13.05.1980
Neðri deild: 75. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2612 í B-deild Alþingistíðinda. (2589)

94. mál, sjómannalög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Út af því, sem hæstv. samgrh. sagði áðan, er að hann hefur einungis lofað sjómannasamtökunum því að frv. yrði afgreitt á þessu þingi. Hann lýsti því alveg sérstaklega yfir, að frv., sem lagt var fram af hálfu Alþfl.-stjórnarinnar, yrði afgreitt á þessu þingi. Hann bætti hins vegar við, að hann teldi að sjómenn mættu vel við una. Ég skil hann því svo, að það sé yfirlýst álit hans að hann telji að hér sé fullnægt — með frv. og þeim brtt. sem samgn. leggur til — því sem lofað hefur verið sjómannasamtökunum. Hins vegar er kannske rétt að bæta því við, að það var ráðh. Alþfl., sem lagði frv. fram, og hv. Alþfl.-þm. Árni Gunnarsson sem formaður samgn. á kannske mestan veg og vanda af því að málið er komið þann veg sem það nú stendur og vonandi fer í gegn hér í þinginu. En nóg um það.

Þá er það hv. þm. Guðrún Helgadóttir. Það væri ástæða til þess hér og nú að ræða allítarlega við hv. þm. Ég held að ég hafi sagt það hér einhvern tíma nýlega, og það hafa fleiri sagt en ég, að komin væri upp sérstök deild í Alþb. sem gengi undir nafninu „gáfumannadeildin“. Einhvern veginn fannst mér á málflutningi hv. þm. að allt benti til þess, bæði í málflutningi og öllu látbragði, að hv. þm. tilheyrði „gáfumannadeildinni“ innan Alþb. (Gripið fram í.) Nei, ég vissi það ekki örugglega, en ég sá það og heyrði áðan. Hún er greinilega á allt öðru plani en hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson í þessum efnum, bæði að því er varðar málflutning, fas og annað.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði að ég hefði áðan, og það mætti ekki heyrast út fyrir þessa veggi mín vegna, verið að vorkenna Einari Guðfinnssyni í Bolungarvík að þurfa nú að borga þetta. Hvað á svona málflutningur að þýða? Ég skírskota til allra þm., sem hér voru inni þegar ég talaði áðan, annarra en Guðrúnar Helgadóttur, og spyr, hvort ég hafi talað á þann veg að ég væri að vorkenna Einari Guðfinnssyni eða öðrum útgerðarmönnum að þurfa að borga þetta. Ég sagði orðrétt að ég fagnaði því, að með brtt. samgn. væri verið að afnema það að farið væri í manngreinarálit, en ég benti hins vegar eðlilega á það, sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir virðist ekki skilja, — eðlilega segi ég líka, — að hér væri af hálfu Alþingis verið að veita fordæmi og t. d. landverkafólk hlyti að fá þennan sama rétt. Það virðist hv. þm. Guðrún Helgadóttir ekki skilja. (GS: Af hverju?) Af hverju skilur hún það ekki? Það á ég erfitt með að upplýsa. Það væri kannske nær að hv. þingbróðir og flokksbróðir hennar, Garðar Sigurðsson, kannaði það nánar og léti okkur síðan vita um niðurstöður þeirrar könnunar. (Gripið fram í: En af hverju?) Af hverju hvað? (Gripið fram í: En af hverju hlýtur það að fá sama rétt?) Það hlýtur að fá sama rétt. Alþingi getur ekki leyft sér að mínu viti að gera þannig greinarmun á tryggingalegum atriðum til handa launþegum þessa lands að láta landverkafólk, það fólk sem verst er sett kjaralega séð, líka vera áfram verst sett tryggingalega séð af öllum þegnum í landinu. — Það má vel vera, og ég heyri það, að vaxi fiskur um hrygg þeim þm. Alþb. sem gætu þessarar skoðunar vegna tilheyrt „gáfumannadeildinni“, en ég hélt þó ekki að væru þar.

En af hverju segir hv. þm. Guðrún Helgadóttir þetta? Hún sagði efnislega áðan: Það er í lagi — og það er athyglisvert að heyra fulltrúa Alþb. á Alþ. segja þau orð — að almennt verkafólk, sem er verst sett, hafi ekki sömu réttarbætur tryggingalega séð og sjómenn. Það er ekki nauðsynlegt, sagði hún orðrétt, að landverkafólk hafi sömu skilyrði í þessum efnum og sjómenn. Sjómenn eiga að hafa meira. En hvað hefur hv. þm. sjálfur, hvað hefur hann í þessum efnum? Hvað hafa opinberir starfsmenn? Eða gildir á þessum bæ að það sé allt í lagi ef ég hef það gott, þá megi aðrir eiga sig? Það vill nefnilega svo til, að hv. þm. hefur sem opinber starfsmaður, samkv. þeim réttindum sem þeir hafa, rétt til þriggja mánaða veikindagreiðslu á fullum launum eftir eitt ár og til viðbótar því aðra þrjá mánuði á hálfum launum, þ. e. hann hefur rétt — í þessu tilfelli hv. þm. Guðrún Helgadóttir — til þriggja mánaða greiðslu á fullum launum plús aðra þrjá mánuði á hálfum launum. Svo kemur hv. þm. hér upp og telur úr því, að verkafólk njóti þeirra sjálfsögðu kjararéttinda að eiga sambærilegan rétt í þessu tilfelli og sjómönnum er hér vonandi verið að veita, þ. e. öðrum en yfirmönnum á bátaflotanum sem höfðu þetta fyrir.

Þetta er athyglisvert að heyra frá þm. Alþb.-verkalýðsflokksins sem alltaf er að kalla sig svo. (Gripið fram í: Var þetta rétt skilið?) Auðvitað, auðvitað. Þó að ég hafi enga sérstaka ástæðu til að bera hlýjar tilfinningar til hv, þm. Guðrúnar Helgadóttur hefði ég gjarnan viljað geta haft þær hlýlegri en þær eru nú vegna þeirrar framkomu sem hv. þm. sýndi áðan, bæði að því er varðar tal og fas, því að allt benti til þess að hún sýndi þeim þegnum þjóðfélagsins, sem verst eru settir, lítilsvirðingu að því er þetta atriði varðaði. Ég skil vel að hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni finnist ærið erfitt að fara upp í ræðustól og taka hv. þm. hressilega til bæna, en ekki veitir af að því er þetta varðar. Það sýnir sig að hv. þm. er út úr kortinu og hefur ekki hugmynd um hvað hún er að tala um í þessu tilfelli. Ég skal viðurkenna að hún hefur í sumum tilfellum fullt vit og vald á því sem hún er að tala um. (Gripið fram í: Enda í „gáfumannafélaginu.“) En í þessu tilfelli hefur hún bókstaflega ekkert vit á því sem hún er að tala um.

Hún fór hér að tala um að þetta væri ekki of gott fyrir sjómenn sem kæmu í land eftir 50 ára útivíst, þá væri þessum tiltekna einstaklingi ekki of gott að fá þetta. Hvað á svona lagaður málflutningur á Alþ. að þýða? Þetta er bara til að hlæja að. — Ég óska eftir að fá að lesa ræðuna áður en henni verður breytt hjá hv. þm. ef hún ætlar að halda því fram að hér sé eitthvað ofsagt, frekar vansagt kannske. (Gripið fram í.) Eins og mín er von og vísa!

En hér kemur það enn einu sinni og enn betur í ljós hvers konar tvískinnungur er í sumum hverjum þm. Alþb. þegar þeir þykjast vera að fórna öllu til að verja hag þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu. Það eru innan vébanda þess flokks — það skal viðurkennast — ærið margir einstaklingar sem í raun og veru vilja gera þetta, vilja fórna sér, en þeir eru að verða allt of margir sem alls ekki kæra sig um það nema í orði og við hátíðleg tækifæri, en neyta síðan hvers tækifæris til að brjóta á bak aftur sjálfsagða réttindabaráttu þeirra einstaklinga sem þeir þykjast vera að berjast fyrir.

Það væri full ástæða til að halda hér miklu lengri ræðu um þennan hv. þm. og vonandi gefst til þess tækifæri síðar. En ég skal ekki verða til þess nú nema að frekara gefnu tilefni, ef það skyldi bjóðast í áframhaldi af þessu.