20.05.1980
Neðri deild: 81. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2935 í B-deild Alþingistíðinda. (2905)

Umræður utan dagskrár

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Það er varðandi spurningu hv. 1. þm. Reykv. um verðbótaþátt vaxta sem ég vildi segja örfá orð.

Í lögunum um stjórn efnahagsmála o. fl., sem samþykkt voru hér á Alþ. í fyrra, er sérstakur kafli sem fjallar um peninga- og lánamál. Við þennan kafla laganna eru ákvæði til bráðabirgða sem hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vaxtaákvarðanir á árunum 1979 og 1980 skulu við það miðaðar, að fyrir árslok 1980 verði í áföngum komið á verðtryggingu sparifjár og inn- og útlána, sbr. VII. kafla þessara laga um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.“

Seðlabankinn er nú að fjalla um þessi mál, og ég á von á því, sennilega á næstu dögum, að fá tillögur Seðlabankans um vaxtamálin og verðbótaþáttinn sérstaklega. Þegar þær hafa borist mun ég taka málið upp í ríkisstj. og það verður rætt þar og ákvarðanir teknar um framhaldið. Ég vil aðeins leggja áherslu á það í sambandi við þetta atriði, að engin lög hafa verið brotin í þessum efnum. Ekki er kveðið á um það í lögunum að það séu sérstakir áfangar með dagsetningum, þannig að framkvæmdin er fyllilega í samræmi við lög þó að tekin hafi verið ákvörðun 1. mars um að fresta þá hækkun verðbóta. Seðlabankinn hafði áreiðanlega ekki samþykkt það nema það hefði verið löglegt og að sjálfsögðu ekki ríkisstj. heldur, þannig að spurningin er um framkvæmd á þessu. Á meðan þessi lög eru lög í landinu verður farið eftir þeim, en lögum má auðvitað breyta ef Alþ. tekur um það ákvarðanir.