21.05.1980
Efri deild: 99. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2951 í B-deild Alþingistíðinda. (2922)

6. mál, tímabundið vörugjald

Viðskrh. (Tómas Arnason):

Herra forseti. Ég tók eftir því, að hv. þm. Lárus Jónsson talaði um skattaflóðið. Það er nú ýmsum gögnum útbýtt hér til þm. M. a. var ég að glugga í skýrslu frá OECD um það, hvað skattar væru háir í ýmsum ríkjum. Og ég held að það sé ekkert að því, að þær staðreyndir, sem þar er verið að rekja, komist inn í þingtíðindi. (Gripið fram í: Kominn í málþóf líka.) Ja, ég hef nógan tíma, ég sé enga ástæðu til þess að vera neitt að spara hér tíma. Við höfum allt sumarið fyrir okkur, þannig að ég sé enga ástæðu til þess. Ég hef ekki tekið mikinn tíma frá deildinni í vetur. En af því að það var minnst hér á skattaflóð, þá langar mig til að fara yfir þær staðreyndir sem hér er talað um, þ. e. ríkisskatta miðað við þjóðarframleiðslu hjá hinum einstöku ríkjum. Þetta er miðað við árið 1977–1978, þannig að þessar tölur hafa yfirleitt sáralítið breyst hjá öðrum þjóðum. En þær hafa breyst dálítið hjá okkur og skal ég gera grein fyrir því.

Í Ástralíu eru skattar til ríkisins 29,9% af þjóðartekjum, í Austurríki 39,8%, í Belgíu 45.1%, í Kanada 37.8%, í Danmörku 42.8%, í Finnlandi 35.9%, í Frakklandi 42.1%, í Þýskalandi 41.3%, í Grikklandi 30%, á Íslandi 25%, stendur hér 1977 — það mun vera 28.1% núna samkv, fjárlögunum, á Írlandi 41,5%, á Ítalíu 42.5%, í Japan 23%, — það er eina landið sem er lægra, í Lúxemburg 45,2%, í Hollandi 53,1%, í Noregi 47.6%, í Portúgal 31.1%, á Spáni 23.9% — þeir eru lægri en við, það er annað landið, í Svíþjóð 57.1%, í Sviss 30.4%, í Tyrklandi 18% - þeir eru líka lægri, það er þriðja landið, í Bretlandi 40.5% og í Bandaríkjunum 32.1%.

Þetta vildi ég aðeins gera í tilefni af þeim orðum hv. þm. þegar hann talaði um skattaflóð, og bera þetta saman við önnur lönd. Það er hollt fyrir menn að gera það öðru hverju. Hins vegar eru menn ekkert ánægðir með að greiða háa skatta. Það er allt annað mál. En það er ástæða til þess fyrir okkur að gera okkur grein fyrir því, hvar við erum á vegi staddir í þessum efnum.