09.12.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

361. mál, verslun og innflutningur á kartöflum

Fyrirspyrjandi (Egill Jónsson):

Herra forseti. Það langsamlega mikilvægasta í svari hæstv. ráðh. var sú kveðja sem hann sendi bændum í þessu landi, þar sem hann sagði að þeir hefðu ekki boðið fram þessa vöru í neinu magni um mánaðamótin júlí og ágúst, heldur einungis óskað eftir því að fá hátt verð fyrir þessa framleiðslu. Nú vill svo til, að fyrir örfáum dögum var haldinn fundur kartöfluframleiðenda hér í Reykjavík, þar sem m.a. var fjallað um þessi mál, og sat ég þennan fund. Ég veit því mætavel um hvað bændum eða framleiðendum fór á milli og Grænmetisverslun landbúnaðarins. En rétt til þess að skýra það fyrir hæstv. ráðh., svo að hann viti þó það sem er sannleikanum samkvæmt í þessu efni, skal ég lesa hér upp 1. gr. í tillögu sem þar var samþykkt:

„Lýst er fullri ábyrgð á hendur Grænmetisverslunar landbúnaðarins og landbrh. vegna innflutnings kartaflna eftir 1. ágúst 1980, þegar fyrir lá að innlendir framleiðendur gátu annað markaðsþörf kartaflna.“

Það liggur fyrir að úr öllum framleiðslusvæðunum, norðan úr Eyjafirði, héðan af Suðurlandi og austan úr Austur-Skaftafellssýslu, var búið að tilkynna að það væri komin haustuppskera strax upp úr mánaðamótum.

Það var ekki skýrt sem ráðh. sagði um afskipti rn. Út af fyrir sig hefði verið gagnlegra að fá frekari skýringu á afstöðu hans en að heyra allan þann lestur sem ráðh. viðhafði í sambandi við reglugerðir. En það mætti þá kannske spyrjast fyrir um það í framhaldi af þessu, hvort það sé venjum samkvæmt að greiða niður erlendar kartöflur, eins og væntanlega var gert á s.l. hausti. Það eru væntanlega einhverjir aðrir en bændurnir hér á Íslandi sem hafa tekið ákvörðun um að fluttar væru inn kartöflur til landsins og þær greiddar niður í samkeppni við íslenskar kartöflur. Ég trúi því varla, að ráðh. vilji segja hér á Alþ. að það hafi verið Framleiðsluráð landbúnaðarins eða Grænmetisverslunin sem hafi tekið þá ákvörðun. Spurningin er nefnilega sú: Var þetta ekki. einn þátturinn í vísitöluleiknum? Var þetta ekki einn þátturinn í niðurtalningunni sem á að lækka verðlagið í þessu landi? Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. svari því.