23.04.1980
Neðri deild: 63. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2064 í B-deild Alþingistíðinda. (1935)

120. mál, tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umræðu, hreyfir við gömlu deilumáli um stöðu tannsmiða í kerfi okkar, hvort þeir eigi að teljast heilbrigðisstétt og flokkast undir lög um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir eða hvort þeir eigi að teljast iðnstétt og þá þar með að heyra undir menntmrn. Það er skoðun mín að sú afstaða, sem fram kemur í reglugerð heilbrmrn. frá 1. mars 1974, sem undirrituð er af Magnúsi Kjartanssyni þáv. heilbrmrh., sé í raun og veru rétt í þessu máli, að tannsmiðir hljóti að kallast heilbrigðisstétt, það sé eðlilegast að líta þannig á málið og það sé fráleitt að slíta vinnu tannsmiða frá heilbrigðiskerfinu sem slíku.

Hins vegar hafa tannsmiðir verið ákaflega ónægðir með að þeim hefur verið ætlað að starfa mjög á vegum tannlækna, og þeir hafa viljað fá réttarstöðu sína tryggða með öðrum hætti en verið hefur. Ég tel að það sjónarmið sé út af fyrir sig ákaflega eðlilegt. Ég tel hins vegar að það frv., sem hér liggur fyrir, leysi engan vanda í þeim efnum, og ég minni á að forverar mínir í heilbrmrn. hafa verið sömu skoðunar, t. d. hv. þm. Matthías Bjarnason á sínum tíma, þegar hann hugðist leggja fyrir 99. löggjafarþingið frv. sem gerði ráð fyrir að stofnaður yrði tannsmíðaskóli í tengslum við tannlæknadeild Háskóla Íslands. Þetta frv. var aldrei lagt fram hér á Alþ. á sínum tíma af ýmsum ástæðum, m. a. vegna þess að tími var knappur vorið 1978 til frágangs á fjöldamörgum málum sem þá voru til meðferðar í heilbrmrn. að tilstuðlan þáv. hæstv. ráðh., m. a. sú víðtæka heilbrigðisþjónustulöggjöf sem hann beitti sér þá fyrir.

Þetta sjónarmið vildi ég láta koma fram hér af minni hálfu, herra forseti, að ég mun greiða atkv. gegn þessu frv. þegar það kemur til atkvæða hér á eftir.