20.02.1980
Neðri deild: 39. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (970)

109. mál, tollskrá

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég tel að hér sé hreyft mjög eðlilegu máli, sem áður hefur raunar verið minnst á í umræðum á Alþ. á þessum vetri, og það sem mér finnst kannske skipta mestu í því máli er sú brtt., sem kom hér fram og var nefnd af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að um verði að ræða heimild í lögum til að færa þessar upphæðir til með tilliti til verðlagsþróunar. Það er raunverulega ekki aðalatriðið hvort upphæðir eru færðar til um ákveðna tölu núna, eins og gerð er till. um í frv. hv. þm. Alexanders Stefánssonar, það skiptir ekki öllu, heldur að tilfærsluheimildin verði inni og hægt að gera ráð fyrir reglulegum breytingum framvegis með tilliti til verðlagsþróunar. Ég verð þó að segja að orðalagið á till. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, 10. landsk. þm., er dálitið ónákvæmt og þyrfti að athuga í nefnd við hvaða þátt verðlagsþróunarinnar á að miða. Á að miða við framfærsluvísitölu, á að miða við byggingarvísitölu eða verðbótavísitölu? Þetta er atriði sem nefndin getur auðvitað athugað.

Ég er einnig sammála því sem kom fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e., að það er rétt að taka til íhugunar í þessu sambandi úthlutun leyfanna, hvernig hún fer fram, og ég tel einnig vert að vekja á því athygli, hvort ekki sé ástæða til að taka til athugunar endurnýjunartíma bifreiða sem hér hefur verið miðað við, þ.e. fimm ár eins og þetta hefur verið.

En meginmálið í þessu finnst mér þó vera það, og þess vegna kom ég nú upp að sinni, að við höfum haft fyrir framan okkur á Alþ. í vetur og í fyrravetur fjöldamörg mál sem snerta málefni fatlaðra. Það eru einstök frv. um einstakar lagfæringar á einstökum þáttum í tryggingalöggjöfinni og annarri löggjöf. Mér finnst að hin mörgu mál, sem flutt hafa verið hér í frumvarpsformi, ættu að verða okkur hvatning til að taka á málunum með heildstæðari hætti en gert hefur verið. Mér finnst líka að alþjóðaár fatlaðra, árið 1981, ætti að verða okkur sérstök hvatning til að endurskoða margvísleg lög og reglugerðir sem snerta hagsmunamál fatlaðra.

Nú eru þessi málefni dreifð um löggjöf mjög víða. Ég kann ekki að telja alla þá lagabálka og allar þær reglugerðir sem hér er um að ræða, en þær eru legíó. Það er jafnvel erfitt fyrir stjórnkerfið sjálft að átta sig á þessum reglugerðum, lögum, undantekningarákvæðum, heimildarákvæðum og matsákvæðum út og suður í öllu kerfinu, hvað þá heldur fyrir hina fötluðu sjálfa sem við þessi kjör eiga að búa. Þess vegna held ég að einföldun á kerfinu, uppstokkun og samræming á því öllu, sé ein út af fyrir sig mikilvægt hagsmunamál fyrir fatlaða í þessu landi og við ættum að setja okkur það í tengslum við alþjóðaár fatlaðra að samræma þetta og um leið marka framtíðarstefnu um hvernig með þessi mál skuli farið, ákveða verkefnaskrá til nokkurra ára fram í tímann, þannig að það verði ekki tilviljanirnar einar, hver er duglegastur að þrýsta á hvern blett á hverjum tíma, sem ráði úrslitum um á hvaða málum er tekið.