17.04.1980
Sameinað þing: 45. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1976 í B-deild Alþingistíðinda. (1824)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég óskaði eftir að fá að bæta hér við örfáum orðum vegna þess að ég get ekki verið á þingfundi síðar í dag.

Ég verð að segja það, eftir að hv. stjórnarandstæðingar hafa komið hingað upp í langri röð með miklum hávaða, að litlu verður Vöggur feginn. Það, sem gerist, er að 3. umr. um stjfrv. í annarri deildinni er frestað fram yfir helgi, og það kostar okkur að upp veður hálfur þingflokkur Alþfl. og nokkrir þm. Sjálfstfl. og dagurinn fer í að ræða hið ægilega vandamál sem upp er komið: Auðvitað er það algert einsdæmi í þingsögunni að umr. um mál sé frestað, auðvitað algert einsdæmi og óheyrilegt, ósæmilegt með öllu. — Ætli hv. þm. Lárus Jónsson hafi ekki hitt naglann á höfuðið áðan þegar hann sagði að lofsvert væri og þakkarvert að ríkisstj. fresti málinu eftir að nýjar upplýsingar liggja fyrir.

Hér er mikið talað um stjórnleysi, og það er sagt að skattalög séu óafgreidd. Ég vil aðeins segja þetta: Hér var stjórnleysi, hér var öngþveiti eftir fjögurra mánaða valdaskeið Alþfl. En því tímabili er sem betur fer lokið og núv. ríkisstj. hefur fengið tækifæri til að taka til hendinni. Við erum búnir að afgreiða fjárlög á óvenjulega stuttum tíma, og við erum að greiða úr þeirri miklu flækju sem skattalög voru komin í. Hér var svo sannarlega stjórnleysi, stjórnarkreppa, og væri áreiðanlega enn ef þessir ágætu stjórnarandstæðingar mættu ráða — mennirnir sem hafa boðað það helst að sprengja hverja þá stjórn sem ekki lyti vilja þeirra. Auðvitað er staðreyndin sú, að það var þá fyrst þegar menn gerðu sér almennilega grein fyrir því í þinginu, að skilyrðið til þess að unnt væri að mynda starfhæfa stjórn væri að ýta Alþfl. til hliðar, að við losnuðum úr því stjórnarkreppu- og stjórnleysisástandi sem hér var ríkjandi. Ég skil vel og veit vel að þetta gremst stjórnarandstæðingum afskaplega og þá alveg sérstaklega hv. þm. Alþfl. Þess vegna eru þeir svo mjög vanstilltir í þessum umr. af engu tilefni. Ég held að þeir megi sannarlega þakka fyrir að ekki skyldi vera útvarpað frá þessum umr. í dag.