05.05.1980
Neðri deild: 69. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2334 í B-deild Alþingistíðinda. (2215)

171. mál, vélstjóranám

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um breytingu á lögum um vélstjóranám, nr. 67/1966, og felur það í sér að þeir, sem lokið hafa fyllsta námi frá Vélskóla Íslands á hverjum tíma og hafa að auki lokið sveinsprófi í vélvirkjun eða annarri málmiðnaðargrein, fái rétt til þess að kalla sig starfsheitinu vélfræðingur.

Þessari beiðni var beint til mín af hálfu Vélstjórafélags Íslands og á það bent að orðið „vélstjóri“ nái yfir mjög stórt svið og gefi ekki rétt til kynna hvaða námi þeir hafa lokið sem nefnast þessu starfsheiti. Tillaga þeirra var sú í Vélstjórafélaginu, að þeir, sem lengst og fyllst nám hafa úr Vélskólanum, verði nefndir vélfræðingur. Ég hef talið að það sé ekki óeðlilegt að þessi munur sé gerður á og þeir fái að nefna sig vélfræðinga sem hafa lokið því langa og stranga námi sem fullt nám í Vélskóla Íslands er. Vélfræðingur var notað um vissa tegund tæknimenntaðra manna, hygg ég, um nokkurt árabil, en hefur nú alveg dottið úr málinu og að því leyti til tel ég ekki óeðlilegt þó að þetta orð sé notað um þá sem lokið hafa fyllsta námi frá Vélskólanum og eru auk þess með sveinspróf í vélvirkjun eða annarri málmiðnaðargrein, eins og segir í 1. gr. þessa frv.

Það gildir eins um þetta frv. og það sem ég var að mæla fyrir áðan, að það er eðlilegt að það verði skoðað vel og þm. fái aðstöðu til að átta sig á því. Ég rek ekki svo á eftir því að það verði að lögum á þessu vori, heldur sé það lagt fram til kynningar.

Ég legg til, herra forseti, að þegar þessari umr. er lokið verði málinu vísað til 2. umr. og til menntmn.