19.02.1980
Sameinað þing: 25. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

220. mál, landgrunnsmörk Íslands til suðurs

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru í meira lagi furðulegar umræður sem hér hafa átt sér stað. Hv. 5. landsk. þm. óskar svars við tveimur fsp. og fær svar við þeim, samþykkir að hæstv. utanrrh. svari þeim báðum í einu, sem eðlilegt var. Utanrrh. kom með svör frá embættismönnum, sem höfðu verið útbúin í tíð fyrrv. utanrrh. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson segist vera óánægður með þau svör og bendir á fyrri gerðir sinar og reyndar um leið fyrri aðgerðir sjálfstæðismanna, bæði utan þings og innan, að þeir hafi verið í fararbroddi fyrir því að benda á aðgerðaleysi tveggja síðustu ríkisstj. Það kom skýrt fram í máli hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, að hann var ekki eingöngu að gagnrýna störf síðustu ríkisstj., heldur miklu frekar störf ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, sem var húsbóndi Benedikts Gröndals þegar Benedikt gegndi utanríkisráðherraembættinu í stjórnartíð hans. Ég fæ því ekki séð hvað á að þýða þetta upphlaup hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, þegar hann kemur upp og liggur við að hann flaðri upp um Eyjólf Konráð Jónsson til að hrósa honum fyrir forgöngu hans í málinu. Að vísu má hann vel gera það, en það er ekki þar með sagt að nein ástæða sé til að draga úr sök vinstri stjórnarinnar og getuleysi í stjórnartíð hennar. Að vísu sprengdu kratarnir ekki ríkisstj. vegna þessa máls. En ef það var svona þungt og mikið fyrir brjósti Ólafs Ragnars Grímssonar í stjórnartíð þeirrar stjórnar sem hann studdi hefði hann líklega getað sprengt þá ríkisstj. sjálfur vegna þessa máls.