14.05.1980
Efri deild: 88. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2648 í B-deild Alþingistíðinda. (2625)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil byrja með því að þakka þau viðurkenningarorð sem hæstv. félmrh. lét falla til félmn. fyrir störf við frv. sem hér er til umr.

Hv. 5. þm. Norðurl. e., frsm. n., kom inn á nokkur atriði sem er ekki mikil ástæða fyrir mig að andmæla. Það er í hæsta lagi hægt að gera athugasemdir við sumt sem hv. þm. sagði.

Hv. þm. sagði, og virtist vera harla ánægður með það, að framsóknarmenn vildu lengja lánstímann. Færði hann því til sönnunar að þeir væru með brtt. sem fæli í sér lengingu lánstíma úr 21 ári í 26. Þetta kalla ég ekki sönnun fyrir því að framsóknarmenn vilji lengja lánstímann. Þeir eru aðeins að tala um að hafa sama lánstíma og er nú samkv. lögum. En þarna skilur á milli feigs og ófeigs. Við sjálfstæðismenn leggjum til að lánstíminn verði raunverulega lengdur frá því sem hann er núna samkv. gildandi lögum, úr 26 árum í 30 ár.

Þá sagði hv. þm. að hluti af launaskattinum væri nú markaður samkv. till. þeirra stjórnarliða og tekinn til Byggingarsjóðs verkamanna. Ég held að þetta segi lítið. Við þurfum að athuga þetta nokkru nánar. Ég kem að því í öðru sambandi.

Enn fremur sagði hv. þm. að það færi ekki saman að biðja um aukið fjármagn og vera á móti hækkun skatta. Þetta er nokkur einföldun. Þetta getur vel farið saman. Þegar beðið er um aukið fjármagn til einhverra hluta og þjóðþrifamála þarf það ekki að þýða að það fjármagn, sem til þeirra hluta fer, bætist ofan á allt annað sem fyrir er. Það er nú svo, að menn verða að velja og hafna. Þegar við sjálfstæðismenn gerum tillögur um að allur launaskatturinn gangi til þeirra þarfa, sem upphaflega var áætlað, eða til húsnæðismálanna, eigum við auðvitað við að það verður að taka til hendi í ríkisfjármálunum. Það mundum við sjálfstæðismenn hafa gert ef við værum við stjórnvölinn. En við viljum ekki vantreysta svo hæstv. ríkisstj. að við látum ekki okkur koma til hugar að gera tillögur í þjóðþrifamálum þó að það kosti einhver ný útgjöld.

Hv. frsm. n. vék að þeim till. sem ég ásamt félögum mínum, fulltrúum Sjálfstfl. í félmn., hef flutt. Hann sagði réttilega að sumt væri svipað og í till. stjórnarliða. Það er hægt að finna eitt eða tvö dæmi um að það séu alveg sömu till. Það er ekki óeðlilegt þegar þess er gætt að við erum búnir að starfa mikið saman í n. að þessu og ræða um þessi mál fram og aftur.

En ég vil víkja að nokkrum atriðum í till. stjórnarliða á þskj. 508.

Það er fyrst sú till. að setja inn ákvæði um markmið laganna, eins og það heitir. Hv. 3. landsk. þm. vék að þessu í máli sínu áðan. Ég er honum sammála um að það skipti harla litlu máli að vera að setja inn setningar eins og þeir leggja til um þessi efni. Það er vegna þess að löggjöfin sjálf og efnisatriði laganna eiga að vera á þann veg að þau stuðli að þeim markmiðum og að náð verði þeim markmiðum sem við setjum okkur, en að fara að tala um það sérstaklega er stundum ráð til að fela hið raunverulega ástand vegna þess að efnislega verður ekki náð markmiðunum.

Þá er það 4. brtt. á þskj. 508 sem ég vildi sérstaklega víkja að. Það er till. þeirra stjórnarliða um hvernig húsnæðismálastjórn skuli skipuð. Það hefur ekki verið mikið rætt um það. Ég vék ekki að því í fyrri ræðu minni, en þó er þessi till. þess eðlis að það er ekki hægt að láta hana fara þegjandi fram hjá sér vegna þess að með henni er tekin upp alveg ný stefna um hvernig á að haga skipan húsnæðismálastjórnar.

Nú er gert ráð fyrir að auk sjö þingkjörinna stjórnarmanna komi tveir til viðbótar sem eru tilnefndir af ASÍ. Ég sé engin rök fyrir því að horfið verði að þessu ráði. Meira að segja óttast ég að með þessu sé verið að skapa fordæmi sem við vitum ekki til hvers leiðir. Ef farið er að taka inn og skipa í stjórn Húsnæðismálastofnunar fulltrúa sumra aðila vinnumarkaðarins hljóta aðrir einnig að koma þar til. Það var ekki óeðlilegt sem einn gestur okkar sagði á fundi í félmn. þegar við vorum að ræða þetta: Hvers vegna ekki að lögleiða að húsnæðismálastjórn skipi í stjórn ASÍ?

Ég vil í þessu sambandi víkja að einni brtt. sem við sjálfstæðismenn flytjum á þskj. 509 og ég gerði ekki sérstaklega að umtalsefni í ræðu minni fyrr. Það er till. okkar um hvernig við viljum að stjórnir verkamannabústaða séu skipaðar. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðh. skipar stjórn verkamannabústaða þannig: Þrír eftir tilnefningu sveitarstjórnar, tveir eftir tilnefningu húsnæðismálastjórnar og tveir eftir tilnefningu verkalýðsfélaga í sveitarfélaginu. Ráðherra skipar formenn stjórnarinnar úr hópi sveitarstjórnarfulltrúa. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Kjörtímabil stjórnarinnar skal vera fjögur ár.“

Við teljum að það sé vel séð fyrir áhrifum verkalýðshreyfingarinnar í stjórn þessara mála með því að gera ráð fyrir að fulltrúar verkalýðsfélaganna í hverju sveitarfélagi séu aðilar að stjórn verkamannabústaðanna. Þetta er ekki nýtt. Í gildandi lögum er það svo, að sveitarstjórn tilnefnir þrjá, húsnæðismálastjórn þrjá og verkalýðsfélögin einn. Við göngum hér lengra og fjölgum fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar í þessum stjórnum. Við gerum okkur því ljóst hvaða þýðingu hinar félagslegu aðgerðir í húsnæðismálum hafa fyrir verkalýðshreyfinguna í landinu. Við erum ekki með neinar sýndar- og ótímabærar tillögur um skipan sjálfrar húsnæðismálastjórnar, heldur viljum við skipa fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar til starfa á þeim vettvangi þar sem starfað er beint að þessum málum.

Ég vil þá aðeins víkja að 7. brtt. stjórnarliða og líka að gefnu tilefni. Hæstv. félmrh. sagði áðan að í till. stjórnarsinna væru skapaðir möguleikar til almennrar skuldabréfasölu til fjáröflunar fyrir veðlánakerfið. Þá á hann við sjálfsagt 7. brtt. þeirra stjórnarliða, þar sem talað er um að aflað sé fjármagns í Byggingarsjóð ríkisins með sölu skuldabréfa til Atvinnuleysistryggingasjóðs og lífeyrissjóða samkv. lögum nr. 57 frá 1973 og 82 frá 1977 og á almennum markaði samkv. nánari ákvörðun í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. Hér er um að ræða algera sýndarmennsku. Þetta ákvæði hefur enga þýðingu. Það er vitnað í lög nr. 57 frá 1973, um atvinnuleysistryggingar, og það er vitnað í lög nr. 82 frá 1977, um erlendar lántökur og ábyrgðarheimildir og aðrar ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar. Ég fullyrði að þessi ákvæði hafa nákvæmlega sama að segja fyrir fjáröflun til húsnæðislánakerfisins hvort sem þessi brtt. þeirra stjórnarliða er samþ. eða ekki. Þessi ákvæði laganna, sem vitnað er til, hafa enga beina þýðingu haft í þessu efni. Það er furðulegt að slíkt skuli vera borið á borð í umr. sem þessum.

Ég vík aðeins að 9. brtt. þeirra stjórnarliða. Og hvað haldið þið að hún sé um? Frv. sjálft gerir ráð fyrir í 10. gr. að bætt sé við fjölda lánaflokka, mörgum lánaflokkum, og stórlega aukin viðfangsefni og verkefni húsnæðislánakerfisins. Við höfum séð að ekkert er gert til að afla aukins fjármagns til að mæta þessu nýja og aukna hlutverki sem lagt er á lánakerfið. En hvað haldið þið að brtt. stjórnarliða fjalli um? Hún fjallar um að bætt verði við 10. gr. frv. ákvæði sem heimili húsnæðismálastjórn til viðbótar að ákveða nýja lánaflokka að fengnu samþykki félmrh. Nei, það er ekki nóg. Það skal bæta við það sem er í frv. Það er ósköp einfalt. Bæði ég og hver annar þm. treystir sér til að bæta á óskalistann, ef ekki þarf að gera það mögulegt að af framkvæmdum verði með því að afla nýrra tekna í því skyni.

Mér þykir vafasöm sú brtt. sem stjórnarliðar gera og er 17. brtt. þeirra, um breytingu á 19. gr., en sú grein fjallar um að sveitarfélög skuli fá sérstök lán til meiri háttar viðbygginga, endurbóta og endurnýjunar á eldra húsnæði. Í frv. er gert ráð fyrir að þetta sé þó einungis til einstaklinga. Að vísu er ekki gert ráð fyrir neinu fjármagni til að sinna þeim verkefnum. Samt gera stjórnarliðar ráð fyrir að útvíkka þetta og láta þetta ná til sveitarfélaga í landinu.

En það er meira en þetta. Í 31. brtt. stjórnarliða er lagt til að framlag sveitarsjóða til verkamannabústaða lækki úr 20%, sem frv. gerir ráð fyrir, niður í 10%. Þetta er gott fyrir sveitarfélögin. Og það er hægur vandi að leggja auknar byrðar á ríkissjóðinn til þess að mæta því. En annars er þetta mál, um framlög til verkamannabústaða frá ríki og sveitarfélögum, miklu stærra og ég kom sérstaklega inn á það í fyrri ræðu minni í dag. Ég vil aðeins núna leggja áherslu á að það hefur alltaf verið svo, frá því að verkamannabústaðakerfið var sett á stofn, að ríki og sveitarfélög hafa staðið undir fjármögnun þess með beinum framlögum. Það er eðlilegt vegna þess að þetta kerfi þolir ekki að það sé notað lánsfjármagn. Hvernig dettur nokkrum manni í hug að það sé hægt nú á tímum að taka lán á frjálsum lánamarkaði, með þeim lánskjörum sem nú eru, og ætla svo sjóðnum að lána það út með 0.5%? M. ö. o.: það verður ekki undan því vikist að við verðum að skipta þessum 90%, sem eiga að koma úr kerfinu, á milli ríkisins og sveitarfélaga. Ef sveitarfélögin eiga að leggja fram 10% og eigendurnir eiga að leggja fram 10% verður ríkið að leggja fram 80% . Þetta bið ég menn að hafa í huga. Ég ræddi þetta nánar fyrt í dag, en þá var ekki svo vel að ráðh. væri hér viðstaddir og ekki fjmrh., sem þetta er sagt við sérstaklega.

Ég vík að 34. brtt. stjórnarliðsins. Það er brtt. við 37. gr. frv. 37. gr. frv. fjallar um að í öllum kaupstöðum og kauptúnahreppum landsins skuli starfa framkvæmdastjórnir verkamannabústaða. Það er gert ráð fyrir að þessar stjórnir séu kosnar að loknum hverjum sveitarstjórnarkosningum í hverju sveitarfélagi. Samkv, brtt. stjórnarliða er búið að bæta við að þetta skuli einnig vera í öðrum sveitarfélögum, en kaupstöðum og kauptúnahreppum, þ. e. í öllum sveitarfélögum. En það er til bóta í brtt. stjórnarliða að þetta á þó ekki að gera nema sveitarstjórnirnar óski. En það á að gera þetta í byrjun hvers kjörtímabils. Ég tel að þetta sé ekki skynsamlegt, það sé réttara að hafa það svo, að sveitarfélögin geti kosið þessar stjórnir hvenær sem er, þegar þau ákveða að taka fyrir verkefni á þessu sviði, og þurfi ekki að binda það við byrjun kjörtímabils.

Þá vil ég víkja að 41. brtt. stjórnarliða. Það er brtt. við 45. gr. frv. Ég vék að þessari grein alveg sérstaklega í umr. fyrr í dag. Samkv. till. okkar sjálfstæðismanna leggjum við til að þrjár mgr. í þessari frvgr. séu felldar niður vegna þess að þær eigi ekki rétt á sér í lögum og ekki sé hægt að binda í lögum þau ákvæði sem þarna er um að ræða. Það sé ekki hægt t. d. að binda í lögum að miðað skuli vera við 1550 stundir árlega síðustu þrjú ár, þegar metin eru skilyrði þess hvort menn eru innan ákveðinna tekjumarka til að geta fengið lán úr Byggingarsjóði verkamanna. Þannig eru allar þessar tölur. Ég nefni bara þessa einu, en það er fullt af slíkum tölum. Þær eru svo fljótandi að þær standa að sjálfsögðu ekki stundinni lengur. Hv. stjórnarliðar sjá þetta og brtt. þeirra eru um að setja inn nýjar tölur í þessu efni. Þetta eru að mínu viti furðuleg vinnubrögð. Það á eftir að sýna sig við framkvæmd laganna. Ég vitnaði nokkrum sinnum í dag í umsögn frá stjórn verkamannabústaða í Reykjavík um þetta frv. Ég ætla ekki að tefja tímann með því að gera það núna. En þeir menn, sem gleggst þekkja til þessara mála, sjá að það er að sjálfsögðu rétt sem við fulltrúar Sjálfstfl. leggjum til í þessu efni.

Nú skal ég ekki víkja að fleiri brtt. hv. stjórnarliða, nema einni eða tveimur. Þá tek ég 45. brtt. Hún er um hvað lán Byggingarsjóðs verkamanna eiga að vera há. Nú hefur það alltaf verið einkenni á Byggingarsjóði verkamanna og er samkv. núgildandi lögum að því er slegið föstu hvað lánið á að vera hátt. Í gildandi lögum er því slegið föstu að lánið eigi að vera 80% af byggingarkostnaði. Þetta er gagnstætt því sem hefur verið í sambandi við lán úr Byggingarsjóði ríkisins. Þar hefur verið sagt að lánið megi nema allt að ákveðinni prósentu. Nú hef ég talið að það mætti ekki koma fyrir að breyta þeirri reglu sem hefur verið í þessum efnum um Byggingarsjóð verkamanna, þar yrði að vera fastákveðið hvað lánið ætti að vera hátt. En hvað sjáum við í 45. brtt. stjórnarliða á þskj. 508? Þar segir að lánið megi vera, eins og það er orðað, allt að 90%. Það er sama orðalagið og á öðrum stað í frv., að lán Byggingarsjóðs ríkisins megi vera allt að 80% . Hvað þýðir það í framkvæmd? Við vitum hvað það þýðir núna. Það er á milli 30 og 40%. En það má vera allt að 80%. Ég spyr nú stjórnarliða hvort eigi nú að fara að leika þann leik að láta standa á pappírnum að lán Byggingarsjóðs verkamanna megi vera allt að 90%, en lána kannske miklu lægra. Ef þetta er ekki meiningin, hvers vegna er þetta orðalag þá tekið upp?

Svo er að lokum ein brtt. þeirra stjórnarliða, þó að freistandi væri að víkja að ýmsu öðru. Ég læt nægja að víkja að einni til viðbótar. Hún er ekki stórkostleg eða þýðingarmikil í sjálfu sér. Hún er um að fyrirsögn frv. breytist, það standi ekki að frv. sé um Húsnæðismálastofnun ríkis, heldur Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég hef í rauninni ekkert á móti þessu, en ég vek athygli á því, að það er lítið samræmi í því að tala um Húsnæðisstofnun ríkisins, en tala um og lögfesta að stjórn Húsnæðisstofnunar skuli heita húsnæðismálastjórn.

En nú langar mig að spyrja spurningar. Ég vildi mjög gjarnan að hæstv. félmrh. væri viðstaddur og sérstök ánægja er mér að hæstv. fjmrh. doki við vegna þess að þetta mál, sem ég ætla að víkja að núna, hygg ég að snerti hann ekki minna en hæstv. félmrh. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh. eftir atvikum varðandi eina brtt. stjórnarliðsins. Það er 31. brtt. þeirra á þskj. 508. Í þessari brtt. segir að ganga skuli til Byggingarsjóðs verkamanna 1% af launaskatti. Mín spurning er þessi: Er þetta eina prósent tekið úr ríkissjóði eða á að skerða tekjur Byggingarsjóðs ríkisins sem þessu nemur? Mér sýnist að þetta sé grundvallarspurning sem við þurfum að fá svar við. En í þessu sambandi langar mig að spyrja frekar og er það varðandi annað frv., þ. e. frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1980. Í þessu frv. stendur á 19. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 20. gr. laga nr. 30/1970, um Húsnæðismálastofnun ríkisins, skal framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs verkamanna á árinu 1980 eigi fara fram úr 432 millj. og 500 þús. kr.“

Ég vil í þessu sambandi geta þess að húsnæðismálastjórn áætlaði að 500 millj. þyrfti til Byggingarsjóðs verkamanna á árinu 1980. Þessar 500 millj. hafa þegar verið skornar niður um 67.5 millj. kr. þess vegna standa hér 432.5 millj. kr. En ég hef hér í höndum upplýsingar í bréfi til Byggingarsjóðs verkamanna frá félmrn., sem er dagsett 7. maí 1980. Þar sjáum við að taka þarf með varúð þessa tölu í 19. gr., 432.5 millj., því þar er sagt að það hafi komið í ljós að Byggingarsjóði verkamanna hafi verið ofborgaðar á árinu 1979 298 millj. Ég skal ekki fara að ræða um hvernig á því stendur, svo furðulegt sem það er. Að mínu áliti getur ekki verið ofborgað vegna þess að ríkissjóður ber þessa skyldu samkv. lögum. Þegar tekið er tillit til þessa er talið að eins og málin standa núna samkv. þessu frv. og upplýsingum félmrn. verði ekki varið nema 134.5 millj. kr. til Byggingarsjóðs verkamanna á þessu ári. Ég vil nú mega spyrja hæstv. ráðh. hvað þessi 19. gr. frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1980 þýðir eins og málin standa, hvort hámark, sem sett er í þessari grein, eigi að gilda þrátt fyrir að það eigi að veifa af 1% launaskattinum til verkamannabústaða á þessu ári? Þetta var um Byggingarsjóð verkamanna.

Ég spurði áðan hvort það eina prósent launaskattsins, sem samkv. till. stjórnarliðsins á að ganga til Byggingarsjóðs verkamanna, ætti að taka af Byggingarsjóði ríkisins. Í því sambandi er rétt að minnast þess, að þegar er búið að skerða fé Byggingarsjóðs ríkisins á árinu 1980 um 3.8 milljarða kr. af launaskattinum. Ég hef viljað ræða sérstaklega þessi mál við hæstv. ráðh., af því að þau varða grundvallaratriði varðandi það frv. sem hér er verið að ræða. Það varðar það, hvort hin auknu verkefni, sem húsbyggingarkerfinu eru fengin í hendur, hafa nokkra þýðingu eða ekki. Ef þau hafa enga þýðingu vegna þess að það kemur ekkert fjármagn til að standa undir þessum auknu þörfum, þá er þetta frv., sem við erum hér að ræða, harla lítils virði.