21.12.1979
Neðri deild: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (231)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins taka það fram, að mér er það alveg ljóst, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði áðan, að það eru erfiðleikar hjá bæði einstaklingum og fyrirtækjum. En spurningin er, hvað eru lögboðnar greiðslur í þessu sambandi og hvað ekki? Ég tel að ríkisstj. verði í þessu sambandi að taka mið af því, hvaða greiðslur hún hefur heimild til að greiða og á að greiða samkv. lögum og hverjar ekki. Eftir því sem starfsmenn fjmrn. upplýsa mig um hefur þegar verið lokið við að greiða allar þær greiðslur sem heimildir eru til að greiða og lög bjóða að greiddar skuli. Ef það kemur í ljós að eitthvað er ofsagt í þeim fræðum, þá mun ég að sjálfsögðu sjá til þess, að við lögboðnar greiðslur verði staðið. Það fé, sem okkur hv. þm. greinir á um, segir fjmrn. — og ég er sammála því þangað til ég fæ betri upplýsingar — að séu ekki lögboðnar greiðslur, heldur greiðslur umfram lögboðnar heimildir. Ég hef ekki lögbókina hjá mér, en mig minnir að segi í lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins, að verðábyrgð ríkissjóðs vegna útfluttra landbúnaðarafurða skuli nema allt að 10% af samanlögðu heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar á viðkomandi verðlagsári. Þetta hefur ávallt verið framkvæmt þannig, eins og ég lýsti áðan, að gerð hefur verið áætlun um það í upphafi árs, hversu mikið heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar mundi verða og síðan áætluð í fjárlagaafgreiðslu 10% af þeirri upphæð, og sú áætlun hefur verið notuð til þess að styðjast við. Þessi áætlun um heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar hefur síðan verið endurskoðuð og verðábyrgðin þá leiðrétt.

Eins og ég sagði áðan nemur síðasta endurskoðun Hagstofunnar á samanlögðu heildarframleiðsluverðmæti landbúnaðarins á því verðlagsári, sem lögin segja fyrir um að verðábyrgð ríkissjóðs skuli greidd á, alls 5337 millj. kr. Og samkv. upplýsingum fjmrn. hefur sú upphæð þegar verið greidd úr ríkissjóði og rúmlega það. Það hefur hins vegar gerst oft áður, samkv. upplýsingum þessara sömu embættismanna, að endanlegt uppgjör á slíkri ábyrgð hafi ekki farið fram fyrr en eftir áramót. En slíkt uppgjör, slík endanleg greiðsla hefur nú þegar farið fram samkv. þeim upplýsingum sem mér voru gefnar. Sé það rangt, sé eitthvað eftir af þeirri greiðslu sem lögboðið er að ríkissjóður skuli greiða í þessu sambandi, þá verður það auðvitað greitt fyrir áramót, þannig að hvorki embættismenn fjmrn. né ég hafa gert neina tilraun til þess að stöðva eða tefja þær greiðslur sem ríkissjóður á að borga samkv. lögum í þessu sambandi. Hins vegar gerðist það í fyrra í fyrsta skipti, að á því ári var ákveðið að standa að greiðslum umfram þetta, að taka raunverulega upp flýtigreiðslu á útflutningsuppbótum, þ.e. að greiða útflutningsuppbætur af framleiðslu fyrstu fjögurra mánaða verðlagsársins, sem ekki áttu að falla í gjalddaga og ekki var lögboðið að greiða fyrr en eftir áramót. Þarna er um að ræða flýtigreiðslu á útflutningsbótum vegna landbúnaðarafurða.

till., sem hæstv. þáv. landbrh. flutti 28. des. 1978, var um það, að þessi háttur yrði upp tekinn. Það finnst ekkert í bókun ríkisstj. um að þessi till. hafi verið samþ. Það stendur aðeins að engin aths. hafi verið gerð og að landbrh. muni vinna að framgangi málsins í samráði við fjmrh. En við skulum ekki deila um það, hvort þetta er samþykki eða ekki. Meginatriði málsins er það, að í sjálfri till. — sem við getum skoðað sem samþykkta — stendur að samkv. þessu verði sérstaklega gert ráð fyrir því við fjárlagagerð, að fé sé fyrir hendi til þess að greiða megi þessa flýtigreiðslu sem er umfram það sem verðábyrgð í lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins segir. Það er alveg ljóst, að fyrir því var ekki gert ráð við fjárlagaafgreiðslu á síðasta Alþ. né heldur var því spáð í fjárlagafrv., sem lagt var fram á Alþ. í okt., að þetta ætti að gera vegna framleiðslu næsta árs. Í yfirstandandi fjárl. og einnig í því fjárlagafrv. var aðeins miðað við að greiða útflutningsbætur vegna framleiðslu viðkomandi verðlagsárs og ekkert fram yfir það, þannig að eigi þessi samþykkt, sem menn ræða um frá 28. des., að gilda, þá yrði samkv. henni að gera ráð fyrir því í fjárl. að svo færi. Það hefur hins vegar ekki verið gert og það er talið afdráttarlaust taka af öll tvímæli um það, að mögulegt sé að veita þetta fé úr ríkissjóði án samþykkis Alþingis, þannig að enn held ég að það sé alveg ljóst, að allar þær greiðslur, sem lögboðnar eru vegna verðábyrgðar á útflutningi landbúnaðarafurða á þessu ári, hafi verið greiddar og rúmlega það. En ég tek það aftur fram, að ef það reynist ekki rétt, ég þarf að skoða málið nánar en mér hefur gefist tími til, mun ég að sjálfsögðu láta greiða það sem á vantar, vegna þess að við höfum ekki í fjmrn. neitað að greiða lögboðin framlög og á slíkum greiðslum hefur ekki staðið. En við höfum hins vegar verið mjög aðhaldssamir um útgjöld úr ríkissjóði sem ekki eru lagalegar heimildir fyrir.

Í öðru lagi er löngu búið að ljúka þeim skilum á niðurgreiðslum, sem Alþ. samþykkti við fjárlagaafgreiðslu á s.l. vetri, svo og öllum þeim greiðslum á aukafjárveitingum, sem fyrrv. ríkisstj. hefur samþykkt. Samanlögð fjárhæð aukafjárveitinga og heimilda Alþingis til niðurgreiðslna nemur 19.2 milljörðum kr. Þegar hafa verið greiddir 20.9 milljarðar kr. eða allveruleg fjárhæð fram yfir það sem nemur heimild Alþingis í fjárl. og samþykktum aukafjárveitingum af hálfu ríkisstj. Til viðbótar hafa hins vegar verið lagðir fram reikningar nú fyrir nokkrum dögum upp á 1700 millj. kr. Það er 1700 millj. kr. meira en þegar hefur verið greitt, sem er 1400 millj. kr. meira en nemur heimildum, sem Alþ. hefur veitt, og heimildum, sem samþykktar hafa verið af ríkisstj. Ég tel að mig skorti heimild til þess að greiða slíkt fé úr ríkissjóði, enda ekki lögbundið. Ég tel að mig skorti heimild til þess að greiða það fé nema til komi annað af tvennu: að Alþ. samþykki slíka heimild ellegar þá að ríkisstj. samþykki slíka aukafjárveitingu.

Hitt er aftur á móti alveg ljóst, að þegar mönnum er úthlutað ákveðinni fjárhæð á fjárl., sem ekki er bundin við einhverja tiltekna prósentutölu, ekki lögbundið framlag, þá verða menn auðvitað að miða sínar athafnir við að þeir fái þetta fé til ráðstöfunar sem Alþ. ákvarðar, en ekki einhverja aðra miklu hærri upphæð. Ég tel því að bæði fyrrv. og núv. ríkisstj. hafi allríflega gert með því að taka á sig ábyrgð á því að fara 1800 millj. kr. samtals fram úr fjárl., fram úr þeim heimildum sem Alþ. veitir ríkisstj. til fjárframlaga í fjárl. Ég tel að það liggi alveg ljóst fyrir, og ég tel það mjög varhugavert á þessum verðbólgutímum, þegar menn eru að reyna með öllum ráðum að hamla gegn stórfelldum hallarekstri á ríkissjóði, sem hlýtur að hafa í för með sér stórhækkaða skattbyrði á allan almenning í landinu, — þá tel ég mjög varhugavert af stjórnvöldum að fara í greiðslum úr ríkissjóði mörgum milljörðum fram yfir það sem Alþ. heimilar, ekki síst þegar um er að ræða framlög sem ekki eru ákvörðuð af öðrum lögum og er ætlast til af Alþ., þegar fjárlög eru samþykkt, að ríkisstj. standi við og greiði hvorki krónu minna né krónu meira.