiðir af rýrnun höfuðstóls skuldar í verðbólgu, þarf ekki nauðsynlega að skapa aukna greiðslugetu þegar á því ári sem rýrnun höfuðstólsins á sér stað. Þykir því nauðsynlegt að heimila vissa dreifingu á skattlagningunni yfir afborgunartíma skuldanna. Með þessari aðferð ætti að fást mun raunsannari mynd af raunverulegri afkomu fyrirtækja en fengist hefur með hefðbundnu uppgjöri eftir ákvæðum eldri skattalaga. Með þessu á hinn raunverulegi verðbólguhagnaður að koma til skattlagningar og ættu þessi breyttu ákvæði skattalaga að geta stuðlað að því að beina fjármagni í arðbæra fjárfestingu og hamla gegn fjárfestingu í steinsteypu og öðrum slíkum eignum sem gerð er eingöngu í því skyni að hagnast á verðbólgunni.

Í skattalögum hefur um nokkurt skeið verið heimilt að færa matsverð vörubirgða niður um 30%. Grein þessari var ætlað að vega á móti verðbreytingum vörubirgða og erfiðleikum fyrirtækja við að endurnýja vörubirgðir í verðbólgu. Með þeim ákvæðum, sem nú var lýst um tekju- og gjaldfærslu vegna verðbreytinga, eru forsendur þessarar niðurfærsluheimildar að verulegu leyti breyttar. Er því gert ráð fyrir að niðurfærsluheimildin verði skert verulega. Þar sem nokkur kostnaður og áhætta fylgir þó ávallt geymslu og eignarhaldi vörubirgða er talið eðlilegt að heimila niðurfærslu allt að 10%, en gert er ráð fyrir að þessi skerðing á niðurfærsluheimildinni sé gerð í áföngum á 4 árum þannig að hámark niðurfærsluheimildarinnar lækki um 5% á hverju ári.

Þá felast í frv. nokkur breytt ákvæði um fyrningar eigna í atvinnurekstri. Þeirri meginreglu að fyrna skuli að endurmetnu kostnaðarverði eða stofnverði er haldið. Hins vegar er kveðið á um skyldu til fyrninga, en samkv. núgildandi lögum er mönnum heimilt að velja fyrningarhlutföll allt að ákveðnu hámarki. Þykir eðlilegt að skattaðili geti ekki haft áhrif á endurmat eigna sinna með mismunandi vali fyrningarhlutfalla. Sérstaklega er hætta á að aðili velji að fyrna ekki ef rekstur gengur illa og um taprekstur er að ræða, en slík tilhneiging leiðir til þess að viðkomandi eignir verði ofmetnar og reikningsskilin gefi ranga mynd af hag fyrirtækjanna. Hér er kveðið á um skyldu til fyrninga, og eru þau fyrningarhlutföll, sem mönnum er skylt að beita, nokkru lægri samkv. frv. en hámark heimilaðra fyrningarhlutfalla var í lögum nr. 40 frá 1978.

Að því er atvinnureksturinn varðar vil ég að lokum nefna þá breytingu sem felst í 35. gr. frv. og lýtur að því einsskiptisendurmati á fyrnanlegum eignum sem fara verður fram áður en hið árlega endurmat samkv. lögunum getur átt sér stað. Með þessari grein er ekki gerð tillaga um breytingu á endurmati á sjálfu stofnverði þeirra eigna sem aðilar hafa átt fyrir gildistöku laga nr. 40 frá 1978, en hins vegar er kveðið á um nokkuð breytta aðferð við endurmat á áður fengnum fyrningum. Í stað þess að framreikna raunverulega fengnar fyrningar með verðstuðli kaupárs eignanna er nú kveðið á um að þeim fyrningarhlutföllum, sem frv. fjallar um, sé raunverulega veitt á framreiknað verð eignanna og eftirstöðvar fyrningarverðs þannig fengnar út að vissu leyti án tillits til þeirra fyrninga sem raunverulega-hafa verið notaðar á liðnum árum. Með þessum hætti er sneitt hjá því ofmati á fengnum fyrningum sem fólst í eldri aðferð, og ætti þessi aðferð að leiða til þess að ákvörðun söluhagnaðar á eignum, sem notaðar hafa verið í atvinnurekstri fyrir gildistöku nýju tekjuskattslaganna, verði sanngjarnari. Þá leiðir reglan almennt til þess að ófyrndur hluti endurmetins stofnverðs hækkar frá því sem áður var.

Þau vandamál, sem verðbólgan skapar varðandi skattlagningu atvinnurekstrar, eru að mörgu leyti hliðstæð að því er varðar einstaklinga. Með lögum nr. 40 frá 1978 er ekki tekið tillit til áhrifa verðbólgu hjá einstaklingum nema að litlu leyti. Fengnir vextir eru í mörgum tilvikum taldir til tekna og skattlagðir, en greiddir vextir aftur á móti almennt frádráttarbærir. Vaxtahlutföll hafa hin síðari ár farið síhækkandi til þess að vega upp á móti verðbólgunni. Afleiðingin af þessu hefur orðið sú, að eigendur fjárkrafna hafa orðið að sæta því að síhækkandi fjármagnstekjur þeirra hafa verið skattlagðar, enda þótt í reynd hafi bilið milli verðbólgustigs og vaxtatekna síst mjókkað og tap þeirra af því að eiga þessar kröfur því fremur aukist en hitt. Á sama hátt hafa skuldarar getað gjaldfært æ hærri vaxtafjárhæðir á sama tíma og hagnaður þeirra af lækkun höfuðstóls skuldanna hefur aukist í takt við vaxandi verðbólgu. Er fullljóst að ákvæði skattalaga hafa þannig verið verulegur þrándur í götu við framkvæmd þeirrar nýju vaxtastefnu sem verið er að innleiða í áföngum í þjóðfélaginu.

Með frv. þessu er lagt til að veruleg breyting verði gerð hér á. Fela tillögurnar í sér að vaxtatekjur verði ekki skattlagðar og að vaxtagjöld verði almennt ekki frádráttarbær. Frá þessari meginreglu um skerðingu frádráttarbærni vaxtagjalda einstaklinga er þó gerð sú mikilvæga undantekning, að vextir allt að 3 millj. kr. á ári af lánum sem tengd eru öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota með tilteknum hætti, hvort sem kostnaðurinn er í formi vaxtagjalda, verðbóta eða gengistaps. Ákvæði þessi, ef að lögum verða, hafa í för með sér nokkra breytingu á skattbyrði sparifjáreigendum til hagsbóta og skuldurum til íþyngingar. Ekki þarf að efast um réttmæti slíkrar breytingar við þær aðstæður sem við búum nú við. Varhugavert þykir hins vegar að gera breytingar á þessum þáttum þegar við skattlagningu á árinu 1980, þar sem vera kann að gjaldendur hafi að einhverju leyti tekið mið af gildandi ákvæðum laga nr. 40 frá 1978 um þetta efni við ákvarðanatöku um fjármál nú á þessu ári. Er því lagt til í 40. gr. frv., að ákvæði a-, b- og d-liðar 10. gr. og ákvæði 32. gr. frv. um breytta meðferð á vaxtatekjum og gjöldum komi ekki til framkvæmda fyrr en einu ári síðar, þ.e.a.s. við skattlagningu 1981. Þannig veitist mönnum nokkur aðlögunartími að hinum breyttu reglum í þessu efni. Af þessu leiðir að vegna álagningar skatta á árinu 1980 vegna tekna ársins 1979 og eigna í lok þess árs skuli gilda ákvæði 32. gr. og 78. gr. laga nr. 40 frá 1978, eins og þau hljóða nú.

Þá er að geta þess, að ákvæði 2. mgr. 6. gr. frv. fela í sér breytingar á gildandi reglum um skattlagningu söluhagnaðar manna af sölu lausafjár sem ekki er notað í atvinnurekstri eða í sjálfstæðri starfsemi. Ég vil taka það fram í sambandi við frestun á gildistöku þeirra ákvæða, sem frv. gerir ráð fyrir að beitt verði við meðferð vaxtatekna og vaxtagjalda, að þó svo að lagt sé til að þessi meðferð komi ekki til framkvæmda fyrr en við skattlagningu 1981, m.a. til þess að menn geti betur skoðað áhrif hennar, legg ég mjög mikla áherslu á að út á þessa braut verði farið. Það mun m.a. hafa þau æskilegu áhrif á fasteignaviðskipti í þessu landi að mönnum yrði þá óhætt að láta það vera, sem nú er mjög gert, að krefjast mjög hárrar útborgunar við sölu á íbúðarhúsnæði til þess að tryggja sér að sleppa skaðlaust í verðbólgu. Miðað við þá breyttu skattmeðferð, sem frv. gerir ráð fyrir í þeim búningi sem það er nú að taki gildi við skattlagningu 1981, er sú þörf að krefjast mjög hárrar útborgunar í fasteignaviðskiptum til þess að tryggja raungildi andvirðisins ekki lengur fyrir hendi, þar sem verðbótaþátturinn í fasteignaveðunum, sem menn fá greidd, er ekki skattlagður sem tekjur, heldur kemur í stað þess að menn þurfi að krefjast mjög hárrar útborgunar. Slík breyting á meðferð vaxtaskattlagningar mundi mjög fljótlega hafa í för með sér mjög æskilegar og þarfar breytingar á fasteignamarkaði og mundi án efa auðvelda mörgum stórkostlega að komast yfir eigið húsnæði. Ég legg því mikla áherslu á að þó svo að lagt sé til að þetta ákvæði komi ekki til framkvæmda fyrr en við skattlagningu 1981 náist samstaða um það í þinginu að svo verði, vegna þess að þar yrði ekki aðeins um að ræða skatttæknilegt mál, sem ástæða er til að gera breytingar á, heldur ekki síður mikilvægt félagslegt mál sem mundi hafa í för með sér mjög heillavænleg áhrif á fasteignaviðskipti í landinu.

Samkv. 15. gr. laga nr. 40 frá 1978 er söluhagnaður af sölu lausafjár, sem eigi er heimilt að fyrna, ávallt skattskyldur án tillits til eignarhaldstíma. Þar sem söluhagnaðurinn telst mismunur á söluverði og kaupverði upphækkuðu eftir verðbreytingarstuðli er hins vegar ljóst að sjaldnast verður um söluhagnað að ræða við sölu á eignum sem hafa tiltölulega skamman endingartíma. Afleiðingin af því að hafa þessa reglu almenna yrði því sú, að á almenning og skattyfirvöld yrði lögð allveruleg vinna, t.d. fyrir uppgjör og yfirferð vegna sölu einkabíla, án þess að um skattskyldan söluhagnað yrði að ræða nema í undantekningartilvikum. Slík skriffinnska án verulegs tilgangs er að sjálfsögðu óæskileg. Er því lagt til í 2. mgr. 6. gr. frv. að söluhagnaður manna af lausafé, sem ekki er notað í atvinnurekstri, sé skattfrjáls, nema sala þessara eigna falli undir atvinnurekstur skattaðila eða eignanna hafi verið aflað til að selja þær aftur með hagnaði. Er sönnunarbyrðin látin hvíla á gjaldanda, enda hætt við að reynt verði að misnota þessa hagræðingarreglu. Ljóst er að skattyfirvöld geta ekki gert mjög strangar kröfur til þessarar sönnunar, en atriði, sem hafa mundu veruleg áhrif á sönnunarmatið, væru t.d. fjöldi þeirra lausafjármuna, t.d. bifreiða, sem viðkomandi gjaldandi hefði selt á skattárinu og hinum næstu á undan, aðstæður við kaup og sölu þessara lausafjármuna, þau not sem gjaldandi hefði haft af hlutnum á eignarhaldstímanum o.s.frv.

Með lögum nr. 40 frá 1978 var gerð veruleg breyting á skipan ríkisskattanefndar, en samkv. þeim er gert ráð fyrir að í nefndinni eigi sæti þrír menn sem hafi það starf að aðalstarfi. Núgildandi skipan er sú, að í nefndinni eiga sæti þrír menn og þrír til vara. Ekki er gerð sú krafa að þeir hafi starfiðað aðalstarfi. Frv. er farið milli leið. Gerð er sú krafa, að tveir menn hafi starfið að aðalstarfi, en fjórir ekki. Með því er tryggt að fleiri aðilar en hinir fastráðnu nm. komi sjónarmiðum á framfæri, og gætu slíkir menn komið í stað meðdómara sem oft eru kallaðir til hjá dómstólum. Breytingin gerir einnig ráð fyrir að nefndin geti starfað í tvennu lagi, sem tryggir hraðari afgreiðslu mála.

Eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar áðan skortir ákvæði um innheimtu skatta og ábyrgð á þeim í lög nr. 40 frá 1978. Skýringin á því er sú, eins og áður sagði, að samhliða frv. því, sem síðar varð að lögum nr. 40 frá 1978, var flutt frv. til l. um staðgreiðslu opinberra gjalda og voru innheimtuákvæði um tekju- og eignarskatt í því frv. Staðgreiðslufrv. dagaði uppi í meðförum þingsins, eins og kunnugt er, og því skortir í lögum nr. 40 1978 ákvæði um innheimtu skatta og skyld efni. Í frv. þessu er lagt til að úr þeirri vöntun verði bætt með því að bæta nýjum kafla inn í lögin sem fjallar um innheimtu skatta og skyld efni, sbr. 34. gr. frv. Sá kafli felur í raun ekki í sér neinar stórvægilegar breytingar á núverandi skipan þessara mála. Ég vil þó geta helstu breytinga sem kaflinn felur í sér.

Samkv. ákvæðum 110. gr. í hinum nýja kafla, sbr. 34. gr. frv., er lagt til að formi fyrirframinnheimtu verði breytt frá því sem nú er, en slík breyting er nauðsynleg vegna þeirrar breyttu álagningarframkvæmdar sem lög nr. 40 frá 1978 kveða á um. Í stað þess að ákveða fyrirframgreiðslu í heild sem tiltekinn hundraðshluta álagðra gjalda síðasta árs og skipta þeirri upphæð á fimm gjalddaga er gert ráð fyrir að fyrirframgreiðsla á hverjum gjalddaga fram að álagningu verði ákveðinn hundraðshluti af gjöldum fyrra árs. Að öðru leyti felast ekki í greininni verulegar breytingar á gildandi reglum, en ýmsar af þeim reglum, sem lagt er til í frv. að lögfestar verði, eru nú í reglugerð.

Þá er lagt til samkv. 2. mgr. 112. gr. í hinum nýja innheimtukafla frv., að skyldur ríkissjóðs til vaxtagreiðslna í þeim tilvikum, að skattar hafi verið ofgreiddir eða ofinnheimtir, verði verulega auknar. Í 46. gr. laga nr. 68 frá 1971, sbr. 8. gr. laga nr. 60 frá 1973, er ákvæði þess efnis, að komi í ljós við álagningu að gjaldandi hafi með fyrirframgreiðslu sinni greitt meira en nemur heildarupphæð álagðra skatta skuli hann eiga rétt á 1/2% mánaðarvöxtum af ofgreiðslunni. Ákvæði um skyldu ríkissjóðs til greiðslu vaxta af ofborguðum sköttum er ekki að finna í eldri lögum. Hefur framkvæmdin verið sú, að vaxtakröfum hefur alfarið verið neitað ef upphafleg álagning er lækkuð eftir að greiðsla á sér stað. Með þessari grein í frv. er hins vegar lagt til að ríkissjóði verði nú gert skylt að greiða vexti af ofgreiddum sköttum án tillits til þess, hvort of há fyrirframgreiðsla eða röng frumálagning hefur orsakað ofgreiðsluna. Er kveðið á um að vextirnir skuli vera hinir sömu og eru af innstæðum á almennum sparisjóðsbókum á hverjum tíma, en það eru hinir almennu vextir sem gilda í þjóðfélaginu.

Í 114. gr. í innheimtukafla frv. er kveðið á um ábyrgð á skattgreiðslum. Grein þessi er að mestu leyti efnislega óbreytt frá dreifðum ákvæðum í gildandi lögum. Í 1. málslið 1. mgr. er lagt til að hjón beri ábyrgð á sköttum hvors annars og geti innheimtumaður gengið að hvoru hjóna til greiðslu á sköttum þeirra beggja. Þykir ekki verða komist hjá sameiginlegri ábyrgð hjóna þrátt fyrir takmarkaða sérsköttun. Eru ástæður þess bæði efnislegar og framkvæmdalegar. Sérsköttun samkv. lögum nr. 40 frá 1978 er aðeins takmörkuð. Tekjur af eignum eru alltaf skattlagðar hjá því hjóna sem hærri hefur launatekjur eða skyldar tekjur, án tillits til þess hvort hjóna á þær eignir sem tekjurnar gefa. Slíkar tekjur geta því hæglega verið skattlagðar hjá því hjóna sem ekki á eignirnar, og væri það ótæk niðurstaða að innheimtumaður geti ekki gengið að hinum raunverulega eiganda til greiðslu þessara skatta. Hið sama á við um eignarskattinn, en hann skiptist jafnt milli hjóna án tillits til þess, hvaða eignir hvort hjóna um sig telst eiga. Gagnkvæm ábyrgð hjóna ætti einnig að geta minnkað kostnað við innheimtu og einfaldað framkvæmdina mjög verulega.

Í 2. málsl. er kveðið á um rétt þess hjóna, er skattgreiðslu annast, eða erfingja þess til endurgreiðslu úr hendi hins hjóna eða erfingja þess. Í ákvæðinu felst, að sín á milli skulu hjónin skipta tekjuskattsgreiðslum í hlutfalli milli skattskyldra tekna hvors um sig. Að því er eignarskattinn varðar skiptir ekki máli við þetta uppgjör hvort um hjúskapareign eða séreign er að ræða.

Í síðasta málsl. 2. mgr. er svo lagt til að stjórnarmenn ýmissa félaga, sjóða og stofnana séu ábyrgir fyrir skattgreiðslum þessara lögaðila.

Í 3. mgr. eru ákvæði um ábyrgð á skattgreiðslum af launum til erlendra aðila, en lög nr. 22 frá 1956 voru felld úr gildi með lögum nr. 40 frá 1978. Þar eru einnig ákvæði um ábyrgð á ýmsum greiðslum sem greiddar eru til aðila sem skattskyldir eru samkv. 3. gr. laga nr. 40 frá 1978.

Þá vil ég einnig geta þess, að frv. hefur ekki að geyma tillögur um breytingar á ákvæðum laga nr. 40 frá 1978 um skattstiga, persónuafslætti og barnabætur. Ástæðan fyrir því er auðvitað fyrst og fremst sú, að á þeim skamma tíma, sem verið hefur til stefnu, hefur ekki verið unnt að ná samkomulagi um þessi atriði milli stjórnmálaflokkanna þrátt fyrir tilraunir þar að lútandi. Má e.t.v. segja að eðlilegt sé að þetta hafi ekki tekist, þar sem hér er um mjög viðkvæmt pólitískt mál að ræða, sem ekki er ástæða til að ætla að flokkar þingsins geti orðið sammála um að hægt sé að afgreiða á þeim stutta tíma sem eftir lifir af starfstíma Alþingis nú fyrir jólin. Ég tel því ekki unnt að afgreiða þetta mjög mikilvæga mál á þeim skamma tíma sem er til stefnu fyrir jólaleyfi þm., þ.e.a.s. ákvæði um skattstiga, persónuafslætti og barnabætur. Í raun og veru kemur ekki mjög verulega að sök þó að afgreiðsla þessara atriða dragist eitthvað fram yfir áramótin, því í lögum nr. 40 frá 1978 eru ákvæði um þau efni sem vissulega er hægt að nota við álagningu gjaldársgjalda nú í janúar. Þessar tölur þarf hins vegar engu að síður að endurskoða sem allra fyrst og breyta í samræmi við almenna verðlagsþróun. Því er mjög brýnt að þegar í þingbyrjun eftir áramót verði gengið endanlega frá þessum atriðum. Þeir aðilar, sem þarna yrðu skattlagðir um gjaldársgjöld á fyrstu vikum næsta árs samkv. þeim reglum sem gilda í lögum nr. 40 frá 1978, eru ekki ýkjamargir. Ég gæti trúað að þeir væru ekki mikið fram yfir 2–3 tugi. Sú álagning gæti komið einhverjum spánskt fyrir sjónir, þannig að það gæti verið einkennileg skipting á milli aðila, en það ætti þó ekki út af fyrir sig að þurfa að koma í veg fyrir að hægt væri að nota áður nefnda álagningarstiga til að leggja á gjaldársgjöld um mjög skamman tíma í upphafi næsta árs. Hitt er hins vegar alveg ljóst, að áður en margar vikur líða af árinu 1980 er nauðsynlegt að gera þær breytingar um ákvörðun skattstiga, persónuafsláttar og barnabóta sem ég hef rætt um hér áður. Því er brýnt að þegar í þingbyrjun eftir áramótin verði a.m.k. tillögur gerðar um slíka ákvörðun og helst gengið endanlega frá. Ég mun í því sambandi annaðhvort fyrir þingfrestun nú um jólin eða strax að loknu jólaleyfi, ef þá verður ekki búið að mynda nýja ríkisstj., leggja fram tillögur í þessum efnum sem Alþ. fær þá til umfjöllunar.

Ég vil að lokum láta þess getið, að frv. það, sem hér er lagt fram, hafði verið fullunnið í fjmrn. þegar ég tók þar við embætti nú á haustdögum. Fyrrv. fjmrh, hafði falið tilteknum mönnum að vinna þetta frv. og var lokið við það að öllu eða mestu leyti. Frv. hafði hins vegar ekki verið rætt, hvorki í þáv. ríkisstj. né heldur í þingflokkum þáv. ríkisstj., þar með talinn þingflokkur hæstv. fyrrv. fjmrh. Hér var því aðeins um að ræða tæknilega vinnu sem innt hafði verið af hendi að tilhlutan hæstv. ráðh., en enginn, hvorki þáv. ríkisstj., neinn þingflokkur hennar né heldur hæstv. fyrrv. fjmrh. sjálfur, var búinn að binda sig alfarið við.

Ég hafði þann hátt á eftir kosningar að senda umrætt frv. til allra þingflokka og óska eftir að þeir yfirfæru frv., kynntu sér efni þess og reynt yrði að ná samkomulagi hér í þinginu um að afgreiða a.m.k. þá þætti frv. sem mönnum þætti einsýnt að ekki yrði hjá komist að afgreiða. Þingflokkarnir hafa skoðað þetta frv. nú senn hvað líður í hálfan mánuð og notið til þess aðstoðar starfsmanna fjmrn. og þeirra manna úr eigin röðum sem hafa sérhæft sig í þessum málum. Það, sem ég hef næst komist um álit þingflokkanna við fyrstu sýn, er að þeir séu út af fyrir sig reiðubúnir í fyrsta lagi til þess að afgreiða það sem nauðsynlega þarf að afgreiða, t.d. svo að hægt sé að innheimta fyrirframgreiðslu tekjuskatts og eignarskatts á næsta ári, a.m.k. vonast maður til þess, en það er því sem næst innheimtukafli þessa frv. Í annan stað vona ég að þingflokkar geti orðið sammála um að afgreiða einnig þau atriði í þessu frv., sem eru til beinnar leiðréttingar á augljóslegum pennaglöpum í gildandi lögum, og einnig þau atriði í þessu frv., sem augsýnilega eru til þess að taka af tvímæli um fyrirmæli þeirra laga sem nú gilda. Ég vona einnig að þingflokkarnir nái samstöðu um að afgreiða þau efnisatriði í þessu frv. sem skerpa meiningu gildandi laga um að beita skattalögum sem tæki í baráttu gegn verðbólgunni, þar sem m.a. sé tekið tillit til þeirra atriða og þeirra áhrifa sem skattalög geta haft í því efni. Það verður hins vegar að sjálfsögðu að una því að gera um það samkomulag í hv. fjh.- og viðskn. á eins skömmum tíma og hægt er að afgreiða þaðan aðeins þau mál sem samkomulag getur orðið um og samstaða að ganga frá á þeim stutta tíma sem eftir lifir af þingstörfum.

Að lokum vil ég leggja áherslu á nauðsyn þess að frv. þetta, sem hér er fram lagt, fái skjóta afgreiðslu. Eins og ég hef lýst og frv. ber með sér felur það fyrst og fremst í sér nauðsynleg ákvæði um innheimtu skatta á næsta ári og ýmsar tæknilegar lagfæringar og úrbætur á lögum nr. 40 frá 1978. Lagasetning um þessi efni er mjög brýn nú fyrir áramótin af ýmsum ástæðum, og skal ég nefna nokkrar.

Í fyrsta lagi hefst þegar í byrjun næsta árs undirbúningur að innheimtu opinberra gjalda og engan tíma má missa ef innheimtan á ekki öll úr skorðum að ganga.

Í öðru lagi þarf að senda skattframtöl og önnur skattgögn til gjaldenda strax í byrjun næsta árs og þá er nauðsynlegt að öll ákvæði um skattstofnana sjálfa, sem eru ákvarðandi um gerð og form framtalseyðublaða, liggi fyrir.

Í þriðja lagi er reikningsárinu 1979 nú að verða lokið og uppgjörstími atvinnurekstrarins hefst. Ljóst er að lög nr. 40 frá 1978 hafa mjög verulegar breytingar í för með sér á allri reikningsskilagerð atvinnurekstrarins. Gert er ráð fyrir að endurmat fyrnanlegra eigna geti farið fram á árinu 1979 og er afar mikilvægt að allar reglur um þetta efni og önnur þau atriði, sem snúa að uppgjöri atvinnurekstrarins, liggi fyrir sem allra fyrst. Og eins og ég sagði áðan hefur mál þetta þegar verið kynnt fulltrúum frá öllum þingflokkunum að undanförnu, þannig að nokkur tími hefur gefist til skoðunar þess, þó mismikill sé.

Herra forseti. Ég læt þá máli mínu lokið og legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. Það er ósk mín, að n. beggja deilda hafi með sér samráð við afgreiðslu frv. og áhersla verði lögð á að afgreiðsla þeirra atriða þess, sem samkomulag getur náðst um, tefjist ekki.