23.04.1980
Neðri deild: 63. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2056 í B-deild Alþingistíðinda. (1923)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Bogi Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég fagna því frv. sem hér kemur fram í dag um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar. Ég verð að segja eins og er, að dregist hefur nokkuð mikið úr hömlu að mínu mati að slíkur jöfnuður ætti sér stað milli landsmanna. Um tekjuöflunarleiðina ætla ég ekki að ræða. Ég er ekki samþykkur þeirri leið, sem farin var, að hækka söluskatt til að ná þessu fjármagni. En sú hlið málsins er ekki til umræðu í dag, þannig að ég læt hjá líða að fjalla um hana. Ég hefði talið eðlilegast, eins og ástandið er í þjóðmálum okkar, að skorið hefði verið niðursem þessu næmi á öðrum sviðum í þjóðarbúinu. Það verður einhvers staðar að taka allt fjármagn sem nota á til framfærsluþegnanna, og þá kemur að sjálfsögðu upp spurningin um hvar eigi að taka það. Þarna hefur menn ábyggilega greint á, en ég er í þeim hópi sem taldi að ekki ætti að fara þá leið sem farin var.

Hvað mundi gerast ef þetta frv. eða einhverjar álíka aðgerðir af hálfu stjórnvalda kæmu ekki til? Ég held að við getum öll verið sammála um að það stæði fyrir dyrum að ákveðin landssvæði mundu eyðast, ef svo mætti segja. Það kæmi flótti í fólkið og það leitaði að sjálfsögðu þangað sem ódýrast væri að framfæra sig. Það liggur nokkuð skýrt fyrir hvar það er, þannig að stefnumörkun yrði skýr í þjóðmálunum í framtíðinni.

Það liggur hér fyrir samanburðarblað frá Orkustofnun frá 14. apríl. Þetta er ákaflega merkilegt blað sem gott er að hafa fyrir framan sig og segir kannske hv. alþm. meira en mörg orð, að það er margt fleira, sem þarf að athuga í þessum kyndingarkostnaði, en bara að ná niður olíunni. Það voru stefnumarkandi og eru örugglega enn þá stefnumarkandi áform stjórnvalda að stefnt skuli að virkjun innlendra orkugjafa. Þá verða stjórnvöld að sjálfsögðu að standa við bakið á þeim sem fara í þær framkvæmdir, því við stöndum frammi fyrir því að ýmsar framkvæmdir, miðað við núverandi niðurgreiðslu á olíu, eru hættar að bera sig. Þetta er mál sem að vísu er aðeins komið inn á í 15. gr. frv. Þar er sagt að heimilt sé að veita varmaveitum framlag til jöfnunar. Þetta er ákaflega vægt til orða tekið, aðeins heimilt að veita þeim framlag, en við skulum vona, og ég þykist reyndar vita, að staðið verði við það. En spurningin er þessi: Er þetta nægilegur hvati til þess að íbúar á ýmsum stöðum og sveitarstjórnir fari að leggja út í áhættusamar framkvæmdir? Er þetta nægilegur hvati til framkvæmda, ef það er vilji stjórnvalda að markvisst skuli stefnt að nýtingu innlendra orkugjafa? Ég efast um það.

Þar sem ég þekki til er samkv. þessum samanburði þriðja dýrasta hitaveita á landinu, sem stefnir líklega í að verða dýrust vegna þess að nú þegar liggur fyrir samþykkt bæjarstjórnar þar sem sótt er um 34% hækkun. Þá sýnist mér kyndingarkostnaður vera kominn 20% yfir meðalkyndingarkostnað með olíu, í staðinn fyrir að samkv. reglugerð, sem sett var um hitaveituna þegar hún var byggð og bæjarbúar treystu á, skyldi gjaldskrá aldrei verða hærri en sem svarar 80% af olíukostnaði þegar tekið hefði verið tillit til olíustyrks. Þannig hefur dæmið snúist við, að nú liggur upphitunarkostnaðurinn 20% yfir, ef þessi samþykkt verður leyfð núna 1. maí, í staðinn fyrir að kostnaðurinn skyldi aldrei vera minna en 20% undir. Þetta er visst áhyggjuefni fyrir menn sem hafa staðið í því að fullvissa fólk um það, þegar út í framkvæmdir var farið, en ég var einn af þeim, að þetta væri réttasta stefnan og þetta skyldi gert. Þá er spurningin: Hvað á að segja við fólk í dag?

Það liggur ljóst fyrir þegar þetta frv. er lagt fram, að menn hafa gefist upp við það sem kallað er verðjöfnun á hitaveitum. Það held ég að þm. geri sér alveg ljóst. En jafnframt hafa menn ekki gefist upp við að verðjafna rafmagnið. Það er svolítið spánskt, a. m. k. fyrir Siglfirðinga sem eiga báða þessa orkugjafa. Það er að vísu ekki mikið af húsum kynt með rafmagni á Siglufirði, gæti verið um 10%. Við stöndum frammi fyrir því að borga rúmlega 9% hærri kyndingarkostnað með rafmagni en olíu þegar við erum búnir að borga um 47 millj. sem áætlað er á árinu 1980 í verðjöfnunargjald, sem m. a. rennur til Orkubús Vestfjarða að hluta, sem um var rætt hér áðan, eða 20%. Á sama tíma borgum við dýrustu hitaveituna. En svo eru til fjórfalt ódýrari hitaveitur. Hvað er að gerast í þessum málum? Eru menn bara hengdir upp á prik einhvers staðar og sagt: Þið borgið þetta með þessari hendi og svo tökum við þetta líka af ykkur með hinni hendinni? Þetta gengur ekki upp. Ég held að núna, þegar þessi ákvörðun er tekin verði menn að gera það upp við sig hvort ekki sé kominn tími til þess að hætta að leggja verðjöfnunargjald á a. m. k. einkarafveitur sem illa eru staddar.

Ég veit ekki hvað liggja fyrir margar hækkunarbeiðnir hjá óhagkvæmustu hitaveitunum nú fyrir 1. maí, en ég þykist vita að það muni vera fleiri aðilar en bæjarstjórn Siglufjarðar sem hafa farið fram á hækkanir. Og mér sýnist að með því að þarna eru sjálfsagt fremstar í flokki þær sem verst standa fyrir verði dæmið enn þá óhagstæðara. Því er spurningin hvort á þessu stigi þurfi ekki að taka þessar hitaveitur og þær hitaveitur, sem koma til með að fara í byggingu á næstu árum, — við skulum vona að menn séu ekki flúnir frá því að virkja innlenda orku, — hvort þurfi ekki að taka þessar hitaveitur til sérstakrar athugunar og breyta þeim lánum sem gera þetta svo óhagkvæmt sem raun ber vitni. Ég vil beina því til hv. þm. að þeir skoði þetta mál út frá því. Það er ekki nóg með það að þetta liggi ofan við mörkin og upphitunarkostnaður sé misjafn milli staða. Þessir aðilar þurfa líka að afla sér aukatekna til að greiða mismuninn og við getum gert ráð fyrir að meðaltali, sem er ekki gróft í farið, 50% álagi á mismuninn, sem væru skattar vegna þessara tekna sem heimilin verða óhjákvæmilega að afla til að geta hitað sín híbýli.

En mér finnst vægt til orða tekið í 15. gr. Mér finnst ekki nógu gott að þarna sé aðeins gert ráð fyrir að þetta skuli ná að jöfnu, vegna þess að við vitum að nokkuð margir notenda liggja yfir markinu, en aðrir kannske undir, þótt meðaltalið sé jafnt kostnaði með olíu. Þetta skapar viss vandamál, þannig að þarna ætti að segja að orkuverð skyldi aldrei metið hærra en sem nemur 80% af kyndingu með olíu þegar tekið hefði verið tillit til gildandi olíustyrks á hverjum tíma. Þannig yrði þetta örvun fyrir fólkið að vilja fara í þessar framkvæmdir og örvun fyrir sveitarstjórnir að standa í þessu. Það er meira en að segja það að herja út fjármagn í stórframkvæmdir og margt annað sem verður óhjákvæmilega að sitja á hakanum í þjónustu við íbúa sveitarfélaga sem í slíkum stórframkvæmdum standa. Ég held því að alþm. ættu að skoða þetta í miklu stærri mynd. Og umfram allt, þegar þetta frv. er komið hér fram, sem ég held að staðfesti að menn eru orðnir sammála um að leggja ekki verðjöfnunargjald á hitaveitur, þá er rétt að fara að endurskoða í fullri alvöru verðjöfnunargjald á raforku.

Ég styð þetta frv. eindregið, það er spor í rétta átt, en það þarf að fylgja því aðeins meira en hér kemur fram.