24.01.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

219. mál, hagræðingarlán til iðnaðar

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég skal segja örfá orð og verða við tilmælum hæstv. forseta um það. Varðandi fjárlagagerðina vil ég taka það fram og taka af öll tvímæli og staðfesta það sem hv. þm. Ólafur Jóhannesson sagði áðan, að farið var að þeim ákvæðum sem um hana giltu og sett voru í löggjöfina nr. 13 frá 1979, sem nefnd hefur verið lög um stjórn efnahagsmála o.fl. eða Ólafslög.

Varðandi atriði, sem hér kom fram um niðurskurð ríkisútgjalda, er rétt að kveðið er á um það í lögum nr. 13/1979 að ríkisútgjöld skyldu skorin niður um 1 milljarð á árinu 1979. Lagabrotum í því efni vísa ég algerlega frá mér, vegna þess að árið var alls ekki liðið þegar ég lét af embætti. Ég hafði í undirbúningi tillögur í þessu efni. Þær hafa að nokkru verið framkvæmdar, en ekki til fulls. Það var skorið niður, held ég, um 500 millj., ef ég man rétt, og því var borið við, að nokkru leyti með fullum rétti, að það var liðið það mikið á árið að erfitt hefði verið að koma við niðurskurði. Ég hygg að kosningarnar hafi haft sitt að segja í þessum efnum, svo ég segi ekki meira um það.

Atriði, sem mér hefur borist til eyrna að hafi verið rædd áðan undir öðrum lið, skal ég ekki ræða hér, enda er það ekki rétt, heldur aðeins skjóta því að fyrrv. iðnrh., hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, að til fjmrn. bárust engar sundurliðaðar tillögur um hvernig ráðstafa skyldi hinu sérstaka iðnþróunargjaldi. Í lögum er tekið fram að það skuli verja tekjum af því gjaldi á þessu ári til eflingar iðnþróun samkv. ákvæðum fjárlaga, og gert er ráð fyrir að iðnrn. geri tillögur um hvaða sérstakar iðnþróunaraðgerðir það skuli vera. Slíkar tillögur bárust ekki fjmrn., þannig að ekki voru tök á að leggja fyrir Alþ. í fjárlagafrv. sundurliðaðar tillögur um til hvaða iðnþróunaraðgerða gjaldið skyldi renna á þessu ári. Mín ætlun var sú, en mér entist ekki aldur í embætti til þess, að gera nánari grein fyrir þessu máli í fjárlagaræðu, en hana flutti ég aldrei, eins og kunnugt er. Þá hefði ég rætt þetta mál og gert grein fyrir því, hvers vegna málið var lagt fram í fjárlagafrv. eins og raun ber vitni um. — Til viðbótar við það er þess að geta, að ég lagði þetta fjárlagafrv. fram á eigin ábyrgð. Það er svo mál út af fyrir sig.