23.04.1980
Efri deild: 68. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2048 í B-deild Alþingistíðinda. (1913)

109. mál, tollskrá

Frsm. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um þetta frv. sem hér liggur fyrir til 2. umr. Á fundi n. mætti fulltrúi frá fjmrn., Björn Hafsteinsson, og gerði hann grein fyrir því, í hverju þessar breytingar væru fólgnar í aðalatriðum. Það er sem sagt þessi afsláttur innflutningsgjalda sem þarna er hækkaður úr 500 þús. kr. í 750 þús. kr., lágmarksgjaldið, og sérstakur afsláttur hækkar úr 1 millj. kr. í 1500 þús. kr. Þetta er 50% hækkun á þessum afslætti.

Síðan var á nefndarfundinum rætt um málefni þeirra leigubílstjóra sem jafnframt væru öryrkjar. Þar kom fram að þegar breytingar hafi verið gerðar á þessum lögum á Alþ. hér í fyrra hafi verið felld niður heimild sem fól það í sér að öryrkjar, sem jafnframt væru leigubílstjórar, nytu þessa aukaafsláttar, þ. e. bæði afsláttar eða lækkunar á aðflutningsgjöldum sem leigubílstjórar og einnig sem öryrkjar. Vegna þess, hve langan tíma hefur tekið að koma þessu máli hér í gegnum hv. Alþ. n. sér ekki fært að taka þarna inn brtt. á þessu stigi, heldur fól Birni Hafsteinssyni að kanna hvernig afgreiðslu hefði verið hagað á þessum málum áður og hvaða möguleikar væru á því — ef vilji væri fyrir hendi — að leyfa þeim leigubílstjórum, sem jafnframt eru öryrkjar, að njóta þessa afsláttar einnig.

Í Nd. komu fram nokkrar brtt. sem voru dregnar til baka til þess að hraða afgreiðslu málsins, og fannst okkur fulltrúum í fjh.- og viðskn. Ed. því ekki möguleiki á að tefja málið með því að gera breytingu á þessu stigi málsins, heldur fá það kannað nánar. Því leggur n. til að frv. þetta, eins og það liggur hér fyrir, verði samþ. óbreytt.