17.05.1980
Sameinað þing: 60. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2778 í B-deild Alþingistíðinda. (2745)

231. mál, utanríkismál 1980

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að þakka hæstv. utanrrh. skýrslu hans um utanríkismál, sem hann nú hefur gert grein fyrir. Ég fagna því raunsæja mati á þróun heimsmálanna sem fram kemur í skýrslu ráðh. Þar er réttilega lögð höfuðáhersla á nauðsyn samstöðu Atlantshafsbandalagsríkjanna og mikilvægi Íslands í þeirri mynd. Ég hlýt sérstaklega að ítreka og undirstrika þau orð í skýrslu hæstv. utanrrh., sem fram koma á bls. 13 í IV, kafla undir yfirskriftinni: Atlantshafsbandalagið og öryggismál Íslands, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Atlantshafsbandalagið eru samtök þjóða með svipaða menningu og lífsskoðanir. Þær hafa komið sér upp varnarkeðju til að tryggja sig fyrir utanaðkomandi árás og í því skyni leggja þær allar eitthvað af mörkum. Framlag okkar Íslendinga hefur aðallega verið og er aðstaðan á Keflavíkurflugvelli. Óslitin varnarkeðja var öruggasta leiðin til að tryggja að aldrei þurfi að grípa til vopna. Ef við Íslendingar skerumst úr leik höfum við veikt þessa keðju og þar með dregið úr öryggi allra þeirra þjóða, sem setja traust sitt á bandalagið, einnig okkar sjálfra.“

Og enn fremur segir:

„Hlutverk þess varnarbandalags, sem við erum aðilar að, og þess hlekks, sem við erum í keðjunni, er að sjá til þess með traustum vörnum að ekki komi til styrjaldar, og jafnframt er það hlutverk þessa bandalags og hlutverk, sem ég legg mikla áherslu á, að vinna að afvopnun, sem framkvæma verður stig af stigi með vönduðum samningum og raunhæfu eftirliti, sem tryggi heiðarlega og undanbragðalausa framkvæmd slíkra samninga. Undir árangri í þessum málum er það komið, hversu fljótt aðstæður í heiminum verða þannig, að unnt reynist að láta varnarliðið fara frá Íslandi.“

Ég hef greint sérstaklega frá þessum tilvitnuðu köflum í skýrslu utanrrh. vegna þess að ég tel að þeir gefi ljósan vitnisburð um þá samstöðu sem ríkir með yfirgnæfandi meiri hl. þings og yfirgnæfandi meiri hl. þjóðarinnar í varnar- og öryggismálum. Að vísu hefur það komið fram, bæði af hálfu hæstv. utanrrh. og af hálfu formælenda Alþb., að þessi skýrsla um utanríkismál og þær skoðanir, sem í henni felast, sé skýrsla utanrrh. persónulega, að vísu í embættisnafni, og greini ekki frá stefnu allra stjórnarflokkanna. Þetta er dæmi um hve ósamstæð ríkisstj. er, þetta er dæmi um hve óstarfhæf núv. ríkisstj. er, því að hún getur ekki sameinast í jafnmikilvægum málaflokki og meðferð og stefnumótun í utanríkismálum, öryggis- og varnarmálum landsins, í sjálfstæðismálum Íslands.

Það verður þó að segjast, að Alþb. hefur ákveðið með setu sinni í ríkisstj. að halda ekki fram stefnu sinni í utanríkismálum, öryggis- og varnarmálum landsins. Þótt Alþb. sé endrum og sinnum að hafa á orði að það sé andstæðingur varnarsamningsins við Bandaríkin og andstæðingur þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu er því það þó ekki í bili meira hjartans mál en svo, að það vill heldur verma ráðherrastólana en að fylgja eftir þessari sannfæringu sinni.

Það verður og að hafa sérstaklega orð á því í þessu sambandi að það er fagnaðarefni hve hæstv. utanrrh. tekur af skarið í þessum málum, þegar stefnuleysi og reikul stefnumótun framsóknarmanna í utanríkis- og varnarmálum er höfð í huga. Eins og kunnugt er hafa framsóknarmenn oft og tíðum ekki vitað í hvorn fótinn þeir ættu að stíga þegar um stefnumótun í utanríkismálum hefur verið að ræða. Þeir hafa stundum talað um að það væri nauðsynlegt að flytja varnarliðið af landi brott í áföngum, en nú tekur hæstv. utanrrh. af skarið og segir að varnarliðið fari ekki af landi brott fyrr en sá árangur hafi náðst í afvopnunarmálum að óhætt sé að láta varnarliðið fara af landi brott. Ég er hæstv. utanrrh. alveg sammála að þessu leyti og fagna yfirlýsingu hans, sem ég skoða sem yfirlýsingu Framsfl. og staðfestingu á því, að Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. eru sammála og einhuga um þá stefnu sem nú er ráðandi í öryggis- og varnarmálum landsins, þ. e. að efla og styrkja þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu og framkvæma varnarsamninginn við Bandaríkin í samræmi við öryggishagsmuni landsins meðan svo stendur á í utanríkismálum sem nú er.

Það verður ekki litið fram hjá því að Ísland tengist inn í þróun alþjóðamála með margvíslegum hætti, en nefna má sérstaklega þrjú höfuðatriði:

Í fyrsta lagi eru það varnir Atlantshafssvæðisins, sem eru auðvitað lykillinn að vörnum og öryggi Íslands. Til þess að varnir Atlantshafssvæðisins séu traustar er nauðsynlegt að halda uppi eftirliti með umferð í lofti og á legi og til þess er enginn staður ákjósanlegri en Ísland. Þessi starfsemi er einnig nauðsynleg vegna hagsmuna Íslands sjálfs. Það er skylda landsins sem sjálfstæðs ríkis að vita hverjir fara um næsta nágrenni þess og hvað er að gerast í næsta nágrenni þess og hafa nokkuð tök á því að stemma stigu við þróun mála sem gætu skert yfirráðarétt þjóðarinnar á landi sínu. Komi til átaka er alveg ljóst að aðstaða á Íslandi skiptir sköpum fyrir þann sem vill ráða yfir Atlantshafi, og það munu auðvitað stríðsaðilar vilja gera ef svo hörmulega tækist til að til styrjaldar drægi.

Annar þátturinn, sem ég vildi nefna í sambandi við öryggismál Íslands, er hið norræna jafnvægi, sem byggist á þeirri stefnu sem Norðurlöndin hafa mótað hvert um sig og myndar í raun eina heild sem skapað hefur stöðugleika í þessum heimshluta. Það er að vísu svo, sem öllum er kunnugt, að Norðurlöndin hafa með mismunandi hætti séð sér farborða í öryggis- og utanríkismálum. Skapast sá mismunur ekki síst af mismunandi landfræðilegri stöðu hvers Norðurlandanna fyrir sig.

Ég skal ekki rekja með hvaða hætti hvert Norðurlandanna hefur talið sér best borgið að tryggja öryggi sitt. Það er okkur öllum kunnugt, en ég vil fullyrða að verði breyting á öryggis- og utanríkisstefnu Íslands yrði það til þess að veikja öryggi annarra Norðurlanda. Það yrði ekki eingöngu til þess fallið að veikja öryggi Íslands, sem við hugsum auðvitað fyrst og fremst um eins og skylda okkar bíður, heldur mundi breyting á stefnu okkar í öryggis- og varnarmálum verða til þess að veikja öryggi annarra Norðurlandaþjóða, hvort heldur það eru Finnar, Svíar, Norðmenn, Danir, Færeyingar eða Grænlendingar.

Þriðji þátturinn sem ég vildi nefna er, að hvort sem okkur líkar betur eða verr eru samskipti stórveldanna í austri og vestri með þeim hætti að það er eins og í raun sé ógnarjafnvægið eins og á stendur trygging, og að vissu leyti veik trygging, fyrir því að ekki dragi til átaka. Í þeim efnum skiptir Ísland höfuðmáli sökum legu sinnar á því hafsvæði sem hefur mikið hernaðarlegt gildi.

Ég er sammála hæstv. utanrrh. um að við Íslendingar eigum að leggja lóð okkar á þá vogarskál að unnt sé að endurvekja slökunarstefnuna svo að friðvænlegra megi verða í heiminum. Það voru miklar vonir bundnar við Helsinki-sáttmálann. Því miður hafa þær vonir ekki ræst. Við þær háleitu yfirlýsingar, sem ríkin undirrituðu þá, hefur ekki verið staðið. Mætti því miður nefna mörg dæmi þess, hvernig Sovétríkin hafa svikið þau fyrirheit og þær skuldbindingar sem þau undirgengust ásamt öðrum ríkjum með þeim sáttmála, en ég læt hér og nú nægja að nefna innrásina í Afganistan sem hefur einkum og sér í lagi breytt heimsmyndinni í snöggri svipan meira en flestir aðrir nýlegir atburðir. Af öllum þessum ástæðum er ljóst að það er skylda okkar að treysta þá stefnu í öryggis- og varnarmálum sem við Íslendingar höfum fylgt nú um áratugaskeið eða allt frá því að við gerðumst stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu.

Það hefur borið á því núna undanfarið, og ekki síst í sambandi við að 30 ár eru liðin frá því að Bretar settu her á land hér á Íslandi í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar, að svokallaðir herstöðvaandstæðingar hafa með fundahöldum og ræðuhöldum gefið í skyn að hér á Íslandi væru geymd kjarnorkuvopn, og Alþb. hefur gert þá herferð að hluta til að sinni og með þeim hætti gert tilraun til að fá syndaaflausn fyrir aðgerðaleysi í framkvæmd þeirrar utanríkisstefnu sem það þykist hafa. Ég vil í þessu sambandi ítreka og leggja áherslu á að það liggur fyrir að fullt samkomulag er milli Íslands og Bandaríkjanna og áskilnaður af hendi íslenskra stjórnvalda að hér skuli ekki geymd kjarnorkuvopn. Það er engin ástæða til að draga í efa að það samkomulag eða skilyrði af Íslands hálfu sé haldið.

Í ræðu, sem Kosygin flutti þegar ég sem forsrh. var í heimsókn í Sovétríkjunum 1977, lét hann þess sérstaklega getið, að það væri til fyrirmyndar í utanríkisstefnu Íslands að hér væru ekki geymd kjarnorkuvopn. (StJ: Og ræðumaður trúði honum.) Ég ætlast til að Stefán Jónsson trúi honum, af því að hann hefur gjarnan haft Kosygin að átrúnaðargoði. Ég vitna einkum í Kosygin til að leiða hv. þm. Stefáni Jónssyni fyrir sjónir að það sé ástæðulaust að halda að skilyrði Íslendinga að þessu leyti sé ekki haldið. (Gripið fram í.) Og ég hugsa að Kosygin hafi allgóðar upplýsingar um viðbúnað hér á landi. En ef Stefán Jónsson gæti upplýst mig um hvernig fréttaleið Kosygins er held ég að það væri mjög fróðlegt. (StJ: Ég skal upplýsa það á eftir.) Ég vil líka vitna í annan merkan stjórnmálamann, sem nýverið lýsti því yfir á þingi Norðurlandaráðs að á Norðurlöndum væru engin kjarnorkuvopn, en það var Olof Palme.

Það er furðulegt að herstöðvaandstæðingar hafi áhuga á því að gera því skóna að vekja upp grunsemdir um að hér skuli geymd kjarnorkuvopn, um leið og þeir segja að það sé til þess fallið að Ísland yrði fyrir árás ef styrjöld brytist út. Það eru ekki skemmtileg vinnubrögð, síður en svo. Með slíkum áróðri eru þeir einmitt að skapa þá hættu sem þeir sjálfir segja sér ljósa. Þótt fram hafi komið í tímaritum erlendis, að hér séu flugvélar sem geti flutt kjarnorkuvopn, er það allt annað en að hér séu geymd kjarnorkuvopn. Og það er ekki vænlegt í umræðum um öryggis- og varnarmál að byggja þær á slíkum hugarburði sem hugleiðingar manna eða getsakir um kjarnorkuvopn á Íslandi eru.

Því miður hafa síðustu atburðir orðið til þess að menn leiða nú getum að því og líkja þróuninni við upphaf fyrri heimsstyrjaldarinnar 1914, þegar menn leiddust stig af stigi til átaka sem enginn vildi í raun. Hættan er vissulega fyrir hendi og okkur ber skylda til, þótt smáþjóð séum, að leggja allt af mörkum til að koma í veg fyrir að til átaka komi. Og þá hljótum við að læra af reynslunni, þróuninni sem leiddi til þess að seinni heimsstyrjöldin braust út 1939, en sennilega hefði verið hægt að koma í veg fyrir þá heimsstyrjöld hefðu lýðræðisríkin verið á verði og haft viðbúnað, því miður nauðsynlegan vígbúnað til að sýna árásar- og einræðisríkjum að það þýddi ekki að efna til heimsátaka til að ná fram áformum sínum.

Ég skal ekki, herra forseti, ræða Jan Mayen málið, við ræddum það í gær. Utanrmn. hefur fjallað um það á fundi sínum í morgun og mun væntanlega skila áliti strax eftir helgi. Seinni hluti umr. um þáltill. um samkomulag milli Íslands og Noregs um landgrunnsréttindi og fiskveiðiréttindi fer þá og fram.

En ég vil leyfa mér að drepa á einn þátt í skýrslu um utanríkismál og það eru utanríkisviðskiptin og þá einkum olíuviðskiptin. Ég rifja það upp, að í febrúarmánuði 1979 beindi ég þeirri áskorun til þáv. hæstv. viðskrh. og hæstv. ríkisstj. að taka olíuviðskiptin til gagngerðrar endurskoðunar, ekki síst með það fyrir augum að ná hagkvæmari olíuinnkaupum þannig að þau væru ekki bundin við markaðsverð eins og það væri skráð hverju sinni á Rotterdammarkaði. Þrátt fyrir góðar undirtektir í byrjun höfðust þáv. hæstv. viðskrh. og hæstv, ríkisstj. lítið að í þeim efnum. Ég skrifaði því fyrir hönd Sjálfstfl. ríkisstj. bréf í júnímánuði á s. l. ári og gerði það að tillögu minni að skipuð yrði olíuviðskiptanefnd, sem skipuð væri fulltrúum allra stjórnmálaflokkanna, er leitaðist við að ná betri samningum um olíuinnkaup en verið hafði í gildi þá um nokkurt skeið. Hæstv. þáv. ríkisstj. tók þessari málaleitun okkar sjálfstæðismanna mjög vel og skipaði þessa olíuviðskiptanefnd. Og hún hefur síðan starfað með töluverðum árangri. Minni ég á að nýverið hefur verið gengið frá samningum við Breta um kaup á gasolíu er mun nema tæpum helmingi af ársþörf okkar fyrir gasolíu og er það út af fyrir sig vel. En ég tel að áfram þurfi að halda til að tryggja viðskiptasambönd okkar og sem hagkvæmust olíuinnkaup og dreifa þeim einnig til fleiri landa, þannig að við eigum í fleiri hús að venda hvað olíuinnkaup snertir.

Ég vil gjarnan beina þeirri fsp. til hæstv. utanrrh. eða hæstv. viðskrh., hvaða fyrirætlanir séu uppi um áframhaldandi starf olíuviðskiptanefndar og hvaða útlit sé fyrir möguleikum okkar á t. d. olíuinnkaupum í Noregi og Saudi-Arabíu. Í blöðum hefur komið fram, að það væri nauðsynleg forsenda fyrir olíuviðskiptum við Saudi-Arabíu að koma á stjórnmálasambandi við það land. Ég fæ reyndar ekki skilið að það sé nauðsynleg forsenda fyrir viðskiptum að stjórnmálasambandi sé komið á, en tel hins vegar heldur ekkert í vegi fyrir því að leitast við að koma slíku stjórnmálasambandi á ef það skyldi verða til að bæta möguleikann á því að hefja olíuviðskipti við Saudi-Arabíu. Mér hefur skilist, og hæstv. utanrrh. leiðréttir mig, ef það er ekki rétt, að þegar hafi verið gerðar ráðstafanir að þessu leyti. — Ég vil leggja áherslu á að olíuviðskiptanefndin haldi áfram störfum sínum, sem hingað til hafa gefið svo góða raun sem reynslan sýnir.

Ég skal svo stytta mál mitt. En raunar, áður en ég vík frá olíuviðskiptum, þykir mér rétt að spyrja frekar um það sem segir á bls. 20 í skýrslu um utanríkismál, sem er, með leyfi hæstv. forseta, svo hljóðandi:

„Snemma á árinu 1980 var skipuð nefnd á vegum viðskrn. til að kanna málefni Alþjóðaorkustofnunarinnar, sem er sjálfstæð stofnun innan vébanda Efnahags- og framfarastofnunarinnar, og var efnt til könnunarviðræðna við forráðamenn stofnunarinnar í París í febrúarlok. Unnið er að skýrslugerð í málinu.“

Fyrirspurn mín er varðandi það, hver stefna ríkisstj. sé um aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni og hvenær vænta megi ákvörðunar í þeim efnum.

Herra forseti. Ég vil svo taka undir lokaorð í skýrslu um utanríkismál, þar sem það er sagt vera sanngjarnra manna dómur að vel megi við una árangur af starfi íslenskrar utanríkisþjónustu um 40 ára skeið. Ég tel að starfsmenn utanríkisþjónustunnar hafi um 40 ára skeið verið landi okkar bæði til gagns og sóma.