21.01.1980
Neðri deild: 21. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (495)

39. mál, óverðtryggður útflutningur búvara

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs um þetta mál við umr. s.l. miðvikudag undir ræðu hv. flm. og frsm. Stefáns Valgeirssonar. Ég vil taka fram, að meginhluti ræðu hv. þm. var með þeim hætti að ég tel enga ástæðu til að gera aths. þar við, enda var sá hluti ræðunnar mjög í samræmi við það sem ég hafði sagt í framsögu fyrir frv. á þskj. 26, og voru þar ekki mikil frávik. Þó gætti jafnvel í þeim hluta ræðu hv. frsm. nokkurrar ónákvæmni, sem í sjálfu sér er ekki ástæða til að draga fram nema að litlu leyti. Hann taldi t.d. að nefndin sem síðar hlaut viðurnefnið harðindanefnd, hefði verið skipuð í maí, en hún var skipuð 5. júní. Hann taldi að í sláturtíð hefði komið 1000 tonnum meira af kjöti af fullorðnu á markaðinn en árið áður. Hið rétta er að það voru 620 tonn. Þannig var um nokkra ónákvæmni hjá hv. þm. að ræða. Slíka smámuni væri e.t.v. engin ástæða til að gera að umtalsefni, ef ekki hefði farið svo, að ónákvæmni gætti í máli hv. þm. um fleiri atriði og þau sem meira máli skipta.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson sagðist hafa heitið því á fundi Stéttarsambands bænda að beita sér fyrir að samstaða allra flokka næðist um að ná fram úrbótum í því máli sem hér er á dagskrá, að fá aðstoð hins opinbera til að greiða fyrir óverðtryggða framleiðslu búvara að því marki sem útflutningsbætur hrykkju ekki til. Þetta er gott og blessað. Hann sagðist einnig hafa rætt við fulltrúa flokkanna, þegar Alþ. kom saman í haust, og nefndi að það hefði verið lítið um svör frá Sjálfstfl. og að hann hefði þó beðið eftir þeim svörum til síðasta dags. Þetta kalla ég ónákvæmni sem er ástæðulaus af þessum hv. þm. a.m.k. tók ég þátt í að ræða við hv. þm. Stefán Valgeirsson og ég ræddi enn fremur við formann Alþb., sem þá sat á Alþ., um þetta mál og lagði mitt til að samstaða gæti tekist. Ég ætla ekki að segja frá hvernig það þskj. hefði litið út sem hv. þm. Stefán Valgeirsson hafði fyrst í hyggju að flytja hér, en niðurstaða liggur fyrir og hún birtist að nýju í frv. sem hann hefur flutt á þskj. 39 ásamt allmörgum öðrum þm. úr Framsfl. og Alþb.

Ég fór fram á að þetta mál yrði flutt í þeim búningi sem gerði það kleift að ég og flokkur minn gætum staðið að því að það yrði afgreitt. Ég minni enn á að starfað hafði nefnd um þetta mál, og afgreiðsla meiri hl. þeirrar nefndar liggur fyrir sem fskj.prentað á þskj. 26, og hefur verið vitnað hér til þess nál. Ég taldi að nauðsynlegt væri að frv. væri ekki í bága við það samkomulag, sem þá var gert, og næði að öðru leyti að byggjast á þeim sjónarmiðum sem fulltrúi Sjálfstfl. hafði sett fram til þess að Sjálfstfl. stæði að þessu máli. Þessu hafnaði hv. þm. Stefán Valgeirsson, og eftir að hann hafði hafnað því að breyta nokkrum stafkrók í því frv., sem hann sýndi mér, setti hann sitt frv. fram og var ekki um annað að ræða. Það var hann sem tók þá ákvörðun að rjúfa þær samkomulagstilraunir sem fram fóru. Það er því meira en ónákvæmni að koma upp í þennan ræðustól og segja að það hefði verið lítið um svör af hálfu Sjálfstfl. og hann hafi þó verið að elta ólar við Sjálfstfl. til síðasta dags til þess að reyna að ná slíku samkomulagi. Þessu vil ég ekki láta ómótmælt og verð að segja að ég varð fyrir vonbrigðum með að hv. þm. Stefán Valgeirsson skyldi ekki í þessum atriðum og ýmsum atriðum öðrum geta farið með rétt mál.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta miklu meira. Það, sem liggur til grundvallar því að Sjálfstfl. tók ákvörðun um að standa að því að veittir yrðu 3 milljarðar kr. til að bæta halla á útflutningi landbúnaðarafurða, var það, að því þyrfti ekki að fylgja aukin skattheimta ríkissjóðs. Þess vegna er orðalag í áliti meiri hl. harðindanefndar og orðalag í frv. á þskj. 26, sem ég er 1. flm. að, með sama hætti: Ríkisstj. skal útvega fjármagn o.s.frv., ekki að lagt verði fram fé úr ríkissjóði.

Það er enn fremur gerð grein fyrir því í frv. okkar sjálfstæðismanna á þskj. 26, á hvern veg lán, sem tekið yrði í þessu skyni, yrði endurgreitt. Ég hef gert grein fyrir því og um það þarf ekki frekar að ræða. Það er skilmerkilega gerð grein fyrir því á hvern hátt við viljum standa að því máli og á hvern hátt við viljum afla fjármagns til þess að stuðningur við landbúnaðinn geti orðið raunverulegur.

Ég tel að það hefði verið mikils virði og átt að vera kappsmál hv. þm. Stefáns Valgeirssonar, sem ég veit að ber hag landbúnaðarins fyrir brjósti, að taka mið af því sem segir í nál. harðindanefndar og í aths. fulltrúa Sjálfstfl., núv. hv. þm. Steinþórs Gestssonar, og freista þess að ná fullri samstöðu um málið á þeim grundvelli. Það hefði e.t.v. getað orðið til þess að málið hefði þegar verið afgreitt. Því miður hefur afgreiðsla málsins dregist. Ég ætla ekkert að vera með neinar dylgjur um að hv. þm. beri á því ábyrgð, en víst er að hefði samstaða náðst væru a.m.k. miklu meiri líkur til þess að svo hefði ekki farið.

Ég get ekki stillt mig um að minnast á að mér fannst dálítið kátlegt að heyra ummæli hv. þm. Stefáns Valgeirssonar um núv. hæstv. landbrh. hvað snertir þátt hans í útvegun fjár og hugsanlegri afgreiðslu lána Bjargráðasjóðs vegna harðinda. Hæstv. landbrh. hefur sjálfur gert sínar aths. og þarf ekki að endurtaka það. Hitt er víst, sem ég hef einnig þegar tekið fram í fyrri ræðu hér á þingi, að mörgum bændum a.m.k. hnykkti nokkuð við þegar bréf komu um það frá Bjargráðasjóði á s.l. sumri að bændum væri gefinn kostur á aðstoð frá sjóðnum vegna fóðurkaupa af völdum harðinda með fullri verðtryggingu. Áður hafa lán úr sjóðnum verið veitt án verðtryggingar, oftast vaxtalaus og stundum afborgunarlaus í 2 ár. Aðstoð sjóðsins fram undir þetta hefur haft algera sérstöðu um aðstoð sjóða hér á landi. Til þess að geta staðist þetta hefur ríkisstj. á hverjum tíma margsinnis orðið að gera breytingar á lögunum um sjóðinn, þannig að tekjustofnar sjóðsins væru efldir.

Síðast var gerð breyting á lögum um Bjargráðasjóð hinn 18, des. 1976, og fjallar hún einmitt um það efni að gera breytingar á tekjustofnum sjóðsins til þess að efla hann og gera honum kleift að valda því hlutverki, sem honum er ætlað, að koma til aðstoðar við fólkið í landinu í neyðartilvikum. Tekjustofna sjóðsins má rifja upp, en þeir eru:

1. Framlög sveitarfélaga sem skulu nema 150 kr. fyrir hvern íbúa sveitarfélags miðað við þjóðskrá 1. des. undanfarið ár.

2. 0.35% af söluvörum landbúnaðarins, sbr. 2. gr. laga nr. 38 frá 15. febr. 1945, um stofnun Búnaðarmálasjóðs.

3. Framlag ríkissjóðs, sem nema skal samanlögðum

framlögum samkv. 1. og 2. lið, sem ég hef rakið að framan.

4. Vextir af fé sjóðsins.

Ég lít svo á, að það hefði verið mikil ástæða til þess á síðasta Alþ. að leggja vinnu í að semja frv. um breytingar á lögunum um Bjargráðasjóð Íslands og efla tekjustofna sjóðsins til þess að honum væri kleift að rísa undir viðfangsefnum sínum, því að eins og að framan hefur verið rakið eru sumir tekjustofnar sjóðsins miðaðir við fasta krónutölu sem eyðist óðfluga í því verðbólguflóði sem yfir þjóðfélagið hefur riðið og ríður þessi missiri. En hæstv. fyrrv. ríkisstj., vinstri stjórnin, undir forustu hv. þm. Ólafs Jóhannessonar, fór öfugt að. Hún lagði ekki vinnu í að finna leiðir til að efla Bjargráðasjóð og breyta lögum um sjóðinn á þann hátt. Þess í stað skerti hún tekjustofna Bjargráðasjóðs. Hún lét ekki við það sitja að tekjustofnar Bjargráðasjóðs væru skertir sem því nemur sem verðbólgan vinnur á tekjulindum hans ár frá ári, heldur skerti hún einnig tekjustofna hans með öðrum hætti. Það gerði hún með því að við fjárlagaafgreiðslu voru látin renna til ríkisins beint 10% af lögbundnu framlagi til sjóðsins, sem ríkissjóður átti að bera. Hún lét sem sé þá reglu, sem hún tók upp, að taka beint í ríkissjóð 10% af framlögum til fjárfestingarlánasjóða, einnig ná yfir sjóði sem eiga að sinna félagslegum viðfangsefnum, þ. á m. Bjargráðasjóð sem er neyðarsjóður og á að koma til aðstoðar við fólkið í landinu þegar alvarlega ber út af.

Enn má minna á að þessi regla var líka látin ná yfir t.a.m. Gæsluvistarsjóð, sem á að koma til aðstoðar við áfengissjúka.

Það var því í hæsta máta kátlegt að heyra hv. þm. Stefán Valgeirsson vera að kasta steinum að núv. hæstv. landbrh., sem ég út af fyrir sig þarf ekkert að vera að halda uppi vörnum fyrir, en er ráðh. í bráðabirgðastjórn, sumir segja auglýsingastjórn, sumir nefna enn öðrum nöfnum, en víst er að ætlast er til að sú stjórn sitji til bráðabirgða og er því ekki að vænta að hún breyti miklu í löggjöf, eins og til að mynda um tekjustofna Bjargráðasjóðs.

Því má svo bæta við að fjárlagafrv. fyrrv. hæstv. fjmrh., flokksbróður hv. þm. Stefáns Valgeirssonar, gerir ráð fyrir að ganga enn lengra á þeirri braut að skerða tekjustofna fjárfestingarlánasjóða og sjóða sem sinna félagslegum viðfangsefnum, svo sem Bjargráðasjóðs, því að þar er gert ráð fyrir að skerða tekjustofnana og taka til ríkissjóðs 15%. Það er því í hæsta máta úr glerhúsi kastað grjóti þegar hv. þm. Stefán Valgeirsson fer að deila á aðra vegna þess að ekki hafi verið sinnt þessum málum eins og vera þyrfti. Ég tel að mikil þörf sé á því, miðað við það ástand sem við blasir, að taka þessi mál til athugunar og þá ekki á þann veg, sem hæstv. fyrrv. ríkisstj. gerði, að skerða tekjustofna Bjargráðasjóðs, heldur að taka til nýrrar athugunar að efla þá. Ástandið er með þeim hætti að það er full þörf á því. Það er mjög kaldranalegt að fyrrv. hæstv. vinstri stjórn skyldi koma til liðs við verðbólguna í þjóðfélaginu við að eyðileggja neyðarsjóð fólksins í landinu.