14.05.1980
Neðri deild: 76. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2686 í B-deild Alþingistíðinda. (2666)

8. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Frsm. minni hl. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég fagna því, að hæstv. fjmrh. hefur gengið í salinn. Það er að mínum dómi lágmark að ráðh. séu viðstaddir, sér í lagi þegar verið er að fjalla um ný skattalög eða framlengd skattalög.

Auðvitað varð fjh.- og viðskn. ekki sammála um afgreiðslu þessa máls, og skýringin á því, að ég er aðeins einn sem skila nál., er augljós, þar sem félagar mínir, hv. 3. þm. Reykv., Albert Guðmundsson, og hv. 1. þm. Reykn., Matthías Á. Mathiesen, eru fjarstaddir. En ég hygg og veit raunar að þeir eru mér alveg sammála um afstöðu til þessa máls.

Hv. 3. þm. Austurl. þurfti ekki að taka fram hvaða árgerð þessi skattur var. Það þekkja víst allir þefinn af þessu. Auðvitað var þetta 1979 þegar menn uppgötvuðu flesta nýja skatta til að leggja á þjóðina. (Gripið fram í: 1978.) 1978 byrjuðu þeir, Tómas settist að völdum í sept. 1978, þetta er alveg hárrétt hjá hæstv. fjmrh. Og ég vil aðeins víkja því að honum, ef hann yrði í vanda með skattstofna, hvort hann hefur athugað, hæstv. fjmrh., að skattleggja súrefnið í loftinu. Einhvers staðar heyrði ég því fleygt, að sú hugmynd hefði komið upp í núv. hæstv. ríkisstj., og væri gaman að heyra meira af því. En þrír ráðh. hafa elt hver annan í þessu — það er rétt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði: hæstv. núv. viðskrh., Tómas Árnason, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og núv. hæstv. fjmrh., og við skulum vona að allt sé þegar þrennt er.

Það má greinilega heyra á máli frsm. meiri hl., að þessi skattur er hin mesta ómynd og öll skilgreining á honum, enda sjá þeir nú breytt skattalög og stórhækkaða eignarskatta. Hann á engan rétt á sér. Samt er það svo, að það er haldið áfram þótt þetta sé í alla staði óeðlilegur og óréttlátur skattur. Þeir þora engu að sleppa. Það var að vísu sagt — og var harmur í röddinni þegar hann benti á það — að þetta mætti ekki alveg teljast nettó þar sem þetta kæmi til skattfrádráttar síðar, á síðara ári. Og skilgreiningarnar, sem hann minntist á, þetta er auðvitað hlægilegt, að verslunarhúsnæði skuli teljast olíutankur o. s. frv.

Ég hef ekki mörgu við þetta að bæta, en ég rifja það aðeins enn einu sinni upp, að Sjálfstfl. lýsti því yfir, það var eitt af heilögum kosningaloforðum hans, að afnema hina 18 viðbótarskatta vinstri stjórnarinnar, 2. vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar. Það var ágreiningslaus ákvörðun í Sjálfstfl., þannig að hæstv. forsrh., hæstv. landbrh. og hæstv. dómsmrh. hafa lýst því yfir fyrir alþjóð og fengið kosningu út á það að fella m. a. þennan skatt niður. Reynir enn á það, hvernig menn standa við orð sín og gerðir.

Ég hef ekkert um brtt. að segja, ég skipti mér ekkert af þeim, því að ég legg til að þetta frv. verði fellt.