25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (1369)

128. mál, stórvirkjun

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hygg að mér verði virt það til vorkunnar, að þá sjaldan svo við ber að ég er sammála hv. þm. Halldóri Blöndal þegi ég ekki um það hér á Alþ. Fsp. hans var vel rökstudd, fyrri ræða hans ágæt. Að vísu játa ég að það hvarflaði aðeins að mér undir síðari ræðu hans að hætta við að taka til máls og hrósa honum. En þegar ég hafði vegið og metið ræðurnar tvær varð niðurstaðan eigi að síður sú, að þetta ætti hann skilið af mér.

Ég er alveg viss um það, að enda þótt íslenskukennsla og íslenskuþættir í útvarpinu frá fornu fari og alveg fram á þennan dag hafi gert okkur geysimikið gagn til vernd­unar, fegrunar og göfgunar mæltu máli á Íslandi, þá var hitt miklu meira um vert, að menn voru valdir af hálfu Ríkisútvarpsins til að koma fram í útvarpinu, fastir starfsmenn og einnig íhlaupamenn, með tilliti til þess arna, að Ríkisútvarpið væri úrtakslaust skóli í góðu, til­gerðarlausu og hljómfögru íslensku máli. Hér kemur fleira til en málfræðin ein. Ýmsir fræðimenn hafa haldið því fram, svo sem ég hygg að hv. þm. Halldóri Blöndal sé fullkunnugt, að raunar höfum við aldrei fengið íslenska málfræði, heldur latneska málfræði þýdda á íslensku, sem að nokkru varð til þess að íslensk tunga var kúguð undir latneska málfræði.

Hér kemur miklu fleira til en málfræðin ein: réttur og eðlilegur framburður íslenskrar tungu sem ávallt á að hljóma eðlilega. Og reynslan hefur sýnt að kennslan í skólunum, ekki bara í barnaskólunum og gagnfræða­skólunum, heldur líka í framhaldsskólunum, hefur viljað leiða til þess að myndast hefur einhvers konar gigtar­hnútur milli tunguróta og meðvitundar, þannig að tján­ing hefur ekki viljað verða nógu eðlileg að lokinni slíkri skólun. Hitt leyfi ég mér að staðhæfa, að á hinum síðari árum hefur viljað bregða nokkuð frá því að Ríkisút­varpið velji sér fasta starfsmenn til þess að annast þessa þjónustu, og gáið að því, hv. þm., að íslenska útvarpið og sjónvarpið er til þess að þar sé töluð íslenska, en nú hefur viljað bregða nokkuð frá því að starfsmenn séu valdir fyrst og fremst í þessu skyni.

Eðli þessara fjölmiðla hefur breyst af skiljanlegum ástæðum. Það er ekki hægt að ætlast til þess að allar ungar stúlkur, sem uppfylla þau skilyrði sem sjónvarpið gerir um fagurt litaraft og yndisþokka, séu afburðavel mæltar á íslenska tungu einnig. Það væri meiri frekjan. Ég hygg að það væri létt verk, hefði ég tíma til þess, herra forseti, að rökstyðja það við hæstv. menntmrh., að því fari víðs fjarri að þessi meginsjónarmið hafi verið látin ráða yfirleitt við ráðningu starfsmanna hjá Ríkisútvarp­inu, hvort heldur til hljóðvarps eða sjónvarps. Á þessu hefur verið slakað.

Ég hygg að þáttur eins og sjónvarpsþátturinn, sem hér var um getið, sé góðra gjalda verður til íslenskukennslu, en fremur afkastalítill. Hitt væri miklu meira um vert, að starfsmenn þessara tveggja deilda Ríkisútvarpsins töl­uðu málið okkar lýtalaust og á eðlilegan hátt og væru með hverju orði sínu kennarar í notkun þessa okkar ástkæra, ylhýra máls, heldur en að fara að leggja peninga í sérstaka kennsluþætti umfram það sem verið hefur. Það hygg ég að sé aðalatriðið.

Hitt má vera íhugunarefni, hvernig á því stendur að þeir virðast vera sjaldgæfari sem tala íslensku á eðlilegan og réttan hátt sem komnir eru yfir fimmtugt en hinir sem eru langt undir þeim aldri, og einnig það, að maður skuli heyra mál okkar hljóma yfirleitt fegurst og best og kjarnmest af vörum þeirra manna sem hafa tiltölulega skamma skóla­göngu að baki.