19.05.1980
Sameinað þing: 61. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2835 í B-deild Alþingistíðinda. (2803)

200. mál, samkomulag milli Íslands og Noregs um fiskveiði- og landgrunnsmál

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég þakka hv. utanrmn. fyrir afgreiðslu hennar á málinu. Hún hefur afgreitt það fljótt og meiri hl. með því að leggja til að samkomulagið verði samþykkt. Ég tel mjög mikilvægt að þetta mál nái nú fram að ganga og það tefjist ekki. Þess vegna vil ég ekki vekja neinar deilur um það, þó að orð hafi fallið sem gætu gefið tilefni til þess.

Hér er um að ræða anga af landhelgismáli. Við Íslendingar höfum unnið mikla sigra í landhelgismálum. Af því er mikil saga. Það hefur verið okkur styrkur í öllum þeim átökum, að það hefur myndast samstaða: samstaða á Alþingi, samstaða meðal þjóðarinnar. Við hefðum ekki náð þeim árangri sem við höfum náð ef svo hefði ekki verið. Þess vegna er það að mínum dómi þrátt fyrir allt mjög mikilvægt að sem víðtækust samstaða verði hér á Alþingi um afgreiðslu þessa máls, þó að það liggi fyrir að einn nm. í utanrmn. hefur skilað sérstöku áliti þar sem hann mælir gegn samþykkt þessa samkomulags.

Enn þá sér ekki fyrir endann á landhelgismálum Íslendinga og eru fram undan vandasöm mál á því sviði. Það er von mín, að í því geti áfram haldist að Íslendingar, bæði þing og þjóð, standi sem mest saman, en fari ekki að pexa um aukaatriði. Ég held að það væri kominn tími til að Alþingi gerði ályktun um það, að samin skyldi á hlutlægan hátt saga landhelgismála Íslendinga. Það er mín bjargföst sannfæring, að enginn verði stór af því að ætla að eigna sér þar eitthvað sérstaklega. Við höfum sem betur fer allir staðið saman í þessari miklu baráttu.

Þetta vildi ég segja og hvetja enn til samstöðu um afgreiðslu þessa máls.

Vegna viðhorfa, sem komið hafa fram hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, bæði í nál. og ræðuhöldum hér á þinginu, verð ég til öryggis að taka það fram, að ég mótmæli í einu og öllu túlkun hans. Ég ætla ekki að fara að tefja tímann á því að fara að rekja það eða fara nánar út í það, en ég geri þetta til öryggis vegna þess að túlkun hans og sjónarmið gætu orðið skaðleg vopn í hendi andstæðings ef til kæmi.