23.04.1980
Neðri deild: 64. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2071 í B-deild Alþingistíðinda. (1954)

131. mál, flugvallagjald

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það er út af einu atriði í ræðu hv. þm. Sverris Hermannssonar sem ég kvaddi mér hljóðs, en mér hefur fundist örla á í ræðum annarra hv. þm. og eins í öðrum opinberum málflutningi að undanförnu vissum misskilningi í sambandi við svokallað orkujöfnunargjald, því er stundum haldið fram, að þetta orkujöfnunargjald sé tekið út úr vísitölu og áhrif þess séu atgerlega tekin út úr verðbótavísitölu. Það er ekki rétt. Samkv. lögum nr. 13/1979, svokölluðum Ólafslögum, eru dregnar frá hækkun verðbótavísitölu þeir fjármunir sem notaðir eru til hækkunar olíustyrks. Þegar er inni í frádrætti frá verðbótavísitölu olíustyrkur sem samsvarar um 18–19 þús. kr. á mann á ársfjórðung, ef ég man rétt. Sá viðbótarfrádráttur, sem yrði til nú kæmi einungis fram vegna hugsanlegrar hækkunar á olíustyrk frá þessari tölu, þannig að að öðru leyti kemur orku jöfnunargjaldið allt fram í vísitölu eins og það er kallað. — Þetta vildi ég láta koma fram hér vegna þeirra ummæla sem féllu af hálfu hv. þm. Sverris Hermannssonar um að hér væri verið að taka hluti fram hjá kaupgjaldsvísitölu.

Varðandi þetta flugvallagjald vil ég svo benda á að samkv. lögum, sem sett voru af vinstri stjórninni á sínum tíma, 1. gr. laga nr. 110/1978, skal tekjum af flugvallagjaldi varið til eflingar flugmála. Hér eru því auðvitað bein tengsl á milli gjalds og útgjalda.