28.04.1980
Efri deild: 70. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2121 í B-deild Alþingistíðinda. (1993)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Á þessum vetri hefur starf Alþingis og ríkisstj. verið með óeðlilegum og afbrigðilegum hætti. Í byrjun októbermánaðar óskaði Alþfl. nánast fyrirvaralaust að draga sig út úr þáv. ríkisstj. „Poppliðið“ í Alþfl. hafði náð yfirhöndinni. Þetta var bæði óvenjulegt og óskynsamlegt þegar af þeirri ástæðu að Alþ. var að koma saman og brýn nauðsyn á afgreiðslu margra stórmála, svo sem fjárlaga, fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar og skattamála, en þessi mál höfðu þegar verið undirbúin. Þáv. forsrh., Ólafur Jóhannesson, lagði á s. l. hausti fram skýra efnahagsstefnu á Alþingi í skýrslu um þjóðhagsáætlun fyrir árið 1980, og ég lagði fram fjárlagafrv. sem var beinn þáttur í þeirri stefnu. Með stjórnarrofinu var ekki hugsað um hag lands og þjóðar, heldur um að gera „coup“ í pólitískum poppstíl.

Alþfl. og Sjálfstfl. bræddu sig síðan saman og kusu helstu embættismenn Alþingis sameiginlega og svo var hraukað upp starfsstjórn Alþfl. og Alþingi rofið. Í stað þess að snúast gegn aðsteðjandi vandamálum var þjóðinni att út í harðvítuga kosningabaráttu, sem lauk með kosningum í skammdeginu. Svo var stjórnarkreppa þar til núv. ríkisstj. var mynduð 8. febr. s. l. Segja má að landið hafi verið stjórnlaust 4–5 mánuði, einmitt á venjulegum starfs- og annatíma ríkisstj. og þó sérstaklega Alþingis.

Núv. ríkisstj. hóf störf við þau skilyrði að fjárlög ríkisins voru óafgreidd þótt liðið væri þegar nokkuð af árinu, skattamálin í hreinum ólestri þar sem nýja skattalöggjöfin hafði ekki verið fullfrágengin, slitur af fjárfestingar- og lánsfjáráætlun lágu í skúffum stjórnarráðsins og atvinnulífið var í andarslitrunum í hengingaról starfsstjórnar Alþfl. Aðkoman var því erfið og vandasöm.

Fulltrúar fiskvinnslunnar og útflutningsiðnaðarins gengu á fund ríkisstj. nokkrum dögum eftir að hún var mynduð. Staða þessara atvinnugreina var þá þannig, að stöðvun var fyrirsjáanleg ef ekki yrðu gerðar gagnráðstafanir þegar í stað. Ákveðið hafði verið, áður en núv. ríkisstj. kom til, að lækka afurðalán til atvinnuveganna úr 75% í 71.5%. Lækkun, sem nam 1.5%, hafði þegar verið framkvæmd. Ríkisstj. blandaði sér í málið og lét breyta þessu aftur í hið fyrra horf. Þá hafði jafnframt verið ákveðið að hækka vexti um 3–5% 1. mars s. l. Ríkisstj. beitti sér fyrir því, að þessu var breytt og hætt var við hækkunina að sinni. Þá var einnig augljóst að óhjákvæmilegt væri að gengi krónunnar yrði látið síga nokkuð til að tryggja rekstrargrundvöll útflutningsatvinnuveganna, en gengi krónunnar hafði verið haldið lítið breyttu þrátt fyrir 13% launahækkanir 1. des. og margvíslegar kostnaðarhækkanir fyrir atvinnureksturinn. Fleiri ráðstafana hefur ríkisstj. gripið til til að afstýra rekstrarstöðvun útflutningsatvinnuveganna.

Óhjákvæmilegt hefur reynst að taka verðlagsmál margra ríkisstofnana og atvinnufyrirtækja til gagngerðrar endurskoðunar ef ekki átti að koma til stöðvunar starfseminnar. Ég nefni til dæmis Sementsverksmiðjuna. Þar blasti við stöðvun og lokun. Það varð að heimila verulegar verðhækkanir á sementi, sem námu 20–30%, til að tryggja áframhaldandi starfsemi verksmiðjunnar. Útvarp og sjónvarp voru í dauðateygjunum: Það var óhjákvæmilegt að heimila allt að 23% hækkun afnotagjalda þessara stofnana og hrekkur það varla til. Enginn skal halda að slíkt hafi verið gert án rækilegrar skoðunar gjaldskrárnefndar og viðkomandi rn. Full rök, sem ekki varð gengið fram hjá, leiddu til nauðsynjar á þessum miklu hækkunum. Þá var óhjákvæmilegt að leyfa margvíslegar hækkanir á verði vöru og ýmiss konar þjónustu. Sennilega verður ekki komist hjá hækkun fargjalda með strætisvögnum, svo dæmi sé tekið. Að óbreyttu verður halli á Strætisvögnum Reykjavíkur t. d. 1500 millj. kr. á ársgrundvelli. 1 flestum tilfellum hafa slíkar hækkanir verið leyfðar með samhljóða samþykki Verðlagsráðs, en þar eiga m. a. sæti fulltrúar helstu hagsmunasamtaka, eða með samþykki gjaldskrárnefndar, sem fjallar fyrst og fremst um verð á opinberri þjónustu.

Þegar núv. ríkisstj. tók við í byrjun febrúar hafði því safnast saman margra mánaðageymdur og lengdur vandi í verðlagskerfinu sem óhjákvæmilega hlaut að brjótast fram á yfirstandandi vísitölutímabili, þ. e. 1. febr.–1. maí. Nú liggur t. d. fyrir bunki óafgreiddra mála hjá gjaldskrárnefnd. Samkv. bráðabirgðaverðlagsspá, sem gerð var í byrjun yfirstandandi vísitölutímabils, var áætlað að verðhækkanir yrðu rúmlega 10% og þar af væri geymdur vandi um 2%. Þessi geymdi vandi var, eins og áður greinir, fyrst og fremst fólginn í því, að ekki höfðu verið heimilaðar eðlilegar og óhjákvæmilegar hækkanir á verði vöru og þjónustu, ekki síst opinberri. En einnig kom til gengismisræmi og margt fleira. Það er nú alveg ljóst, að þessi geymdi uppsafnaði verðlagsvandi er allmiklu meiri en ráð var fyrir gert. Þegar öll kurl eru komin til grafar ætla ég að hann verði a. m. k. 3–4 prósentustig í framfærsluvísitölunni. Hann skrifa ég á syndaregistur Alþfl. og formann Sjálfstfl. og hans manna. Þetta kann að raska nokkuð áformum ríkisstj. í verðlagsmálum og niðurtalningu verðbólgunnar, en haggar ekki langtímamarkmiðum um hjöðnun verðbólgunnar í áföngum. Þetta kallar og á aukið aðhald á næstu mánuðum.

Á aðalfundi miðstjórnar Framsfl., sem haldinn var nú um helgina, segir svo m. a. í stjórnmálaályktun: „Efnahagsmálin eru meginviðfangsefni núv. ríkisstj.

Stefnt er að niðurtalningu verðbólgunnar í áföngum. Markmiðið er að verðbólgan verði árið 1982 svipuð og í helstu viðskiptalöndum Íslendinga. Til þess að ná því marki er nauðsynlegt að beita aðhaldi í ríkisfjármálum, peningamálum, fjárfestingu og gengisskráningu. Við niðurtalninguna leggur Framsfl. ríka áherslu á samræmi verðlags og launa. Framsfl. telur að árangri í kjara- og launamálum verði best náð með samstarfi við launþega í landinu. Á slíkt samstarf og ýmsar félagslegar umbætur launþegum til handa ber því að leggja höfuðáherslu.“

Í kosningabaráttunni í vetur lagði Framsfl. áherslu á aukna framleiðslu og framleiðni. Það markmið er ítarlega undirstrikað í stjórnarsáttmálanum. Hjöðnun verðbólgunnar er hins vegar forsenda þess, að góður árangur náist í þessu efni. Það er vafasamt að þjóðinni takist til lengdar að halda hinum góðu lífskjörum, hvað þá bæta þau, með áframhaldandi óðaverðbólgu og upplausn í efnahagsmálunum.

Á sviði sjávarútvegs og fiskvinnslu eru mikilvæg verkefni fram undan. Framsfl. leggur áherslu á að skapa sjómönnum, útvegsmönnum og fiskvinnslunni öryggi og svigrúm til athafna innan ramma sem ríkisvaldið setur um hámarksveiðar og nýtingu aflans með það í huga að sem hagkvæmast verði þjóðarbúinu hverju sinni. Þetta er flókið mál sem leysa ber í samráði við hagsmunaaðila.

Í landbúnaðarmálum hefur ríkisstj. þegar gert ráðstafanir til að tryggja bændum óverðtryggðan útflutning landbúnaðarvara frá seinasta verðlagsári með útvegun á 3000 millj. kr. láni. Framsfl. telur hagsmuni bænda og neytenda best tryggða með aðlögun landbúnaðarframleiðslunnar að þeim mörkuðum, sem viðunandi gefast, og að framleiðsla sauðfjár- og mjólkurafurða verði sem næst neysluþörfum þjóðarinnar og þörfum iðnaðarins. Þess ber að gæta, að óumflýjanlegur samdráttur bitni sem minnst á tekjumöguleikum bænda og valdi ekki röskun byggðar.

Markvisst verður að vinna að því að koma á fjölbreyttara atvinnulífi í sveitum til að tryggja þar eðlilega byggð og mannlíf. Iðnaðurinn hlýtur að taka við mestum hluta þess vinnuafls sem bætist á vinnumarkaðinn á næstu árum. Mikla áherslu verður því að leggja á eflingu hans, framleiðni og bætta samkeppnisaðstöðu við erlendan iðnað. Leggja ber sérstaka rækt við úrvinnslu og þjónustuiðnað sem byggist á innlendri orku og hráefnum.

Um verslunina vil ég aðeins segja það hér, að hún er ein af mikilvægustu atvinnugreinum þjóðarinnar. Góð verslunarþjónusta í nútímaþjóðfélagi er ein af undirstöðum almennrar velferðar. Ég er þeirrar skoðunar að frjáls samkeppni samvinnuverslunar og einkaverslunar tryggi þegar til lengdar lætur best eðlilega verslunarálagningu og hagstæð innkaup til landsins.

Á verðbólgutímum og e. t. v. öllum tímum er sterkt og virkt verðlagseftirlit nauðsynlegt. Þá vil ég undirstrika það ákvæði stjórnarsáttmálans að efla beri samtök neytenda til þess að þau geti gegnt því mikilvæga verkefni að gera verðlagseftirlit neytendanna sjálfra sem virkast.

Ég mun í síðari ræðu minni koma nánar að ýmsu því sem stjórnarandstæðingar hafa drepið á hér í umr.