19.05.1980
Neðri deild: 80. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2865 í B-deild Alþingistíðinda. (2873)

184. mál, Iðnrekstrarsjóður

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það er full ástæða til að taka undir þau orð sem hafa fallið hér í kvöld um störf þingsins. Hér á sér nú stað hráskinnaleikur sem er þessu hv. þingi bæði til skammar og vansæmdar. Ég held að það sé orðið mjög brýnt að þm. fái að vita hvernig á að halda hér uppi þingstörfum næstu daga, að þeir fái að vita hvort það sé ætlun ríkisstj. að ljúka þingi á morgun. Það kom fram hjá allmörgum þm. í kvöld, í þeim eldhúsdagsumræðum sem hér fóru fram á þingi, að þeir hefðu ríkisstj. grunaða um að vilja senda þingið heim til þess eins að geta sett brbl. vegna þeirra atburða sem munu gerast 1. júní n. k. Það er ljóst að sú hækkun, sem hefur orðið á verðbótaþætti og verður á verðbótaþætti launa, fer talsvert upp fyrir það sem ríkisstj. telur æskilegt, og okkur býður í grun að ætlunin sé að senda þingið heim til að geta sett brbl. Slík framkoma er auðvitað gersamlega óþolandi og nær ekki nokkurri átt. Auk þess er reynt að ýta í gegnum þingið stórum málabálkum sem þurfa mikla yfirlegu og mikla athugun til þess að það sé sómi að því fyrir þingið að afgreiða þá.

Mér hefur fundist að stjórn á þinghaldi nú síðustu daga og vikur hafi verið með slíkum eindæmum að ég hef ekki kynnst öðru eins. Ég held að þm. eigi kröfu á því nú á þessari stundu að fá að vita það frá hæstv. ríkisstj., hvernig hún hyggst halda þessu þinghaldi áfram. Það er gersamlega óþolandi að sitja hér undir málþófi, vitandi ekki hvernig þinghald verður. Það er verið að vanvirða þm. og það er verið að vanvirða þessa stofnun. Við eigum kröfu á því og við eigum rétt til þess að fá að vita hvernig störfum þingsins verður háttað á næstunni. Þetta geri ég að minni kröfu, og ég er sannfærður um að helftin af þm. hér gerir það að sinni kröfu líka.

Það er t. d. eftirtektarvert, að nú situr í sal Nd. einn ráðh., hæstv. iðnrh. Það er vegna þess að á dagskrá fundar er mál sem hann snertir. Aðrir ráðh. eru ekki sjáanlegir. Eru þeir að skjóta sér undan ábyrgð? Vilja þeir ekki hlusta á þá gagnrýni sem hér kemur fram? Hvað eru þeir að gera?

Ég tel að það furðulega verkhætti að ákveða þinglausnir eins og gert var, án þess raunverulega að sjá fyrir endann á afgreiðslu þeirra mála sem hæstv. ríkisstj. setti á oddinn að yrðu afgreidd á þinginu. Það er ekki nokkur leið að þau mál verði afgreidd með eðlilegum hætti, þau 37 eða 38 mál, ef þingið á að fara heim á morgun. Og ef einhverjir þm. sjá eftir þeim tíma, sem í það fer að vinna af vandvirkni að þeim málum sem eftir er að afgreiða, þá er það mín skoðun, að slíkir þm. eigi ekkert erindi hingað.

Herra forseti. Ég endurtek þá kröfu mína, og ég vænti þess, að það séu fleiri þm. sem það gera, að þm. fái að vita hvernig þingstörfum eigi að hátta og að menn sitji ekki hér rorrandi yfir málum og lengi starfstíma þingsins með upplestri úr bókum og ritlingum vegna þess að ríkisstj. getur ekki stjórnað þinghaldinu sjálfu. Hvernig í ósköpunum á sú ríkisstj. að stjórna heilli þjóð sem getur ekki stjórnað 60 manna hópi? Þetta hlýtur að vera krafa, herra forseti, þingmanna hér í kvöld og nú, að þeir fái að vita hvort þeir verði sendir heim á morgun eða hvort hér eigi að afgreiða mál með eðlilegum hætti. (Forseti: Sem forseti hér nú mun ég koma þessari kröfu til réttra aðila.)