11.12.1980
Efri deild: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (1275)

153. mál, samningur um gagnkvæma aðstoð í tollamálum

Frsm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í aths. með þessu frv. er það lagt fyrir Alþingi til að afla heimildar fyrir ríkisstj. til fullgildingar á samningi milli íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um gagnkvæma aðstoð í tollamálum svo og að veita ákvæðum samningsins lagagildi hér á landi. Sú aðstoð, sem í samningnum felst, er þrenns konar: Í fyrsta lagi aðstoð við framkvæmd tollalaga almennt, þ.e. álagningu tolla og annarra inn- og útflutningsgjalda, svo og að haldnar séu reglur um inn- og útflutning. Í öðru lagi innheimta tolla og annarra gjalda. Í þriðja lagi aðstoð til að koma í veg fyrir, rannsaka og upplýsa brot á tollalöggjöfinni.

Nefndin hefur rætt þetta frv. og mælir með því að það verði samþ. Gunnar Thoroddsen og Lárus Jónsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins, en aðrir nm. mæla með samþykkt frv.