19.03.1980
Neðri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því, að það kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. áðan að raunar er ekki rétt og ekki æskilegt að afgreiða mál sem þetta án þess að vitað sé um fyrirætlanir hæstv. ríkisstj. og tillögur hennar um ákvörðun skattstiga. Ábending hæstv. fjmrh. áðan, þar sem hann gaf þm. upplýsingar um hver vera ætti skattstiginn sem ríkisstj. leggur til, gefur ótvírætt í skyn að að áliti hæstv. ráðh. sjálfs sé slíkur málflutningur nauðsynlegt framlag í þessa umr. Ég held því að það væri affarasælast, fyrst hæstv. ríkisstj. er komin þetta langt með tillögugerð sína, að hún dokaði við um afgreiðslu þessa máls, þó ekki væri nema um einn eða tvo daga, en legði fram umrætt frv., sem hæstv. fjmrh. boðaði áðan, um skattstiga, þannig að Alþ. gæti rætt þessi mál bæði saman og fengið að sjá, hvaða áform ríkisstj. hefur uppi um gerð skattstiga varðandi tekjuskatt einstaklinga, samhliða þeirri tillögu sem hér er gerð. Ég tel raunar að ræða fjmrh. áðan sé viðurkenning hans á því, að hann telji sjálfur að þm. þurfi að vita um fyrirætlanir hæstv. ríkisstj. í þessu sambandi áður en deildarmenn afgreiða hækkun á útsvörum til sveitarfélaga.

Í stuttri ræðu hæstv. fjmrh. áðan kom að sjálfsögðu ekki fram nema í grófum dráttum hverjar eru fyrirætlanir hæstv. ríkisstj. í þessu skattstigamáli. En ég vek aftur athygli á að hæstv. ráðh. taldi rétt að gefa þingheimi þessar takmörkuðu upplýsingar um fyrirætlanir ríkisstj. í málinu. Það er auðvitað yfirlýsing af hans hálfu um að a.m.k. hann sé mér sammála um að eðlilegt sé og rétt að hv. dm. fái að sjá allar fyrirætlanir ríkisstj. í skattamálum áður en þeir afgreiða það mál sem hér er til meðferðar. Fyrst skattstigamálið er svo langt komið að hæstv. fjmrh. telur sig geta skýrt frá meginefni um frv. skattstiga við þessa umr. getur varla verið nema dagaspursmál hvenær frv. verður lagt fram hér á Alþ. Þess vegna vil ég ítreka þau tilmæli mín við hæstv. ríkisstj., að hún ljúki ekki afgreiðslu tekjustofnamálsins fyrr en hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram á Alþ. frv. sitt um skattstiga, þannig að þessi tvö mál geti orðið samferða um þingið eða sem næst því. Ég vil eindregið beina því til hæstv. ríkisstj. og þá hæstv. félmrh. að taka þessa beiðni til velviljaðrar athugunar.

Um þær upplýsingar, sem hæstv. fjmrh. gat um áðan um fyrirhugaðan skattstiga, er að sjálfsögðu lítið hægt að segja á þessu stigi, vegna þess að frv. liggur ekki fyrir, heldur aðeins nokkur orð hæstv. ráðh. um hver skattþrepin muni verða í frv., en ekki t.d. upplýsingar um hvernig eigi að reyna að mæta erfiðleikum ýmissa sérstakra hópa í þjóðfélaginu sem fara illa út úr hinum nýju skattalögum sem komu í gildi um s.l. áramót, — hópa eins og t.d. einstæðra foreldra, en að óbreyttum skattalögum mun skattaleg aðstaða einstæðra foreldra stórversna nema tekið verði sérstaklega á því máli í frv. um skattstiga. Ég vil þó láta það koma fram vegna upplýsinganna um skattstigann sem hæstv. fjmrh. gat áðan um, að verði það niðurstaða ríkisstj. er stefnt að talsvert aukinni skattbyrði hjá lág- og millitekjufólki. Í þeim tillögum, sem minnihlutastjórn Alþfl. lagði fram um skattstiga, var gert ráð fyrir þremur skattþrepum, að af lægstu tekjum, upp að 2.5 millj. skattskyldra tekna, skyldi aðeins greiða 15% í skatt. Hæstv. fjmrh. boðar að af þessum lágu tekjum eigi að greiða 20% í skatt. Þetta er aukin skattbyrði á lægsta tekjuhóp frá tillögum Alþfl. Þá boðaði hæstv. fjmrh. í ræðu sinni áðan að af lágum meðaltekjum, sem séu á bilinu frá 3 og upp að 6 millj. kr. skattskyldra tekna, skuli greiða 35%. Samkv. tillögum minnihlutastjórnar Alþfl. um skattstiga átti af hluta þessara lágu tekna aðeins að greiða 15%, en þó aldrei hærra en 30%. Þarna stefnir hæstv. ríkisstj. einnig að aukinni skattbyrði á lágtekjufólk og lægra millitekjufólk ef upplýsingar hæstv. ráðh. reynast réttar.

Þegar menn skoða útsvarsálagninguna samfara þeirri ráðagerð stuðningsmanna hæstv. ríkisstj. nú að hækka þann tekjuskatt, sem leggst á lægstar tekjur, og taka lítið sem ekkert tillit til tekjubils hjá lágtekjufólki og hátekjufólki, þ.e. þegar jafnframt er horft á fyrirætlanir hæstv. ríkisstj. um að auka útsvarið, sem er fyrst og fremst launamannaskattur, jafnmikill skattur hlutfallslega af lágum launum og háum, hlýt ég að verða mjög vonsvikinn, því að í samlagi boða hækkun útsvars og sá skattstigi, sem hæstv. fjmrh. var að lýsa áðan, stóraukna skattbyrði, ekki á hátekjufólkið, heldur á lágtekjufólkið. Ég hélt þó að hæstv. ríkisstj. mundi reyna að sjá það í friði. Þetta er miðað við þá skattheimtu í tekjuskatti, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., og forsendur frv., sem hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstj. byggja frv. á, og án þess að tekið sé tillit til þeirrar sérstöku skattheimtu sem hæstv. ríkisstj. ætlar að hafa utan fjárlaga, svo sem orkuskatts upp á 5–6 milljarða, svo og sérstaks skatts til hæstv. ríkisstj. ætlar að hafa utan fjárlaga, svo sem orkuskatt upp á 5–6 milljarða, svo og sérstaks skatts til að standa undir loforðum ríkisstj. um félagsmálapakka o.fl. Að öllum þessum viðbótarsköttum slepptum gerir fjárlagafrv. ráð fyrir að skattbyrði beinna skatta í prósentum af tekjum greiðsluárs hækki úr 13.4%, eins og skattbyrðin reyndist vera á árinu 1979, í 14%, eins og hún er talin verða á árinu 1980, miðað við fyrirætlanir hæstv. ríkisstj. í fjárlagafrv. um skattheimtu og forsendur frv. Hæstv. fjmrh. getur að sjálfsögðu ekki haldið því fram, að þetta sé ekki aukning á skattbyrði.

Ég vil taka það fram til þess að ítreka það, að upplýsingarnar, sem ég fer með, eru réttar, þær eru fengnar frá Þjóðhagsstofnun. Þetta er mat Þóðhagsstofnunar á breytingum á skattbyrði milli áranna 1979 og 1980 miðað við forsendur fjárlagafrv. og áætlun fjárlagafrv. um tekjuskattsheimtu á þessu ári. Samkv. því þyngist skattbyrði beinna skatta í prósentum af tekjum greiðsluárs úr 13.4% á árinu 1979 í 14% á árinu 1980. Það er að sjálfsögðu aukning á skattbyrði. Ofan á það bætast svo þeir viðbótarskattar sem hæstv. ríkisstj. hefur boðað að hún muni leggja á og áætlar fyrir utan fjárlög.

Fyrst hæstv. ríkisstj. er komin svo langt með gerð frv. um skattstiga að það er raunar aðeins spurning um örfáa daga þangað til það frv. verður lagt fram á hinu háa Alþingi, úr því að ljóst er að jafnvel hæstv. fjmrh. telur nauðsynlegt að áður en menn ganga til afgreiðslu á því máli, sem nú er á dagskrá, viti þdm. sitthvað um efni frv. um skattstigana, ítreka ég þá ósk mína til hæstv. ríkisstj. að hún fallist á að halda ekki þessu dagskrármáli frekar til streitu, heldur bíði þá fáu daga eða fáu klukkustundir sem kunna að líða þangað til hæstv. ríkisstj. leggur fram skattstigafrv. sitt hér í þinginu, þannig að þessi tvö mál geti orðið nokkuð samferða og menn sjái hvaða skattaukningu sé verið að stefna að og þá ekki síður hverjir eiga að taka á sig þá auknu skattbyrði. Þá kann að vera að mönnum gefist kostur á að gera þær brtt. sem gætu orðið til þess fallnar að létta hinni auknu skattbyrði af lág- og millitekjufólki, sem virðist fyrst og fremst eiga að bera hina nýju og auknu skatta hinnar nýju ríkisstj.