23.04.1980
Neðri deild: 63. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2058 í B-deild Alþingistíðinda. (1924)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég þakka þeim hv. þm., sem til máls tóku um frv. til l. um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar, fyrir undirtektir þeirra sem allar voru jákvæðar, þó menn leggi misjafnlega mikla áherslu í ýmsum efnum á mál eins og þetta.

Ég tók eftir því, að hv. þm. Einar Guðfinnsson flutti myndarlega jómfrúræðu um þetta mál, að ég ætla, og minntist á að það hefði verið ákveðið að taka málið alfarið út úr fjárlögunum, fjáröflunina og síðan úthlutunina. Það var hugmyndin á vissu stigi máls, en síðar var ákveðið að gera enga breytingu í þeim efnum frá því sem verið hefur. Það er aflað tekna til að standa undir þeim greiðslum, sem til er ætlast samkv. þessu frv., í fjárlögunum sjálfum eins og verið hefur. Það var gert, eins og kunnugt er, með því að hækka söluskattinn um 1.5%.

Það má að sjálfsögðu deila um fjáröflun til mála sem þessara. Það er nú svo þegar þarf að afla fjár til þjóðnytjamála, t. d. með óbeinum sköttum, að ákaflega óeðlilegt er að samhliða því gerist það að allir landsmenn fái launahækkanir, bæði þeir sem hafa há og lág laun. Í þessu tilviki er ekki svo, vegna þess að það er tekið fram í lögum um stjórn efnahagsmála, nr. 13 frá 1979, að fjáröflun í þessu sérstaka skyni skuli ekki ganga inn í framfærsluvísitölu.

Það var sem sé horfið að því ráði í þessum efnum sem áður fyrr að hafa fjáröflunina inni í fjárlögum, en setja sérstök lög um málið að öðru leyti, eins og gert var raunar í upphafi, 1974, þegar fyrst voru sett lög um þessi mál. Það hefur verið notuð sama fjáröflunaraðferð og þá. Þá var aflað fjár á þann hátt að leggja á eitt söluskattsstig, ef ég man það rétt.

Hv. þm. minntist á olíusamninga sem nýlega hafa verið gerðir við Breta, sem ég gerði fyrir stuttu, og hafa verið undirbúnir frá því í fyrrasumar. Um þá samninga er það að segja, að þeir byggjast á dálítið annarri verðviðmiðun en þeir samningar sem við höfum haft við Ráðstjórnarríkin. Það verður að segja það eins og er að þegar lítið er til lengri tíma hygg ég að verðið verði ósköp svipað og verði ekki um að ræða verðlækkun. Hins vegar er sá munur á, að það verða væntanlega miklu minni sveiflur á verði en eru samkv. þeirri viðmiðun sem byggir á Rotterdam-markaðnum svonefnda og hittu efnahagslíf okkar með óskaplegum þunga á síðasta ári og gera raunar enn þá. Ég er ekki í neinum vafa um að það var rétt skref að reyna að dreifa olíuinnkaupum nokkuð með það í huga að forðast þær skaðsamlegu snöggu sveiflur sem eru á þessum svokallaða Rotterdam-markaði, eins og öllum er raunar kunnugt um.

Þm. minntist á að hans kjördæmi væri dæmigert olíukyndingarkjördæmi. Það er alveg rétt hjá honum. Ég get sagt alveg það sama um mitt kjördæmi, Austurland. Það er dæmigert í þessum efnum. Það er aðeins á einum stað á Austurlandi verið að leggja hitaveitu. Það er á Egilsstöðum. Það er að vísu heitt vatn í Vopnafirði. Ég vona að það sé víðar djúpt í jörðu, þó menn viti það ekki. En auðvitað verða stór landssvæði að hlíta því að hita upp híbýli og hús með olíu. Þær töflur, sem liggja fyrir hér og fylgja frv., sýna glögglega þann gífurlega mun sem er á upphitun híbýla víðs vegar um landið eftir því, hvaða orku menn nýta. Það þarf ekki að fara um það fleiri orðum. Það eru, að ég ætla, allir hv. þm. sammála um að hér er um að ræða hið mesta réttlætismál, þó að alltaf orki tvímælis hvernig með skuli fara í öllum greinum.

Ég vil endurtaka og ítreka það sem hæstv. samgrh. upplýsti um byggðalínuna vestur, að það er ráðið að afla nægilegs fjár til að ljúka henni á næsta sumri, þannig að það verði væntanlega hægt að tengja hana á hausti komanda.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir fór nokkrum orðum um 4. gr. eins og hún er orðuð í frv., varðandi olíustyrki vegna lífeyrisþega. Þetta ákvæði mun vera óbreytt frá því sem nú er í lögum. En ég tók það fram í framsöguræðu minni, ef ég má lesa það hér orðrétt, með leyfi forseta:

„Í frv. er ákvæði um viðbót, sem nemur hálfum olíustyrk, vegna lífeyrisþega sem njóta tekjutryggingar almannatrygginga eða hafa svipaðar heildartekjur.“

Þetta orðalag er náttúrlega skýrara og getur komið til greina að setja það í lagatextann eða þá í reglugerð sem sett verður samkv. heimild í lögunum. Ef það ekki verður þannig, að lagatextanum verði breytt, mun ég láta setja ákvæði í reglugerð sem eru skýr að þessu leyti til.