01.04.1980
Sameinað þing: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1650 í B-deild Alþingistíðinda. (1547)

116. mál, fjárlög 1980

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Þessar fjárlagaumr. eru með nokkuð sérkennilegum hætti. Það kemur auðvitað til af því, hvernig gerð fjárlagafrv. er og öll meðferð þess. En samt er þessi umr. og meðferð fjárlagafrv. jafnþýðingarmikil núna og jafnan áður, og að vissu leyti, ef eitthvað er, þýðingarmeiri nú en oft áður, vegna þess hvernig ástandið er og vegna þess hve fjárlagaafgreiðslan núna hlýtur að hafa mikla þýðingu umfram það sem oft er.

Nú heyrist því stundum fleygt af hálfu stjórnarsinna og hæstv. ríkisstj., að við megum ekki vera of kröfuharðir í þetta skipti vegna þess að ríkisstj. hafi haft skamman tíma til stefnu til undirbúnings fjárlagagerðinni. Ég held að þetta sé ekki alls kostar rétt. Það hefur verið töluverður tími hjá stjórnarliðinu til þess að fjalla um þessi mál. Það er upplýst núna að hæstv. forsrh. hóf samningamakk sitt við stjórnarflokkana þegar í des. s. l., og ekki hefðu þeir alltaf átt að vera að tala um hvernig þeir ættu að skipta stólunum á milli sín.

Það eru nú liðnir nærri tveir mánuðir frá því að ríkisstj. var mynduð. Á þessum tíma tók ríkisstj. sér frí frá þingstörfum til þess að hugsa um fjárlagagerðina, rétt eins og hæstv. ráðh. legðu það ekki í vana sinn að hugsa þegar þeir sitja á Alþingi. En þrátt fyrir þetta er nú undirbúningur þessa máls ekki betri en raun ber vitni um. Og er þetta eitthvað sérstakt? Hefur það aldrei komið fyrir áður t. d., að fjárlög hafi verið afgreidd af sérstökum ástæðum eftir að komið var fram á vetur eins og nú? Að vísu er það ekki venjulega. En fyrir 20 árum var ástandið að ýmsu leyti svipað og það hefur verið á undanförnum mánuðum.

Það voru haustkosningar árið 1959. Þá voru risavaxnir erfiðleikar í okkar þjóðfélagi. Það efnahagskerfi, sem við höfðum búið við þá langa hríð, var gengið sér til húðar, hafta- og styrkjakerfið, með þeim skelfilegu afleiðingum. Það mátti horfa fram á að framleiðsla færi minnkandi, lífskjörin versnuðu. Það var talað um að gjaldþrot væri fram undan. Og menn töluðu um að efnahagslegt og síðan stjórnmálalegt sjálfstæði væri í hættu, ef ekki væri tekið karlmannlega á málunum. Hvernig var tekið á málunum þá og hver voru vinnubrögðin?

Þáv. ríkisstj. mótaði stefnu áður en hún fór að vinna að fjárlagagerðinni. Þess vegna var það svo, að í það skipti var fjárlagafrv. ekki lagt fram fyrr en í lok janúarmánaðar og fjárlög fyrir árið 1960 voru ekki samþ. fyrr en í aprílmánuði það ár. Hvers vegna? Af því að talið var nauðsynlegt að móta stefnu og laga fjárlagafrv. að þeirri stefnu. Menn geta deilt um það, þeir sem vilja, hvort þessi stefna hafi verið rétt eða ekki, en hún hefur nú sýnt sig í verki og við höfum búið að henni síðan. En ég er að minnast á þetta til þess að vekja athygli á þeim vinnubrögðum sem þurfa að vera þegar unnið er að fjárlagagerð. Það verður að vera stefna. Ef unnið er að fjárlagagerð án þess að stefna sé ákveðin í efnahags- og fjármálum, þá lendum við í vanda við gerð fjárlaga. Ég er ekki að segja að það sé í fyrsta sinn í sögunni sem það kemur fyrir, en ég vil segja það, að það hefur aldrei fyrr komið berlegar fram en nú, hversu áríðandi er að mörkuð sé stefna sem fjárlagafrv. er mótað af.

Það vildi svo til, að hæstv. forsrh. núv. var fjmrh. á þeim tíma þegar fjárlagafrv. var unnið fyrir árið 1960. Hann hefði því mátt minnast þess nú, að það væri ekki hægt að ná góðum árangri við fjárlagagerð nema móta stefnu fyrst. En hæstv. forsrh. hefur ekki minnst þessa nú frekar en margs annars og þess vegna stöndum við frammi fyrir því fjárlagafrv. sem við nú ræðum. Þess vegna stöndum við núna frammi fyrir þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið og berlegast hafa komið fram nú síðustu daga og ekki síst í dag, þar sem það er augljóst að hæstv. ríkisstj. veit ekki sitt rjúkandi ráð. Einn daginn kemur hún með þessa skattaálögu, annan daginn kemur hún með aðra skattaálögu og þriðja daginn kemur hún enn þá með nýja og það er ekkert samhengi á milli þessara aðgerða. Þetta er ekki hugsað samtímis. Þetta kemur upp í rás viðburðanna. Þeir finna einhverja holu í hvert skipti í fjárlagafrv. sem þarf að fylla upp í.

Nú er það svo, að það hefur sjaldan verið þýðingarmeira en við afgreiðslu fjárl. í þetta skipti að stefna væri mótuð. Ekki er það síst á sviði ríkisfjármálanna, því að eins og meginvandinn 1959 og 1960 lá í hafta- og styrkjakerfinu, sem þá var búið að ganga sér til húðar, þá hygg ég að meginvandi okkar nú liggi í fjármálum ríkisins. Meginvandinn liggur í því kerfi sem við höfum byggt upp í ríkisfjármálunum. Þessi vandi er svo mikill að honum verður jafnað fullkomlega við þann vanda sem þjóðin stóð frammi fyrir 1959. Og það er núna eins og þá engin lausn á þessu máli nema að móta nýja stefnu, í þetta sinn stefnu í ríkisfjármálunum. En það er einmitt það sem ríkisstj. hefur ekki gert og ekki sýnt neina tilburði til þess að gera. Allt ríkiskerfið þarf að taka til endurskoðunar og gera ýmsar langtímaráðstafanir sem varða ríkisfjármálin. Við verðum að minnka umsvif ríkisins. Við verðum að gera það annars vegar með því að fela þau í hendur sveitarfélögum og hins vegar með því að fela sum þau verkefni sem ríkið hefur nú með höndum í hendur borgaranna sjálfra.

Menn segja núna: Það þarf tíma til þess að gera langtímaráðstafanir. Ég hef bent á það, að við höfum haft núna álíka langan tíma og við höfðum 1959 og í byrjun árs 1960 til þess að gera langtímaráðstafanir. En ríkisstj. hefur ekki borið það við.

Hefur þá ríkisstj. haft myndugleik til þess að gera aðrar ráðstafanir, ýmsar skammtímaráðstafanir, sem var nauðsynlegt að gera þó ekki væri til annars en að segja — og láta þjóðina skilja: Hingað og ekki lengra. Nú ætlum við að hverfa af þeirri braut sem við höfum verið að ganga í ríkisfjármálunum og taka upp nýja stefnu. — Nei, ríkisstj. hefur ekkert gert heldur í þessu efni. M. ö. o.: það, sem ríkisstj. hefur gert, hefur stuðlað að auknum erfiðleikum, þannig að þegar tekist verður á við vandann fyrir alvöru verður hann meiri og miklum mun meiri en hann var þegar ríkisstj. tók við.

Nú má segja að við þessu hefði mátt búast, að ekki hefði verið von á neinu öðru betra af hálfu þessarar ríkisstj. Og því miður er of mikið satt í þessu. Við vildum kannske hafa einhverja von um það, að einhver manndómur væri í hæstv. ríkisstj. En það er nú von sem hefur brugðist. Við höfum fjölmörg dæmi um það, hvernig vinnubrögð ríkisstj. eru, hvað fálmkennd þau eru, hvað ómarkviss þau eru og hvernig þau bera vott þess að ekki er um neina heildarstefnu að ræða. En ég hygg að óvíða sjáum við þessa gleggri merki heldur en í orkumálunum og að sumu leyti alveg sérstaklega varðandi þann þátt þeirra sem lýtur að jöfnun orkukostnaðar við upphitun húsa.

Ég mun gera grein fyrir brtt., sem ég ber fram á þskj. 242 ásamt níu öðrum samflokksmönnum mínum. Ég mun um leið koma lítillega inn á vinnubrögð hæstv. ríkisstj. Ég hygg að vinnubrögðin í þessum málum séu gott dæmi um það, hvernig vinnubrögðin almennt eru í stjórnarherbúðunum við gerð þessara fjárl. sem nú stendur yfir.

Ég hef leyft mér ásamt níu samflokksmönnum að flytja brtt. á þskj. 242. Sú till. fjallar um það, að Orkusjóði verði veitt framlag að upphæð 5 milljarðar kr. er varið skuli til niðurgreiðslu á olíu til upphitunar húsa. Jafnframt er lagt til að framlag það, sem till. gerir ráð fyrir, verði skorið af því fjárframlagi sem í fjárlagafrv. er ætlað til niðurgreiðslu á vöruverði, um 5 milljarða kr. Till. þessi er studd þeim rökum, að nauðsynlegt sé að ráðstafa fjármagni til þess að bæta úr félagslegu misrétti sem felst í hinum gífurlega kostnaði við upphitun húsa sem þeir þurfa að bera sem búa á olíukyndingarsvæðunum. Ég geri ekki ráð fyrir að ég þurfi hér að tíunda í hverju það misrétti er fólgið og hvað þungar byrðar það fólk ber sem býr við olíukyndingu. Ég geng út frá því — eða vil ganga út frá því, að menn séu sammála um að nauðsyn sé að bæta hér úr hið bráðasta.

Samt ber svo við að í þessu fjárlagafrv. var ekki gert ráð fyrir einum einasta eyri í þessu skyni, — ekki einum einasta eyri. Hér hefur orðið furðuleg breyting á. Alla tíð síðan tekið var að létta byrðar þeirra sem á olíuhitunarsvæðunum búa árið 1974 hefur verið ráðstafað fé í fjárl. í þessu skyni, — alla tíð. Það, sem gerir þetta mun furðulegra, er að aldrei hefur verið meiri þörf á þessum aðgerðum en einmitt nú.

Hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir undanfarnar vikur, að tekist verði á við þann vanda, sem hér um ræðir, utan fjárlaga. Bar hann þá fyrir sig að þær leiðir, sem hann hygðist fara til fjáröflunar til að mæta þessum útgjöldum, væru þess eðlis, að fjármagn þetta ætti ekki heima innan fjárlaga eða nánast væri óhugsandi að svo væri. Tekjur til slíkra verkefna, sem hér um ræðir, eiga að sjálfsögðu að koma inn í fjárlög. Annað er raunar ekki í samræmi við eðli málsins og hefðbundnar venjur.

Það þarf ekki á þessum vettvangi að minna á það, að tekjur til slíkra ráðstafana sem hér um ræðir koma inn á fjárlög hvort sem þeirra er aflað með almennum sköttum eða með mörkuðum tekjustofnum. Þegar olíuniðurgreiðslurnar hófust var tekna til þeirra aflað með 1% álagi á söluskattsstofn. Þá voru þessar tekjur tilfærðar á fjárlögum. Þegar þessi markaði tekjustofn var lagður niður árið 1977 og fjármagn til olíuniðurgreiðslunnar tekið af almennum skatttekjum ríkissjóðs varð engin breyting á þessu.

Nú lét hæstv. fjmrh. það boð út ganga, að hann hefði í huga að taka aftur upp þá skipan, sem viðhöfð var fyrir árið 1977, og láta markaða tekjustofna svara þessari fjárþörf. En það breytir í engu frekar en áður gerð fjárlaga í þessu efni. Það er sama hver hinn markaði tekjustofn er. Það er sama hvort nú væri aftur horfið til álags á söluskattsstofn eða tekinn væri upp hinn svokallaði orkuskattur eins og hefur verið talað mjög um að undanförnu. Og það er líka sama í þessu sambandi hver orkuskatturinn er. Það er sama hvort um er að ræða verðjöfnunargjald á rafmagn, eins og við höfum nú, eða orkuskatt í einhverju öðru formi. Enginn hefur enn fundið upp það snjallræði, að ekki skuli koma inn á fjárlög það fjármagn sem aflað er með verðjöfnunargjaldinu. Ég nefni snjallræði í þessu sambandi, því að það var að sjá sem hæstv. fjmrh. teldi það snjallræði að efna til nýrrar skattlagningar utan við ramma fjárlaganna. En nú hefur hæstv. fjmrh. ekki orðið kápan úr því klæðinu. Hann hefur orðið að hætta við þessa firru, sbr. þskj. 248, þar sem nú er gert ráð fyrir að inn í fjárlögin komi tekjur af hækkun söluskattsins. En það er meira en þetta sem hæstv. fjmrh. hefur orðið að kyngja. Við skulum þá víkja nokkrum orðum að hugmyndunum um orkuskattinn.

Allt var meira og minna á huldu um þá skattlagningu.

Hæstv. fjmrh. talaði eins og véfrétt í þessu máli. Það næsta, sem komist var, var að orkuskatturinn ætti að vera eitthvað í líkingu við það sem felst í frv. til l. um jöfnunargjald orkukostnaðar, sem orkumálaráðherra Alþfl. lagði fram á þessu þingi. Hæstv. fjmrh. sagði nánast að núverandi ríkisstj. mundi taka við þeim heilræðum, eins og hann orðaði það, sem frv. þetta boðaði, eða fara að dæmi Alþfl. En eitthvað bauð þeim við ráðum Alþfl., því að á annan veg verður ekki skýrð sú töf sem varð á stefnumörkun núv. ríkisstj. í þessum efnum. Og er það raunar engin furða, því að margir meinbugir eru á orkuskattinum.

Engin mál eru mikilvægari í dag en orkumálin. Engin mál ráða meiru um hagþróun landsins í næstu framtíð en einmitt orkumálin. Þar eru okkar stóru verkefni í hagnýtingu náttúruauðlinda okkar. Þar eru okkar stóru verkefni í uppbyggingu raforkuiðnaðarins, hitaveitnanna o. s. frv. Þjóðin þarf að beina allri sinni atorku og fjármagni til þessara verkefna. Við verðum að leggja að okkur til þess að byggja upp fyrir framtíðina. Framtak okkar nú skilar margföldum arði þegar fram líða stundir.

En nú er ekki hentugasti tími til þess að skattleggja þessa starfsemi, þvert á móti. Nú þurfum við að beina fjármagni, sem fengið er með almennri skattlagningu, til þessara mikilvægu verkefna. Það er ekki heldur hentugasti tími nú til að skattleggjainnflutta orkugjafa. Olíuverð er nú slíkt að ekki er á bætandi. Er ekki nóg að gert þó ekki sé nú farið að grípa til þess ráðs að hækka enn bensínið með nýrri skattlagningu, að hækka en gasolíu með nýrri skattlagningu og hækka enn svartolíu með nýrri skattlagningu? Telja menn þetta færa leið, eins og nú er málum komið? Gæti þetta ekki talist gáleysi gagnvart almenningi í landinu, einstaklingum og atvinnuvegum?

En til hvers er að spyrja um þetta nú, því að svarið er að sjálfsögðu augljóst. Samt tók það hæstv. fjmrh. margar vikur að gera þetta mál upp við sig. Það tók hann margar vikur. Og ekki lét hann af hugmyndum sínum um orkuskatt fyrr en nú við lokaafgreiðslu fjárlaga. Þá hefur hann verið þvingaður til þess að láta af þessum óhæfuverkum sínum.

Þegar við sjálfstæðismenn leggjum nú til að varið verði 5 milljörðum kr. til niðurgreiðslu á olíu höfum við ekki í huga að afla fjármagns til þess með orkuskatti. Við gerum ekki heldur till. um aðra skattlagningu til að mæta þessum útgjöldum. Það er vegna hinnar miklu skattbyrði sem almenningur í landinu stendur þegar undir. Auðvitað hlýtur slík upphæð sem hér er um að ræða, 5 milljarðar kr., að koma einhvers staðar við. En það er skoðun okkar, að það sé skárri kostur að skera niður útgjöld í fjárlagafrv. á móti því fjármagni, sem þarf til að koma, heldur en að afla þess með aukinni skattlagningu. Með tilliti til þessa er lagt til að liðurinn „Niðurgreiðslur á vöruverði“ verði færður úr 24 milljörðum 400 millj. kr. í 19 milljarða 400 millj. kr. (Iðnrh.: Hver borgar þann kostnað?) Hver borgar þann kostnað, segir hæstv. iðnrh. (Iðnrh: Á kannske ekki að borga hann?) Hefur hæstv. iðnrh. látið sér koma til hugar að ekki yrði að greiða þennan kostnað? Ég var að enda við að segja: Auðvitað hlýtur þetta einhvers staðar að koma við.

Á undanförnum árum hafa verið á fjárlögum tveir liðir sem varða niðurgreiðslu á vörum til hagsbóta neytendum í landinu. Annars vegar er það niðurgreiðsla á búvöruverði og hins vegar styrkur vegna olíunotkunar til húshitunar. Í fjárlagafrv. því, sem hæstv. ráðh. Tómas Árnason lagði fram í okt. s. l., námu þessir útgjaldaliðir samtals 25 milljörðum 300 millj. kr. Í frv., sem þáv. ráðh., hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, lagði fram í des. s. l., voru liðir þessir samtals að upphæð 23.2 milljarðar kr. og nam niðurgreiðsla á upphitunarkostnaði 2.3 milljörðum. En í frv. því, sem við ræðum nú um, var gert ráð fyrir 24.4 milljörðum til niðurgreiðslu og þar af ekkert til niðurgreiðslu á olíu, eins og ég hef áður komið að.

Það er skoðun okkar sjálfstæðismanna, að þessari heildartölu, 24.4 milljörðum kr., eigi að skipta á milli niðurgreiðslu á búvöru og niðurgreiðslu á olíu til húshitunar. Þess vegna leggjum við til að af þessum 24.4 milljörðum kr. verði 5 milljörðum varið til niðurgreiðslu á olíu.

Nú kann að verða sagt að ekki veiti af 24.4 milljörðum kr. til niðurgreiðslu á búvöruverði. En ég gef mér að við höfum ekki meira samtals til niðurgreiðslu en 24.4 milljarða. Spurningin í mínum huga er því hvernig þessari fjárhæð verði skynsamlegast ráðstafað. Hér þarf að vega og meta hinar ýmsu þarfir. Ég vil ekki gera lítið úr þýðingu niðurgreiðslu á búvöruverði fyrir neytendur í landinu né líta fram hjá niðurgreiðslunni sem stjórntæki í völundarhúsi efnahagsmálanna. Allt slíkt orkar þó tvímælis í ýmsum samböndum, svo ekki sé meira sagt.

Hitt getur ekki orkað tvímælis, að það er nauðsyn, sem ekki verður undir neinum kringumstæðum vikist undan, að ráðstafa fé til niðurgreiðslu á olíu og létta þannig þær óheyrilegu byrðar sem þeir bera sem búa á olíuhitunarsvæðunum. Þess vegna leggjum við til að 5 milljörðum af þessari fjárhæð til niðurgreiðslu verði varið til niðurgreiðslu á olíu.

Brtt. sú, sem ég hef hér lýst, er í samræmi við frv. um niðurgreiðslu á olíu til upphitunar húsa sem flutt er í hv. Ed. Alþingis og við flytjum fjórir þm., sinn úr hverjum flokki. Í 1. gr. þess frv. segir að ríkissjóður skuli greiða í Orkusjóð óafturkræft framlag sem varið skuli til þess að greiða niður verð á olíu til upphitunar húsa í landinu. Ég skal ekki hér fara að rekja efni þessa frv. En ég vil þó taka fram að samkvæmt frv. skal verð olíu greitt svo mikið niður sem nægir til að olíukostnaður við kyndingu húsa verði eigi hærri en sem nemur 2.5-földu vegnu meðalverði hjá hitaveitum landsins sem hafa jarðvarma að orkugjafa. Er þá miðað við gjaldskrá á hverjum tíma. Skal hið vegna meðaltal reiknað út fjórum sinnum á ári og verði þá jafnframt tekið tillit til þeirra verðbreytinga, sem orðið hafa á olíu frá síðasta útreikningi, þegar ákveðin er upphæð niðurgreiðslna fram til næsta útreiknings. Samkvæmt þessu yrði kostnaður olíukyndingar ákveðinn eftir viðmiðunarreglu sem felur í sér sjálfvirkar breytingar á olíuniðurgreiðslunni eftir breytingum á verði olíu og gjaldskrám hitaveitna. Gert er ráð fyrir að upphæðin, 5 milljarðar kr., nægi til niðurgreiðslu olíu samkvæmt frv. þessu ef að lögum verður. En — og ég legg áherslu á það — þá er gert ráð fyrir að fram nái að ganga beiðnir um hinar miklu hækkanir á gjaldskrám hitaveitna sem virðist nauðsynlegt að nái fram að ganga ef hitaveitunum á að takast að mæta þeim þörfum sem nauðsyn krefur.

Þegar frv. þetta, sem ég vitna til, var lagt fram fyrst var reiknað með verulega hærri upphæð sem þyrfti til niðurgreiðslu ef það yrði að lögum. En eftir að frv. var lagt fram hafa gjaldskrár ýmissa hitaveitna hækkað, þ. á m. Hitaveitu Reykjavíkur, sem vegur mest í útreikningum á þessu vegna meðalverði. Í Reykjavík er búið síðan að hækka hitaveitugjaldskrá um 20%. Nú liggur fyrir beiðni frá Hitaveitu Reykjavíkur um viðbótarhækkun sem er upp á 58%. Og því er haldið fram með rökum, að nauðsynlegt sé að veita þessa hækkun ef Hitaveitan á að geta sinnt aðkallandi verkefnum og ef ekki á að koma til orkuskorts. Auk þess yrði orkan mun dýrari, þegar síðar yrði bætt úr þessu, en ef unnið væri að þessu með eðlilegum hætti og enginn dráttur á.

Þegar þetta er haft í huga virðist upphæð sú, sem gert er ráð fyrir í brtt. okkar sjálfstæðismanna, geta orðið nægileg. En nú liggur fyrir önnur till. um breyt. á þessu atriði fjárlagafrv. Það er till. á þskj. 268 sem stjórnarliðar leggja fram. Þar er gert ráð fyrir að niðurgreiðslurnar nemi um 4 milljörðum kr. og að undir þessari fjárhæð sé staðið með nýrri tekjuöflun í formi söluskatts. Ef við lítum nánar á þessa upphæð, 4 milljarða, þá skulum við minnast þess, að í grg. með fjárlagafrv., sem við hér ræðum nú, en: upplýsingar um það, að ef niðurgreiðslureglur séu óbreyttar frá því sem nú er og var á síðasta ári, m. ö. o. ef engin aukning verður á niðurgreiðslum, þá þurfi 3.6 milljarða til að mæta þessari fjárþörf. Ég leyfi mér að fullyrða að þessir 3.6 milljarðar eru ekki of lág tala. Ég hef tilhneigingu til þess að halda að 4 milljarðar láti nærri til þess að mæta þessum þörfum, miðað við það að ekkert verði gert til þess að létta byrðar þeirra sem búa við olíukyndingu, ekkert umfram það sem hefur verið gert.

Þetta er þá vilji hæstv. ríkisstj. í þessu máli. Hún vill ekkert gera eftir allt talið undanfarnar vikur um nauðsyn þess að gera átak í þessum efnum. Eftir allar lýsingar á erfiðleikum þess fólks sem býr við olíukyndingu, eftir allar yfirlýsingar um að hér verði að bæta úr vegna þess að þessar byrðar séu óbærilegar, eftir allt þetta hefur ríkisstj. komið sér niður á stefnu í a. m. k. einu atriði, — ákveðna stefnu. Og stefnan er þessi: Það skal ekkert gert umfram það sem hefur verið gert í niðurgreiðslu olíu.

En bíði menn nú við. Böggull fylgir skammrifi. Frá þessum 4 milljörðum kr., sem ríkisstj. ætlar að rausnast til að leggja til niðurgreiðslu olíu, verðum við að draga um 1300 millj. kr. sem lætur nærri að sé söluskatturinn sem olíukyndingarfólkið verður að greiða til þess að verða þeirrar náðar aðnjótandi að niðurgreiðslan verði að forminu til sú sama og áður. Og þá eru ekki meðtaldar 800 millj. kr. sem þetta fólk þarf líka að greiða í aðflutningsgjöldum til ríkissjóðs af þeirri olíu sem það notar á ári. Í stað þess að rétta hlut þessa fólks frá því sem verið hefur er hlutur þess gerður stórlega lakari en hann var, — stórlega lakari.

Ég spyr: Getur svívirða hæstv. ríkisstj. verið meiri í þessum efnum en þetta? Er hægt að komast lengra í óheilindum? Og er hægt að virða þeirra eigin stjórnarsáttmála minna en með þessu? En um þetta efni segir í stjórnarsáttmálanum, með leyfi hæstv. forseta:

„Unnið verði að verðjöfnun á orku, ekki síst á sviði húshitunar.“

Hæstv. ríkisstj. virðist ekki taka mikið mark sjálf á þessum orðum. Það var kannske aldrei við því að búast og gerir ekkert til hvort þeir virða þennan samning sinn meira eða minna. En þetta mál varðar milli 20 og 25% af íslensku þjóðinni, sem búa við meira félagslegt órétti en flestir aðrir. Þetta hafa allir verið sammála um. Það hafa allir talað í þessum anda. Því segi ég: Getur svívirða hæstv. ríkisstj. verið meiri en þetta?

Alþingi getur enn afstýrt þessari svívirðu, ekki vegna ríkisstj. en vegna fólksins sem geldur hennar. Alþingi getur enn þá afstýrt þessu með því að samþykkja brtt. okkar sjálfstæðismanna á þskj. 242.