12.02.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég heyrði í hádegisútvarpinu þá frétt, að sjútvrh. hefði ákveðið að stöðva loðnuveiðar frá kl. 12 á hádegi á morgun, en þó mega skipin, sem eru þá úti á miðunum, fiska í sig. Þessi frétt eða þessi ákvörðun réttara sagt kom mjög á óvart. Þó að um þessar veiðar hafi verið rætt á undanförnum vikum og mánuðum af bæði fyrrv. hæstv. sjútvrh. og öðrum, þá finnst mér nauðsyn við jafnalvarlegar og mikilvægar ákvarðanir eins og þessar, að ráðherrar hafi samráð við þingflokka eða a.m.k. þær nefndir sem fjalla um þessi mál í Alþingi. Mér er það ljóst og kannske betur en mörgum öðrum, að allar slíkar ákvarðanir eru mjög erfiðar og oft vanþakklátar, og því er enn meiri nauðsyn í sambandi við slíkar ákvarðanir að hafa sem víðtækust samráð. Ég hafði þann hátt á þau fjögur ár sem ég fór með þessi mál,1974–78, að hafa samráð við sjútvn. eða forustumenn stjórnarandstöðuflokka og auðvitað umfram allt við ríkisstj. Mér er kunnugt um það, að meðal stuðningsmanna hæstv. núv. ríkisstj. eru menn sem höfðu ekki hugmynd um þessa ákvörðun sjútvrh. fyrr en frá henni var sagt í hádegisfréttum áðan.

Það eru 53 skip sem stunda þessar veiðar, og mun láta nærri að áhafnir þessara skipa séu um 750 sjómenn. Og nú spyrja menn, þegar þessar veiðar eru stöðvaðar nú fyrir miðjan febrúarmánuð: Hvað gera þá þessi skip og þessar áhafnir? Fara þessi skip ekki að huga að því þegar í stað að fara á þorskanetaveiðar? Hefur hæstv. ráðh. gert sér grein fyrir því, hvað það þýðir að bæta þarna álitlegum flota á þorskveiðarnar? Fyrir liggur ákvörðun fyrrv. sjútvrh. um þorskveiðitakmarkanir á þessu ári. Ég ætla ekki að gera þær hér að umræðuefni, enda er það ekki ætlunin með því að kveðja sér hljóðs utan dagskrár. Ég get þó ekki látið hjá líða að segja það, að þær ákvarðanir eru að mörgu leyti eðlilegar, þó að ég sé ekki sammála um þær að öllu leyti. En ég er að verulegu leyti samþykkur þeim ákvörðunum. En ég bendi á í sambandi við það, að viðmiðunarmörk eru þau, að bátaflotinn megi veiða 75 þús. tonn miðað við apríllok. Ef við bætum nú meginhluta loðnuflotans á þorskveiðar með net á vetrarvertíðina, þá sjá allir að vetrarvertíðin hjá vertíðarbátunum kemur til með að styttast verulega, þannig að þessi ákvörðun um stöðvun loðnuveiða grípur einnig inn á vertíðarveiðina og það mjög alvarlega fyrir bæði sjómenn og útgerðarmenn, fiskvinnsluna og allt það fólk sem að þessum störfum vinnur.

Nú kem ég að því, sem skiptir mestu máli í sambandi við þessa ákvörðun hæstv. ráðh. Ég heyrði í fréttum í gær, að hann ætlaði að halda fund með fiskifræðingum um málið, eftir því sem fjölmiðlar sögðu frá. Nú væri fróðlegt að heyra á eftir rök hans fyrir því, við hverja hann hefur rætt og á hverju hans ákvörðun byggist. Og þá vil ég minna hann á, að þó að ég vilji á engan hátt gera lítið úr okkar vísindamönnum, þá hlýtur það að vera takmörkuð vitneskja sem þeir geta sagt hæstv. sjútvrh. frá þó að eitt rannsóknarskip fari í stuttan tíma yfir hugsanlegt svæði sem loðnan heldur sig á, og þeir mæli með bergmálsdýptarmæli í stuttan tíma á einu skipi og marki þannig stofnstærð loðnunnar. Skiptir kannske engu máli yfirferð 53 veiðiskipa, sem flest eða öll eru búin fullkomnum fiskileitartækjum? Er hitt svo viðamikið, að hægt sé að strika algjörlega yfir það sem skipstjórar með reynslu og þekkingu á þessum stóra flota hafa að segja. Við höfum séð í fréttum undanfarna daga að gengd á loðnu er meiri nú en nokkru sinni áður og síðast sólarhringur er mesti veiðitími sem hefur verið nú um langan tíma. Bendir þetta ekki til þess, að það sé óhemjumikið magn af loðnu á miðunum? Bendir það ekki til þess, að það megi hlýða meira á þá sem þekkingu og reynslu hafa, en ekki eingöngu fara eftir því sem spáð er eftir mælingum eins rannsóknarskips á takmörkuðu svæði?

Ég vil líka benda hæstv. ráðh. á það, að loðnan hefur ekki um langan tíma komið jafnnærri landi og nú. Hún er komin upp á Axarfjarðargrunn. Hún er 15 mílur út af Sléttu. Allt bendir þetta til þess, að það sé sem betur fer um miklu meira magn af loðnu að ræða en vísindamennirnir vilja láta í veðri vaka. Ef slæmt útlit væri með loðnuveiði og það væri samhljóða eða áberandi álit skipstjórnarmanna og sjómanna, að gengið væri nærri loðnustofninum, þá skildi ég mjög vel þessa ákvörðun hæstv. ráðh. En ég skil ekki þann flumbrugang sem er í sambandi við þessa ákvörðun. Ég held að hafið yrði ekki þurrausið þó hæstv. ráðh. veitti sér þann munað að hafa samráð við þingflokka og sjútvn. þingsins eða a.m.k. fulltrúa úr hverjum flokki, sem gætu rætt málið hver innan síns flokks. Það er hættulegt að gera slíkar ráðstafanir, kippa atvinnugrundvellinum undan útgerð svo margra skipa og sjómanna sem hér eiga hlut að máli og hætta á það að auka sóknina í þorskinn umfram það sem verið hefur á liðnum árum. Atvinnuástand og rekstur verksmiðja á sunnanverðum Austfjörðum, Vestmannaeyjum, Suðvesturlandi öllu og við Faxaflóa er með þeim hætti, að þessar verksmiðjur hafa sumar enga loðnu fengið ennþá. Ég held að það sé rétt með farið hjá mér, að það hafi aðeins komið einn skipsfarmur af loðnu til Vestmannaeyja. Og þá er veiðin stöðvuð. Þessi fyrirtæki og allt það fólk, sem vinnur við þau og við vinnsluna, verður því fyrir mjög alvarlegu áfalli.

Svo kem ég að því síðast, sem mér leikur allmjög forvitni á að heyra frá hæstv. ráðh.: Eru væntanlegir samningar við Norðmenn eitthvað á bak við þessa ákvörðun hæstv. ráðh.? Ef svo er, þá vil ég þegar í stað mótmæla því. Ég vil ekki að Norðmenn segi okkur fyrir verkum, hvernig við eigum að veiða loðnu, eða láta Norðmenn hræða okkur. Og ég vil ekki, þegar jafnmikið er um loðnu í sjónum og nú, að hún sé geymd til þess að keppa um veiði á henni á Jan Mayen-svæðinu síðar í vetur, vor eða sumar. Það er okkar að veiða loðnu. Það er fullyrt af vísindamönnum okkar, að þetta sé sami stofninn sem gangi hér austur í haf og við veiðum innan okkar 200 mílna. Innan okkar svæðis hrygnir loðnan. Við eigum auðvitað að vera til viðtals um það, á hvern hátt þessi stofn er nýttur, og þá alveg sérstaklega utan okkar 200 mílna, en innan þeirra erum það við einir sem ákveðum nýtinguna.

Ég tel að hægt sé að bera fram veigamikil rök fyrir því, að ekki sé verið að ofveiða loðnu þó að veiðar hefðu haldið áfram enn um sinn. Og ég held að fiskifræðingar geti ekki fullyrt það, þvert ofan í umsagnir þeirra sem hafa langa reynslu að baki og þekkja vel hegðun loðnunnar og þekkja veiði hennar og takmörk, og það eigi að taka tillit til fiskimannanna. Ég held að þessu þjóðfélagi og þessari þjóð veiti ekki af því að auka framleiðslu sína og framleiðni. Og ég veit ekki annað en að það sé eitt af stefnumálum hæstv. ríkisstj., sem nú hefur tekið við, að auka framleiðni í þjóðfélaginu. Á þetta að vera leiðin til þess? Hefur hæstv. sjútvrh. borið sig saman við hæstv. ríkisstj. Stendur hæstv. ríkisstj. einhuga að baki þessari ákvörðun hæstv. sjútvrh.? Ef svo er, þá hefur a.m.k. hæstv. ríkisstj. ekki haft fyrir því að kynna þessa ákvörðun fylgismönnum sínum, sem hún hefur talið sig eiga og hafa lýst yfir stuðningi við hana. Ég skal ekki segja hvort fylgismenn þessarar hæstv. ríkisstj. eru svo litlir karlar, að þeir láti bjóða sér þetta. Reynslan mun sýna, að menn geta ekki verið ásáttir með það sem hér hefur verið gert.

Ráðherra, hver sem hann er, á að kynna þessi mál og væntanlega ákvörðun, — ekki eingöngu fyrir stuðningsmönnum ríkisstj., því að við eigum, allir Íslendingar, þessi mið, hverjir sem eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, — hann á að kynna þessi mál, leita álits og taka síðan ákvarðanir og reyna að skapa sem víðtækast samstarf.

Ég vænti þess, að hæstv. sjútvrh. svari þessum fyrirspurnum og skýri og færi rök fyrir þeirri ákvörðun sem hann hefur tekið og sagt var frá í hádegisútvarpi í dag.