22.05.1980
Efri deild: 102. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3097 í B-deild Alþingistíðinda. (3067)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Raunar get ég ekki láð hv. þm. Eiði Guðnasyni þó að hann vildi minnast aðeins á utanríkismálin, áður en þingi yrði slitið, í beinum tengslum við skýrslu utanrrh. sem flutt var í Sþ. og gafst ekki býsna mikill tími til að ræða þar. Ég var einnig þeirrar skoðunar að þá skýrslu hefði orðið að ræða miklu fyrr og gefa okkur betri tíma til að ræða hana. En ég hafði ekki búist við því, að hv. þm. Eiður Guðnason mundi gefa okkur tækifæri til þess með utandagskrárumr. hér í hv. Ed. að fara að ræða þessa skýrslu utanrrh. Vitaskuld höfum við engan tíma til þess samkv. yfirlýsingu forseta og ég mun því verða við beiðni hans um að lengja ekki mál mitt hér mjög, aðeins fagna yfirlýsingum Eiðs um að hann muni í einlægni og af einurð gera ráðstafanir til þess að okkur auðnist nú að ganga úr skugga um hvort geymd eru kjarnorkuvopn á Keflavíkurflugvelli eða hvort farið er með þau í flugvélum um völlinn þannig að brot geti talist á samkomulagi íslenskra yfirvalda við Bandaríkjamenn um afnotin af herstöðinni á Keflavíkurflugvelli.

Það var karlmannlega gert af hv. þm. Eiði Guðnasyni að bjóða Íslendingum út á völlinn að leita að kjarnorkusprengjum, sérstaklega með tilliti til þess, að það hefur verið skotið lítils háttar á þá þegar þeir hafa verið þarna á Miðnesheiðinni að leita að kríueggjum. Og blaður af þessu tagi eins og hjá hv. þm. og tilraunir hans til að rýra undantekningarlaust álit þeirra óháðra stofnana í heiminum sem um hermál fjalla eða halda uppi gagnrýni á ríkisstj. Bandaríkjanna og sérstaklega hermálaráðuneytið í Pentagon eftir þau óhugnanlegu ævintýri á sviði hermála sem þessir aðilar hafa staðið fyrir á árunum eftir stríð, þær tilraunir hans eru e. t. v. eins og við er að búast af Alþfl.-manni, fulltrúa þess flokks sem tengdastur hefur verið hersetubraskinu á landi hér frá upphafi, eiðsvarnastur í hópi bandarískra leppa á landi hér.

Svardagar íslenskra utanrrh., eins, tveggja eða þriggja, frá upphafi í málum eins og þessu eiga trúnað sinn í rótunum sem liggja til hinna fyrstu svardaga íslensks utanrrh. og þeirra, sem á eftir komu, um að aldrei kæmi til þess að leyfð yrði erlend herseta á Íslandi á friðartímum þrátt fyrir inngönguna í NATO. Ég geri ráð fyrir að hæstv. núv, utanrrh. Íslands muni þá harla vel. Hann sat að vísu ekki á þingi þá, en hann hlýtur að muna harla vel þessa svardaga. Þá eiða heyrðum við báðir tveir unna þá, þar sem við áttum sæti í miðstjórn Framsfl. saman.

Ég vil minna á að til eru fleiri plögg um eðli herstöðvarinnar á Miðnesheiði en þau sem kennd eru við fyrrnefnda 15 manna stofnun í Washington. Ég hef fyrir framan mig t. d. blátt plagg sem heitir: North-Atlantie Assembly. Draft on the activities of committee of the northern region. Presented by mr. John C. Curver, United States, and mr. Jón G. Sólnes, Iceland. — Þetta er skýrsla hermálanefndar Þingmannasambands Atlantshafsbandalagsins sem þeir kratarnir sækja af trú og dyggð.

Það liggja hér fyrir okkur í vandaðri íslenskri þýðingu ályktanir Þingmannasamtaka Norður-Atlantshafsbandalagsins frá því í haust — ályktanir sem þessir þm. hafa greitt atkv., samþ. eins og aðrir. Það var einmitt á ráðstefnuna, þar sem þessar ályktanir voru samþykktar, sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson fór á kostnað Alþingis í október í haust leið, — þess kostnaðar Alþingis sem hann sór síðan fyrir vestur á fjörðum að nokkurn tíma hefði verið greiddur.

Hér stendur í fyrstu tillögunni, það er till. nr. 70, um Evrópu-kjarnavopn, orðrétt, með aðild þeirra Alþfl. mannanna og Sjálfstæðismannanna:

„Þingmannasamtökin leggja trúnað á kjarnorkuvopn Bandaríkjamanna og skuldbindingar þeirra um varnir Evrópu.“ — Þeir leggja trúnað á margt.

Ég veit ekki hvernig þetta hefur verið á enskunni, en með slíkum hætti eru þessar ályktanir þeirra félaga þýddar gegnumgangandi, og hygg ég að þetta sé ekki öllu óvandaðri þýðing en sú þýðing sem hv. þm. Eiður Guðnason vitnaði í áðan.

Ég hef ekki haft fyrir því, ég hef ekki mátt vera að því, að veita skýrslu hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins jafnnákvæma yfirferð í þýðingu og verðugt væri. En vegna þess að vikið var að ummælum sem hv. þm. Geir Hallgrímsson viðhafði hér við umr. í Sþ. um utanríkismálin, vegna þess að Eiður Guðnason vitnaði í þessi ummæli hv. þm. Geirs Hallgrímssonar, langar mig að lesa nokkuð upp. Ég veit ekki hvað við eigum að titla erlenda forsrh. Hver er etikettan, hæstv. utanrrh.? Eigum við að kalla forsrh. erlenda ríkja hæstv.? Líklega ekki. Við getum látið duga að kalla Kosygin bara forsrh. Sovétríkjanna. Í 104. mgr. í þessari skýrslu hermálanefndarinnar, sem unnin er af sérstökum fulltrúa Sjálfstfl., og við skulum ætla að það megi jafnvel kalla hann kjarnorkuvopnafræðing, Jóni G. Sólnes, sem þeir sérstakir fulltrúar Alþfl. hafa þá væntanlega trúnað á eins og á kjarnorkuvopnunum, eins og segir í skýrslunni, segir:

„It is also worth noting that in this respect, in the speech delivered in the honour of Iceland's prime minister visiting the Soviet Union in september of last year, the Soviet prime minister“ — það er upplýst að hér er átt við Kosygin — „praised the fact that the Icelanders do not permit nuclear weapons to be stationed in the country.“

En í þessari sömu skýrslu er gefin upp heimildin fyrir því, að hér séu ekki kjarnorkuvopn. Neðst á þessari sömu bls., bls. 22, segir að heimildarmaðurinn sé Björn Bjarnason, „special assistant to the prime minister“ og sérstakur fylgdarmaður Geirs Hallgrímssonar í þessu ferðalagi til Moskvu. Hann segir Kosygin að það séu ekki kjarnorkuvopn á Íslandi. Kosygin þakkar Geir Hallgrímssyni kærlega fyrir það. Geir Hallgrímsson kemur á Alþingi Íslendinga og ber Kosygin fyrir því að hér séu ekki kjarnorkuvopn.

Ég hét hæstv. forseta því að tala ekki mjög lengi, en ég ætla aðeins í lokin að vitna í mgr. nr. 106 í þessari góðu skýrslu og 108 ef hæstv. utanrrh. væri fáanlegur til að hugleiða þessa skýrslu einnig í beinum tengslum við það mál sem hann hefur heitið okkur að láta rannsaka af kostgæfni. Það er best að lesa alla mgr. nr. 106:

„The base at Keflavik is a key factor for NATO strategy in the Northern Atlantic. In peacetime the base excerts a limiting and moderating influence on the Soviet operatives in the North-Atlantic and in times of crisis or war it will furnish a vital springboard for advanced defence of NATO against the northern fleet of the U. S. S. R. for control over the sea, land and communications.“

Ég geri ekki ráð fyrir að ég þurfi að eyða tímanum í að þýða þetta, — a. m. k. ekki fyrir þá NATO-experta Alþfl. sem hafa trúnað á bandarísk kjarnorkuvopn — svo að ég geti þess vegna farið yfir á mgr. 108 í þessari sömu ágætu skýrslu þar sem hann heldur áfram og útskýrir hvernig fara muni nú „ in case of war and hostilities“ með þessa herstöð— „in event of hostilities“, segir í skýrslu hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins, ef í það fer að til styrjaldar komi. Þetta er opinber skýrsla hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins, og þó að hæstv. utanrrh. vilji nefna nafn Jóns G. Sólness í því sambandi skal hann minnast þess, að hann sjálfur og hans kompaní sendu Jón Sólnes sem aðalfulltrúa sinn í þessa nefnd. — Hér segir í mgr. 108 hvernig fari ef í hart fer: „Soviet airpower would clearly attend to neutralize the Icelandic facilities . . .“

Þetta þýðir í stuttu máli í lauslegri þýðingu, náttúrlega ekki eins vandaðri og þið NATO-sinnar hafið dreift hér af ályktuninni ykkar um þessi mál, en í lauslegri þýðingu þýðir þetta: Ef í hart fer, ef í odda skerst, þá mun flugher Sovétríkjanna áreiðanlega reyna að eyðileggja, — „to neutralize“, ákaflega kurteist orðalag, — einangra eða þurrka út þessa íslensku aðstöðu, þ. e. herstöðvarnar þarna, þar sem fullnægjandi útbúnaður er hvergi til varnar.

Við hefðum þurft, við höfum ekki tíma til, en svo sannarlega hefðum við þurft að ræða skýrslu Ólafs Jóhannessonar um utanríkismál, hafa tíma til þess ekki einn dag, ekki tvo daga, þrjá eða fjóra daga og rifja upp sögu þessa máls og ýmsar fullyrðingar hæstv. utanrrh., sem við höfum ekki tíma til að fjalla um hérna. En ég vildi aðeins í lokin þakka hv. þm. Eiði Guðnasyni fyrir að hafa vakið máls á þessu, þó tími væri lítill til hér, og það get ég gert best með því að rifja upp stöku sem ég hnoðaði saman þegar verið var að mynda vinstri stjórnina á sínum tíma og spurt hvernig við, sem værum á móti herstöð á Íslandi, treystum okkur til að fara í stjórn með Alþfl. Hún var svona. Það eru á henni gallar, ég viðurkenni það, en meiningin er nokkuð góð:

Út úr neyð er engin leið,

sem okkur væri greið að rata,

í samvinnu við Arna og Eið,

úrbeinaða NATO-krata.