19.03.1980
Neðri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Forseti (Garðar Sigurðsson):

Ég vil mælast til þess við hv. þdm., að þeir hafi þær aths., sem þeir vilja bera fram um þingsköp, sem allra stystar. Hér er mælendaskrá enn opin varðandi það mál sem er á dagskrá. En vegna þess sem hv. 1. þm. Reykn. sagði áðan varðandi fjarveru hæstv. 1. varaforseta, þá hefur hann nú brugðið sér frá um stundasakir og er það með engum hætti óvenjulegt.

Ég vil vekja athygli á 12. gr. þingskapa, þar sem segir að í forföllum forseta gangi varaforsetar að öllu leyti í þeirra stað. Ég get ekki heldur séð að þessi umr. fari öðruvísi fram en með venjulegum hætti.

Að lokum vil ég aðeins vegna ítrekaðra fsp. hv. 9. þm. Reykv. segja það, að ósk hv. þm. var byggð á þeirri staðhæfingu hans sjálfs, að um nýjan meiri hl. væri að ræða í hv. d. Ég hef hins vegar tekið eftir alveg ákveðnum meiri hl. í þessu máli sem er á dagskrá, og sá meiri hl. er annar en hv. þm. staðhæfir að sé, enda hefur það komið í ljós. Jafnvel þótt staðhæfingar hv. þm. séu misgóðar eins og hjá öðrum hv. þm., þá vil ég þrátt fyrir það óska eftir því við skrifstofustjóra Alþingis að hann gefi hv. þm. umbeðnar upplýsingar.