05.05.1980
Neðri deild: 69. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2332 í B-deild Alþingistíðinda. (2210)

170. mál, viðskiptafræðingar og hagfræðingar

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er nú til 1. umr., fjallar um rétt manna til að kalla sig viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Þetta mál hefur verið alllengi á döfinni og það hefur verið borið upp við fyrirrennara mína í embætti menntmrh. að undanförnu og hefur verið til athugunar hjá þeim og í rn. Þær urðu lyktir, að ég tók að mér að flytja þetta frv. fyrir orð Félags viðskipta- og hagfræðinga. Það er eðlilegt að viðskiptafræðingar og hagfræðingar fái löggildinu á stöðuheitum sínum eins og margar aðrar stéttir háskólamenntaðra sérfræðinga og annarra sem sérfræðingar eru, og að því leyti til taldi ég rétt að verða við þeirri beiðni að bera þetta mál upp.

Frv. er þannig úr garði gert, að það er mjög svipað að allri gerð og efni og reyndin er um lög, sem fjalla um svipað efni, varðandi aðrar stéttir sérfræðinga. Þarf það ekki að því leyti til sérstakrar útskýringar við. Þó má sjálfsagt um það deila hvort rétt sé að fela stéttunum sjálfum eins mikið vald og reyndar felst í orðalagi 2. gr., en ég vil taka það fram, að þetta er í samræmi við það orðatag og það efni gildir t. d. um verkfræðinga, tæknifræðinga og arkitekta. Að því leyti til sá ég ekki ástæðu til að bregða út af því að flytja frv. í þessu formi. Hins vegar vænti ég þess, að menntmn. taki þetta mál til skoðunar og kanni það frá öllum hliðum áður en það verður gert að lögum. Ég tel ekkert óeðlilegt þó að hið mikla vald, sem þarna er fengið stéttarsamtökum viðskiptafræðinga og hagfræðinga, verði rætt í n. og það verði borið saman við það sem gerist hjá öðrum stéttum.

Að öðru leyti skal ég ekki hafa um þetta fleiri orð, herra forseti. Frv. er flutt samkv. ósk Félags viðskipta- og hagfræðinga. Það hefur verið til athugunar í rn. alllengi og ég held að það hafi verið rétt að flytja þetta mál, enda eðlilegt að þessir sérfræðingar fái sinn rétt eins og fleiri sérfræðingar hafa fengið áður.

Að lokinni þessari umr., herra forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.