01.05.1980
Neðri deild: 68. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2291 í B-deild Alþingistíðinda. (2163)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. (Matthías A. Mathiesen):

Herra forseti. Hæstv. forsrh. kom í ræðustólinn áðan og vildi gera samanburð á þeim skattstigum, sem hér eru til umr., og þeim staðgreiðsluskattstigum sem voru í lögum nr. 40/1978. Það liggur í augum uppi, að ef svo hefði farið sem fór, að staðgreiðslan væri ekki lögfest, þá hefðu sjálfstæðismenn breytt skattstiganum til þess horfs sem þeir voru áður en þau lög tóku gildi. Samanburður við löggjöf, sem aldrei hefur náð fram að ganga, er ákaflega hæpin, eins og var hjá hæstv. forsrh. áðan.

Athygli manna hefur vakið sú 6kyrrð sem hefur verið í þeim Alþfl.-mönnum síðari hluta kvöldsins, og furðulegt er að þeir hafa komið hér upp í ræðustólinn til þess að lýsa ábyrgð á hendur sjálfstæðismönnum á því sem nú er að gerast. Ég get mjög vel skilið, þegar nú er komið fram á 1. maí og þeir sjá hluta af eigin verknaði, að þá bíti sök sekan. En ég get ekki látið þessa umr. svo líða að ekki sé vakin athygli á skattastefnu Alþfl. og því sem gerðist á s. l. ári, eða frá því að Alþfl. kom í ríkisstj. á síðari hluta ársins 1978. Eins og hv. 1. þm. Reykv. vék að hér áðan, hefur það, að nokkrir þm. Sjálfstfl. hafa hlaupið í skarðið fyrir Alþfl.-menn í sambandi við skattastefnuna, verið okkur hinum, sem viljum fram halda stefnu Sjálfstfl., áhyggjuefni og að sjálfsögðu hefðum við kosið að aldrei hefði til þess þurft að koma. En það, sem er að gerast í dag með aðstoð Alþfl., er sannarlega athyglisvert. Tökum t. d. hækkun söluskatts. Þetta er í þriðja sinn sem Alþfl. samþykkir hækkun söluskattsins, nú úr 20 upp í 22%. Fyrst samþykkir hann söluskattshækkun í vinstri stjórninni, hún gefur út brbl., síðan gefur Alþfl.-stjórnin út brbl. á ný og í dag samþykkja Alþfl.-menn að hækka þennan skatt. Alþfl.-mennirnir samþykkja hækkun á vörugjaldi. Alþfl.-mennirnir samþykkja gjald á ferðalög til útlanda. Alþfl.-mennirnir samþykkja nýbyggingargjald. Alþfl.-mennirnir samþykkja skatt á verslunarhúsnæði. Ég trúi því ekki, að þeir hv. alþm., sem hér hafa talað — að vísu var komið fram yfir miðnætti — hafi verið búnir að gleyma því þegar þeir samþykktu þetta allt saman.

Þær voru þungar áhyggjurnar sem hv. þm. Vilmundur Gylfason hafði af Sjálfstfl. og því, að þar hefði bæst einn í hópinn fyrir skömmu, og af atkvgr. hér í dag og því, hvaða stefnu Sjálfstfl. hefði haft fyrir kosningar og hvaða stefnu nokkrir þm. hans framkvæmdu eftir kosningar. Það er alveg óþarfi fyrir hv. þm. að hafa áhyggjur af þessu. Sjálfstfl. er sjálfum sér samkvæmur, og það er miklu meira en hægt er að segja um Alþfl. í þessum efnum.

Við skulum aðeins rifja upp þegar Sjálfstfl. fór með fjmrn. árin 1974–1978. Hvert var hlutfall skatttekna ríkisins á því tímabili? Það er ósköp auðvelt að fletta þessu upp og benda þessum hv. þm. á að 1975 er hlutfallið 26.8%, 1976 26.2%, 1977 25% og 1978 26.4%, þegar teknir eru nýju skattarnir, sem Alþfl. samþykkti síðari hluta ársins, en innan við 26% ef þeir eru dregnir frá. Meðaltal þessara fjögurra ára er 26%. En viti menn: Alþfl. fór í ríkisstj. og hvert er hlutfallið árið 1979? Það eru tæp 28%. Það eykst um 2% á árinu 1979 þegar þjóðarframleiðslan er nærri 900 milljarðar. Það eru 18 milljarðar sem þá eru ný skattlagning í beinum sköttum, m. a. vegna samþykkta Alþfl.

Ef við lítum á áhrif þessarar skattheimtu á skattborgarana, ef við lítum á álagða skatta sem hlutfall af tekjum greiðsluárs, hvað kemur þá út? Þá kemur út nákvæmlega það sama. Það hefur tekist að lækka þetta hlutfall frá árinu 1975 til ársins 1977 úr 11.5% niður í 10.5%. Á árinu 1978 er talan 11.6%. En hvað gerist svo 1979 þegar Alþfl. er kominn í stjórn? Þá er hækkunin allt í einu orðin um 2%. Þá hækkar greiðslubyrðin úr 11.6% í 13.4%. Þá eru Alþfl., Alþb. og Framsfl. farnir að leggja á nýja skatta. Og þetta hafa þeir verið að gera síðan. Og eins og ég sagði áðan eru þeir núna í þriðja skiptið að samþykkja 2% hækkun á söluskattinum, úr 20 upp í 22%. Svo koma þeir hér í ræðustólinn, þessir tveir ágætu þm., fullir vandlætingar vegna þess að það eru örfáir þm. Sjálfstfl. sem hafa ekki viljað fylgja fram stefnu flokksins og því miður hlaupið í skarðið fyrir Alþfl., sem gafst upp, og staðið að samþykkt á nýjum sköttum.

Mig langar jafnframt til að benda þessum ágætu þm. á það, að fyrir nokkrum vikum var hér til umr. heimild til handa sveitarfélögum til að hækka útsvarsálagningu. Hvar var Alþfl. þá? Hvar var hv. 5. þm. Suðurl., þegar atkvgr. fór fram í þeim efnum? Ég man ekki betur en sá hv. þm. hafi samþykkt tólfta prósentið, eins og við köllum það hér. Og ég hef ekki heyrt að þessi hv. þm. hafi sagt sig úr Alþfl. Ég vissi ekki betur en hann væri í Alþfl. þegar hann samþykkti þetta hér á þingi. En auðvitað vildu þessir tveir þm. ekki muna eftir þessu þegar þeir komu hér upp í kvöld til að ræða skattamálin og gera tilraun til að villa um fyrir mönnum og koma á Sjálfstfl. ábyrgðinni á þeirri löggjöf sem gert er ráð fyrir að verði samþ. hér nú í nótt.

Nei, við verðum að gera okkur grein fyrir því, að Alþfl. ber ábyrgð á því sem nú er að gerast. Hann ásamt með Alþb. og Framsfl. myndaði ríkisstj. síðla árs 1978, ríkisstj. sem hóf skattpíningarherferð, þá skattpíningarherferð sem enn geisar í landinu. Og það var réttilega bent á það hér áðan af hv. 1. þm. Reykv., til hvers slík skattpíning leiðir, hvort heldur er varðandi atvinnulífið eða einstaklingana í landinu.

Ég skal svo ekki halda hv. 5. þm. Vestf. lengur vakandi hér, a. m. k. skal það ekki vera mitt verk að framlengja vöku hans mjög mikið. En þegar rætt er um að afgreiðslu mála ljúki og samkomulag hefur verið um að ljúka afgreiðslu mála hér á einhverjum ákveðnum degi, þá hafa menn ekkert hrokkið upp við það að umr. hafi staðið eitthvað fram yfir miðnætti, ég tala ekki um þegar afgreiðslan gengur svo seint að það er ekki hægt að byrja umr. um málið fyrr en komið er langt fram eftir degi. Ég bendi þessum hv. þm. á að það var klukkan eitt í dag sem fjh.- og viðskn. tók þetta mál til meðferðar. (Gripið fram í. ) Ég er að tala við skrifarann, já. Og ég veit ekki til þess, að það hafi staðið á stjórnarandstöðunni að koma með sín nál. Hafi staðið á einhverjum mönnum í þeim efnum, þá eru það menn sem hafa stutt stjórnina. (Gripið fram í.) Já, ég sagði að það hefði staðið á mönnum sem hafa hingað til stutt stjórnina. Einhver sagði, að þeir væru vestur í Stykkishólmi, og aðrir bættu því við, að þeir væru þar á krossgötum, og þá voru menn að velta fyrir sér, hvort krossgöturnar væru í Stykkishólmi. En ef hér er ekki hægt að ræða jafnþýðingarmikil mál og frv. um skattstiga, varðandi skattlagningu borgaranna í landinu, vegna þess að menn geti ekki haldið vöku sinni í nokkra klukkutíma fram yfir miðnætti, þá held ég að mál séu farin að ganga hér á hinu háa Alþingi með nokkuð sérkennilegum hætti. (Gripið fram í: Það er gott að vita hvernig þið túlkið samkomulag.) Ég sagði áðan við þennan hv. þm., að a. m. k. þau 21 ár sem ég hef setið á Alþ. þegar rætt hefur verið um að ljúka afgreiðslu mála á einhverjum ákveðnum degi, þá hafa menn ekki talið eftir sér, hvorki mínir flokksmenn né heldur flokksmenn hv. þm., því Framsfl. hefur stundum verið í stjórnarandstöðu, að vera hér nokkra klukkutíma fram yfir miðnætti. Málið hefur verið afgreitt áður en nýr dagur er runninn. Að sjálfsögðu verður staðið við það samkomulag og þeir verða hér sem geta haldið sér vakandi.