27.03.1980
Sameinað þing: 39. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1512 í B-deild Alþingistíðinda. (1460)

116. mál, fjárlög 1980

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Þó að ég sé heldur íhaldssamur maður í ríkisfjármálum og þó svo að Alþfl. hafi almennt nú farið þá leið sem stjórnmálaflokkar hafa til þessa ekki farið, þ.e. að leggja fram við afgreiðslu fjárlaga rökstuddar till. um að skorið verði niður og skattar að hluta til lækkaðir og að hluta renni þessir fjármunir til félagslegrar þjónustu, og þó að við höfum sem stjórnarandstöðuflokkur hagað okkur, að ég held, á svo ábyrgan hátt að slíks eru ekki dæmi fyrr í þingsögunni, þá tel ég samt að þessar till. — og þá á ég við alla stafliðina þrjá, a, b og c — fjalli í fyrsta lagi um svo litlar upphæðir og í öðru lagi að sérhvert þessara mála sé svo sjálfsagt framfaramál, að ég tel það á engan hátt brjóta í bága við þá afstöðu sem hér hefur verið lýst að segja já. Ég segi já.