14.05.1980
Neðri deild: 76. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2666 í B-deild Alþingistíðinda. (2637)

Umræður utan dagskrár

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég skal fúslega verða við beiðni hv. 10. þm. Reykv. og svara spurningu hans um ákvörðun gjaldskrárnefndar og ríkisstj. varðandi gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur.

Ég vil fyrst taka það fram, að því er ekki að leyna að ríkisstj. hefur að sjálfsögðu í huga, þegar hún fjallar um þessi mál öll, að reyna að halda niðri verðlagi eins og frekast er kostur og taka ekki tillit til beiðna um verðlagshækkanir eða hækkanir á þjónustu nema þær séu vel rökstuddar.

Það hefur ekki verið venja að birta forsendur gjaldskrárnefndar. Ég skal gera undantekningu í þessu tilviki og skýra frá því, á hvaða forsendum gjaldskrárnefnd komst að sinni niðurstöðu og gerði sína tillögu, vegna þess að það hefur verið farið ákaft fram á það. Ég hef rætt þetta mál allítarlega við formann gjaldskrárnefndarinnar, og ýmsar þær upplýsingar, sem ég byggi hér á, eru frá honum komnar.

Hitaveita Reykjavíkur er, eins og öllum er kunnugt, gamalt, gróið og gott fyrirtæki sem hefur góða afkomu eins og kunnugt er. Þegar fjallað er um þessi mál gerir gjaldskrárnefnd tillögu til viðkomandi ráðuneytis um verðlag á þeirri þjónustu sem heyrir undir það rn. Í þessu tilviki gerði gjaldskrárnefnd till. til iðnrn. Tilhögunin er þannig: Ef rn. og gjaldskrárnefnd eru sammála gengur hækkunin fram og ríkisstj. blandar sér ekki í málið. Ef aftur á móti er ágreiningur í þessum efnum verður ríkisstj. að skera úr, og svo var í þessu máli. Ég ætla að lesa bréf gjaldskrárnefndarinnar til iðnrn. um þetta mál, en það er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Gjaldskrárnefnd hefur fjallað um erindi stjórnar veitustofnana í Reykjavík, dags. 4. mars s. l., um 58% hækkun gjaldskrár Hitaveitu Reykjavíkur og umsögn rn. yðar, dags. 19. apríl, þar sem mælt er með að heimila 42% hækkun. Verði farið að ósk stjórnar veitustofnana yrðu hækkanir á þessu ári samtals 113% miðað við niðurtalningu það sem eftir er ársins í samræmi við ákvæði stjórnarsamningsins um þau efni. En samkv. till. rn. mundu þær verða rúm 91%.

Beiðnin er studd þeim rökum, að þörf sé á að auka framkvæmdir Hitaveitu Reykjavíkur um 127% að krónutölu í því skyni að koma í veg fyrir vatnsskort í framtíðinni. Við athugun kemur í ljós að staða fyrirtækisins var mjög góð um s. 1. áramót. Hagnaður á síðasta ári varð rúmar 1600 millj. kr. eða um 32% af veltu, og höfðu þá verið afskrifaðar rúmlega 1000 millj. kr. Gjaldskrárnefnd er þeirrar skoðunar, að fyrirtæki, sem er með jafnsterka fjárhagsstöðu og Hitaveita Reykjavíkur, þurfi að færa fram alveg sérstök rök fyrir slíkri stökkhækkun verðlagningar eins og farið er fram á, á sama tíma og ríkisstj. leggur allt kapp á að halda verðbólgunni í skefjum. Gjaldskrárnefnd telur, að þau rök liggi engan veginn fyrir, og bendir í því sambandi m. a. á eftirfarandi:

1. Í tekjuspá, sem umsókninni fylgdi, er selt vatnsmagn áætlað 39.1 millj. tonn á árinu 1980. Þessi áætlaða vatnssala er verulega lægri en vatnssalan reyndist vera á s. l. ári og skýtur skökku við fullyrðingar Hitaveitunnar um aukna vatnsþörf. Tekjur fyrirtækisins af vatnssölu teljast því vanmetnar.

2. Gjaldskrárnefnd telur að verðlagsforsendur þær, sem að baki rekstrar- og framkvæmdaáætlun liggja, séu of rúmar. Áætlaður rekstrar- og framkvæmdakostnaður fyrirtækisins telst því of hár.

3. Veltustaða fyrirtækisins var mjög góð um s. l. áramót og hafði batnað á árinu 1979 um 743 millj. kr. Að mati gjaldskrárnefndar má losa hér verulega fjármuni til framkvæmda, en í fjárhagsáætlun fyrirtækisins er þvert á móti gert ráð fyrir aukningu veltufjármuna.

Ýmislegt fleira mætti tilfæra sem bendir til að hækkunarbeiðni stjórnar veitustofnana sé óeðlilega há.

Í ljósi framanritaðs leggur gjaldskrárnefnd til að Hitaveitu Reykjavíkur verði hinn 1. maí n. k. heimiluð 10% gjaldskrárhækkun vatnssölu og mælaleigu og fallist verði á ósk fyrirtækisins um 58% hækkun heimæðagjalda. Nemur þetta um 12.4% meðalhækkun á gjaldskrá Hitaveitunnar. Nefndin telur að með þessari gjaldskrárhækkun geti fyrirtækið fylgt niðurtalningaráformum ríkisstj. á þessu ári.“

Þetta er bréf eða erindi gjaldskrárnefndar til iðnrn., og þarna eru tilfærð þau rök sem gjaldskrárnefnd færir fyrir sinni tillögugerð. Það er auðvitað ljóst, að það, sem þarna er fyrst og fremst afgerandi, er að Hitaveita Reykjavíkur hefur haft ákaflega góða afkomu, eins og kom fram áður í máli mínu. Það er á þeirri forsendu sem þessi niðurstaða verður, að það sé hvorki skynsamlegt né æskilegt að hækka gjaldskrárnar meira en hér er gert ráð fyrir miðað við þessar niðurstöður.

Hv. þm. óskaði eftir því, að ég svaraði nokkrum spurningum. Ég skal reyna það eftir föngum.

Hann spurðist fyrir um það hvort ríkisstj. væri reiðubúin til að breyta niðurstöðu sinni vegna Hitaveitu Reykjavíkur ef ný gögn kæmu fram og sýndu að rangar forsendur hefðu verið notaðar við þessa ákvarðanatöku. Ég vil svara því, að að sjálfsögðu er ríkisstj. reiðubúin til þess að leiðrétta ákvarðanir sínar ef þær eru byggðar á röngum forsendum, það er alveg ljóst mál. Vitanlega verða menn að vinna þannig að þessum málum sem öðrum að byggja á ákveðnum forsendum. En slíkar forsendur hafa ekki breyst að mati ríkisstj. og gjaldskrárnefndar og þess vegna er ákaflega ólíklegt að það verði gerðar á þessu nokkrar breytingar.

Þá spurðist hv. þm. fyrir um það, hvaða hitaveitur hafi beðið um gjaldskrárhækkanir og hve miklar, aðrar en Hitaveita Reykjavíkur. Ég skal svara því. Hitaveita Seltjarnarness bað um 30% hækkun, Hitaveita Mosfellshrepps um sömu hækkun og Hitaveita Reykjavíkur, Hitaveita Suðurnesja um 9.2%, Hitaveita Þorlákshafnar um 22.5%, Hitaveita Hveragerðis um 40%, Hitaveita Vestmannaeyja um 41.5%, Hitaveita Hvammstanga um 30%, Hitaveita Siglufjarðar um 34%, Hitaveita Ólafsfjarðar um 23.3%, Hitaveita Dalvíkur um 47.2%, Hitaveita Akureyrar um 53%, Hitaveita Reykjahlíðar um 20%, Hitaveita Selfoss um 12% og Hitaveita Orkubús Vestfjarða um 12.5%. Hv. þm. spurðist fyrir um það, hvernig hefði verið brugðist við þessum beiðnum. Þær komu ekki til kasta ríkisstj. vegna þess að það varð samkomulag um þær milli gjaldskrárnefndar og viðkomandi rn.

Nú er það mála sannast, að fjárhagur hitaveitnanna í landinu er ákaflega misjafn. Sérstaklega er hann erfiður hjá þeim hitaveitum sem hafa verið að fjárfesta mikið á allra seinustu árum, og þess vegna eru þessar beiðnir, eins og sést af því sem ég las upp áðan, ákaflega misjafnar og misháar. En gjaldskrárnefnd ákvað að fallast að mestu leyti á umbeðnar hækkunarbeiðnir sem ég gat um hér áður. Þessar beiðnir bárust gjaldskrárnefnd seint og þeim fylgdu almennt ekki nægilega fullkomin gögn, og þess vegna gat nefndin aðeins kannað lauslega fjárhagsstöðu fyrirtækjanna innan þeirra tímamarka sem henni voru sett um tillögugerð. Nefndinni varð þó ljóst af þeim gögnum sem fyrir lágu, að margar hitaveitnanna eiga við fjárhagsörðugleika að etja, og taldi því rétt að þessu sinni að leggja til að þeim yrðu að mestu heimilaðar umbeðnar gjaldskrárhækkanir eins og iðnrn. hafði lagt til. Jafnframt ítrekaði gjaldskrárnefnd fyrri óskir sínar um ítarlegri gögn frá fyrirtækjunum sem yrðu að liggja fyrir áður en frekari gjaldskrárhækkanir yrðu heimilaðar.

Hv. þm. spurði sérstaklega um af hverju heimtaugagjald hefði verið hækkað um 58% hér í Reykjavík. Gjaldskrárnefnd var þeirrar skoðunar, að gjaldskrársamsetning Hitaveitu Reykjavíkur með tilliti til vægis heimæða- og vatnsgjalda orkaði tvímælis um hækkun vegna rétt að verða við beiðni fyrirtækisins um hækkun heimæðagjalda.

Síðan fjallaði hv. þm. um það, hvort forsendur gjaldskrárnefndar yrðu yfirleitt birtar. Það hefur ekki verið venja að gera það. Gjaldskrárnefndin er starfsnefnd sem ríkisstj. setur á fót, eins og kunnugt er. Núv. formaður gjaldskrárnefndar er verðlagsstjórinn, Georg Ólafsson. Ég held að gjaldskrárnefndarmenn hafi unnið sín störf af mikilli kostgæfni. Það er mín skoðun. Sjálfsagt má deila um þeirra störf og þeirra niðurstöður eins og annarra, en í heild held ég að gjaldskrárnefndin hafi unnið sín störf af kostgæfni.

Í þessu sérstaka máli byggði gjaldskrárnefndin mat sitt á gögnum sem Hitaveita Reykjavíkur lagði fram, svo sem ársskýrslu Hitaveitu Reykjavíkur 1979, endurskoðuðum reikningum Hitaveitu Reykjavíkur 1978 og 1.979, fjárhagsáætlun Hitaveitu Reykjavíkur fyrir 1980 og bréflegum rökstuðningi hitaveitustjóra og stjórnar hitaveitustofnana með verðhækkunarbeiðninni. Auk þessara gagna var einnig byggt á upplýsingum Hagstofu Íslands um framvindu verðlagsvísitölu.

Því er ekki að leyna, það er ekkert leyndarmál, að auðvitað hefur hin almenna þróun verðlags áhrif á þessar ráðstafanir, ekki aðeins í þessu tilviki, heldur í mörgum öðrum. Því er ekki að leyna. Og ég get auðvitað tekið undir það sem oft hefur verið um rætt, að það er fáránlegt fyrirkomulag að haga mælingum vísitölu á þann veg, að ef upphitunarkostnaður hækkar í Reykjavík, þá hækka laun um allt land, en ef hann margfaldast úti á landi, þá gerist ekki neitt. Þetta er ekki gott kerfi. Skal ég ekki fara nánar út í vísitöluna, það mætti margt um hana segja. (GS: Af hverju er það ekki lagað?) Já, það er gott að hv. þm. Garðar Sigurðsson greip fram í. Ekki skal standa á mér að stuðla að því að lagfæra vísitöluna. Ég vil halda vísitölu til þess að tryggja kaupmátt launa, en ég tel ákaflega brýnt að það verði gerðar á henni breytingar. Og ég er ekki einn um það, það eru fjöldamargir. Ég held að allir stjórnmálaforingjar á Íslandi s. I. tvo áratugi hafi haldið hrókaræður hér á Alþ. um nauðsyn þess að gera vissar breytingar á vísitölunni. En ég er ánægður yfir því að það kemur hljóð úr þessari átt varðandi það atriði.

Ég hef nú rakið þær röksemdir, sem liggja til grundvallar tillögugerð gjaldskrárnefndarinnar í sambandi við Hitaveitu Reykjavíkur, og vil vekja athygli á því, að aukning veltufjár hjá Hitaveitunni var á síðasta ári 743 millj. kr., sem voru í sjóði um áramótin. Samkv. tillögugerð Hitaveitunnar átti þessi upphæð að hækka upp í 1729 millj. um n. k. áramót, þannig að veltuféð átti að aukast rétt um milljarð.

Ég geri ráð fyrir því, að forráðamenn Hitaveitu Reykjavíkur hafi að ýmsu leyti góðar og gildar ástæður til þess að hækka sína taxta. En það er mikil spurning hvað á að ganga langt í þessum efnum á kostnað almennrar verðlagsþróunar í landinu. Það verður að sjálfsögðu að hafa hliðsjón af því og því kerfi sem við búum við, þegar svona ákvarðanir eru teknar.

Ég vil endurtaka það, að ég álít að gjaldskrárnefnd hafi lagt fram skynsamlegar till. og það hefði verið óráð að hækka þessa gjaldskrá meira eins og sakir standa, þó að ég skilji vel að forráðamenn Hitaveitu Reykjavíkur sem góðir búmenn um árabil vilji búa vel og vilji hafa rúman fjárhag. Ég skil það vel. En það verður að taka tillit til margs fleira þegar verið er að taka ákvarðanir í þessum málum öllum, sem hafa afdrifarík áhrif á framvindu efnahagsmála í landinu. Og það er ekki síst ástæða til þess um þessar mundir að fara með gát í sambandi við hækkanir á verðlagi. Nú standa yfir samningar um kaup og kjör á vinnumarkaðinum í öllu landinu, og það verður áreiðanlega tekið eftir því hvað stjórnvöld gera í sambandi við verðlagsmál. Um þessi mál má deila fram og til baka, það viðurkenni ég. En þær upplýsingar, sem ég hef nú gefið, eru, held ég, þær sem byggt var á í sambandi við rökstuðning gjaldskrárnefndar fyrir tillögugerð um gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur og rökstuðning fyrir samþykki og staðfestingu ríkisstj. á þeim tillögum.