01.05.1980
Neðri deild: 68. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2288 í B-deild Alþingistíðinda. (2160)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Forseti (Sverrir Hermannsson):

Með vísun til þessara orða hv. 5. þm. Vestf. vil ég taka fram, að það er að vísu misskilningur að ég hafi gert samkomulag við einn eða neinn um það, hvenær þetta mál yrði afgreitt úr hv. deild. Hins vegar var mér kunnugt um að stjórn og stjórnarandstaða höfðu gert um það samkomulag, að máli þessu skyldi lokið á miðvikudag, eins og það var orðað. En svo skipast mál nú, að nokkuð er liðið fram yfir miðnætti, og ekkert raunar við því að segja af því að kveðið er svo á að umr. skuli hið minnsta, áður en ræðutími er takmarkaður, standa í þrjár stundir. Hef ég ekki séð ástæðu til — þar sem mál hafa hér gengið sæmilega greiðlega fram og mjög greiðlega, má segja, á liðnum degi — að gera neina tilraun til þess að hefta málfrelsi manna. Vona ég að þetta verði ekki að ásteytingarsteini.