08.12.1980
Efri deild: 21. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

12. mál, Kennaraháskóli Íslands

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. sem flutt var í Nd. og hefur fengið umfjöllun og afgreiðslu þeirrar hv. deildar. Ég vil geta þess, að frv. var afgreitt þaðan með aðeins einni orðalagsbreytingu, þar sem orðinu „embættisprófi“ var breytt í „prófi“. Að því leyti til má segja að frv. hafi gengið nánast breytingalaust í gegnum Nd.

Ég vil geta þess, að í lögum um Kennaraháskólann, sem voru samþykkt árið 1971, var gert ráð fyrir að lögin yrðu endurskoðuð tveimur árum eftir gildistöku laganna. Það fór reyndar svo, að þessi lög voru endurskoðuð af nefnd sem þáv. menntmrh. skipaði til þess. Þessi nefnd skilaði allviðamiklu áliti í júní 1976. Þessu áliti fylgdi frv. að breytingum á kennaraháskólalögunum. Þetta frv. hefur verið lagt a.m.k. tvívegis fyrir hv. Alþingi, en hefur ekki náð fram að ganga og virtist afgreiðsla þess ekki eiga mikinn hljómgrunn. Hins vegar hef ég orðið þess áskynja, að forráðamenn Kennaraháskólans, rektor og skólastjórn, telja að það séu tiltekin atriði í kennaraháskólalögunum, tiltekin atriði þó ekki séu þau stór, sem eðlilegt og reyndar réttlætanlegt og sjálfsagt sé að breyta, hvað sem liður viðámeiri breytingum á þessum lögum, eins og gert var ráð fyrir í frv. endurskoðunarnefndarinnar á sinni tíð.

Ég hef því orðið við þeim tilmælum rektors og skólastjórnar Kennaraháskólans að flytja það frv. sem hér liggur fyrir. Það er aðeins í fjórum greinum og er tiltölulega einfalt að efni til.

Eins og fram kemur í grg. eru þessar breytingar bæði fáar og snerta ekki meginkjarna laganna. En eigi að síður, það sem felst fyrst og fremst í þessum breytingum er að aðlaga kennaraháskólalögin þeim breytingum sem orðið hafa á lögunum um Háskóla Íslands. Kennaraháskóli Íslands stendur að sínu leyti jafnfætis Háskólanum, og því er eðlilegt að reynt sé að samræma þau lög sem gilda um þessar stofnanir, og segja má að það sé það sem fyrst og fremst felst í þessu frv. sem er í fjórum greinum og hefur gengið gegnum Nd. og verið samþykkt þar svo til óbreytt, aðeins með þessari litlu breytingu sem ég nefndi, og er nú hér til 1. umr.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara öllu fleiri orðum um þetta frv. nú, en ég vænti þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og til menntmn.