23.01.1980
Neðri deild: 23. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í B-deild Alþingistíðinda. (565)

58. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Þessar umr. hafa farið nokkuð inn á aðra braut en hv. flm. þeirrar till., sem hér er til umr., hefur sjálfsagt gert sér grein fyrir og verið rætt um hið sígilda mál: hlutverk Byggðasjóðs. Það, sem kom mér til að standa upp og segja örfá orð, var ræða hv. þm. Friðriks Sophussonar, sem var að mörgu leyti mjög athyglisverð.

Hann lagði fram spurningar um til hvers slíkur sjóður væri, hann fullyrti að engin byggðastefna væri til í þessu landi og gaf enn fremur upplýsingar um að stór hluti Sjálfstfl. hefði verið á móti lögunum um Framkvæmdastofnun ríkisins, Byggðasjóð og hlutverk Byggðasjóðs. Þetta held ég að hafi aldrei áður komið fram jafnskýrt og opinberlega og vekur mjög mikla undrun mína, því að ég hef alltaf litið þannig á að Sjálfstfl. vildi þrátt fyrir allt gjarnan og hefði sýnt í verki á mörgum sviðum að hann vildi gjarnan stuðla að uppbyggingu um landið allt og hefði fylgt fram góðum málum sem hefur verið hægt að nefna byggðastefnu í orðsins fyllstu merkingu.

Einmitt vegna þess að hv. alþm. getur haldið þessari firru fram tel ég ástæðu til að benda á nauðsyn þess að menn eins og t.d. hv. þm. Friðrik Sophusson og aðrir skoðanabræður hans tækju sér ferð á hendur um landsbyggðina. Þeir ættu að heimsækja þorp og bæi og komast í beina snertingu við slagæð þjóðarinnar í þorpum og bæjum, þar sem fram fer að mestum hluta útflutningsframleiðsla þjóðarinnar ásamt innanlandsframleiðslunni. Það er nauðsynlegt að menn kynni sér raunveruleikann í þessum málum, framfarir og uppbyggingu, áður en þeir koma hér upp og halda ræður eins og hér var haldin áðan. Ég vil fullyrða að jafngreindir og ágætir menn og hv. þm. mundu þá fara að skilja betur, hvað er raunveruleg byggðastefna í landinu, og skilja betur, hvort um hefur verið að ræða fjáraustur úr Byggðasjóði sem hafi farið í ónauðsynlegar framkvæmdir. Ég vil ráðleggja þetta endilega og held að það sé nauðsynlegt áður en menn fara að ræða þjóðmál á þann hátt sem hér hefur komið fram.