18.03.1980
Sameinað þing: 34. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (1226)

106. mál, framkvæmdaáætlun í orkumálum vegna húshitunar

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. I. þm. Norðurl. v. sagði að ýmsar ákvarðanir orkuráðs um ráðstöfun fjár þess, sem það hefur yfir að ráða, hefðu verið vafasamar eða rangar. Ég vil í þessu sambandi láta koma hér fram, að þeim tekjustofnum, sem Orkusjóður hefur, er ráðstafað af Alþ. og orkuráð verður að haga störfum sínum innan þess ramma sem Alþ. setur.

En í sambandi við einstakar ákvarðanir, eins og t.d. hvaða sveitabæi eigi á hverjum tíma að taka til rafvæðingar, hefur gilt, — ég hygg svo lengi sem elstu menn muna eftir, og ég tók við þeirri skipan þegar ég varð formaður orkuráðs 1975, — að sveitabæirnir eru valdir eftir meðalvegalengd milli bæja. Þannig var það, að í sjö ár frá 1971, — það var framkvæmd svokallaðrar fjögurra ára áætlunar sem var síðan breytt í þriggja ára áætlun, en varð raunverulega sjö ára áætlun, — var verið að framkvæma rafvæðingu þeirra sveitabæja sem höfðu meðalvegalengd allt að 3 km. Núna er því lokið. Þá hafa verið flokkaðir samkv. þessari reglu þeir bæir sem eftir eru: Í 1. flokkinn þeir sem hafa meðalvegalengd milli 3 og 4 km. Í 2. flokkinn þeir sem hafa meðalvegalengd 4–5 km. Og í 3. flokkinn þeir sem hafa 5–6 km. Og ég veit ekki til þess að það hafi verið hnikað frá þeirri reglu að verja því takmarkaða fé, sem hefur á hverjum tíma verið varið til sveitarafvæðingarinnar, þannig að bæirnir væru teknir í röð eftir vegalengd: fyrst þeir sem væru með minni meðalvegalengd og síðan þeir sem væru með meiri vegalengd.

Ég vildi aðeins að gefnu tilefni að hér kæmi fram að svona hefur verið unnið í orkuráði. En það má að sjálfsögðu miklu frekar um þetta tala. Ég skal ekki gera það.