29.01.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

218. mál, búvöruverð

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég vil segja það, að mér finnst eðlileg sú fsp. sem hér er fram borin af hv. þm. Stefáni Valgeirssyni. Ég vil leyfa mér að draga í efa lagaheimild ríkisstj. til að fresta að hluta gildistöku búvöruverðsins vegna þess að það er a.m.k. umdeilt af lögfróðum mönnum hvort verðstöðvunarlög, sem hæstv. ráðh. vitnaði til, ná yfir sérlög eins og lög um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Ég er auðvitað ekki lögfróður maður, en ég leyfi mér að draga skýringar hæstv. ráðh. í efa.

Hitt er ljóst, að hæstv. ráðh. sækir fordæmi sitt til fyrrv. hæstv. vinstri stjórnar s.l. sumar, sem ítrekað frestaði ýmist hluta, eftir því sem hann greindi, af dreifingarkostnaði eða, eins og gerðist 1. sept. s.l., að frestað var gildistöku búvöruverðsins sem Sexmannanefnd hafði þó verið sammála um. Ég vil þess vegna segja það, að um leið og ástæða er til þess að fsp. sé hér fram borin er ekki síður ástæða til að spyrjast fyrir um hvað liði endurgreiðslu á þeim halla sem bændur í landinu hafa orðið fyrir vegna frestunar vinstri stjórnarinnar á gildistöku búvöruverðsins 1. sept. Sú frestun stóð í 17 daga, að ég hygg, eins og hæstv. ráðh. greindi frá, og samkv. fyrstu áætlunum um þann halla, sem á bændur féllu af þeirri ráðstöfun, var gert ráð fyrir að það væru 267 millj. kr. sem einvörðungu féllu á mjólkurframleiðendur. Við nánari athugun eða þegar þetta dæmi hafði verið gert upp hækkaði talan verulega eða upp í 450 millj. kr.

Ástæða hefði verið til þess að hæstv. ráðh. greindi einnig nokkuð frá þessu máli og hv. fyrirspyrjandi hefði enn fremur beint geiri sínum að þessari ráðstöfun jafnframt.

Ég vil geta þess, að ég hef undir höndum ljósrit af bréfi formanns Stéttarsambands bænda til fyrrv. landbrh., Steingríms Hermannsonar, sem er ritað 2. okt. s.l. Þar er greint frá samþykkt á aðalfundi Stéttarsambands bænda sem ég hygg að hv. fyrirspyrjandi hafi tekið þátt í sem fulltrúi, og segir þar — með leyfi hæstv. forseta — svo hljóðandi:

„Aðalfundur Stéttarsambands bænda 1979 telur þá ákvörðun ríkisstj. að fresta gildistöku verðlagsgrundvallar, sem taka átti gildi 1. sept., móðgun í garð bændastéttarinnar þar sem fullt samkomulag var í Sexmannanefnd um gerð hans. Fundurinn mótmælir harðlega og vekur athygli á að allur frestur á gildistöku nýs búvöruverðs er tvímælalaust brot á 1. mgr. 6. gr. laga um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o.fl. Fundurinn telur því einboðið að fullar bætur komi vegna frestunarinnar.“

Í bréfi þessu er vitnað til bókaðra orða hæstv. fyrrv. landbrh., Steingríms Hermannssonar, þar sem hann setur fram sínar skýringar á þessu máli og gefur tiltekin fyrirheit.

Ástæða væri til þess að spyrja: Hví leysti ekki hæstv. fyrrv. ríkisstj. úr þessu máli áður en hún fór frá völdum í okt. s.l.? Hvers vegna greiddi ekki fyrrv. hæstv. landbrh. þann halla, sem á bændum skall af þessari ráðstöfun, áður en hann fór úr veldisstóli sínum?