11.12.1980
Neðri deild: 29. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (1324)

172. mál, lántaka 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Eins og kunnugt er voru afgreidd sérstök lánsfjárlög hér á vordögum sem heimiluðu fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán á árinu 1980 allt að 11 347 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar upphæðar í erlendri mynt. Jafnframt var fyrirtækjum með eignaraðild ríkisins svo og fyrirtækjum sveitarfélaga veitt heimild til erlendrar lántöku með ríkisábyrgð. Í þessu frv. er leitað heimildar til viðbótarlántöku allt að 4750 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.

Lántaka þessi er nauðsynleg m.a. vegna annarrar verðlags- og gengisþróunar á árinu 1980 en gert var ráð fyrir í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir þetta ár sem lánsfjárlög byggðust á. Einnig hefur reynst nauðsynlegt að auka framkvæmdir í nokkrum tilvikum til að ljúka heppilegum verkáföngum.

Í 2. gr. frv. er þessi upphæð sundurliðuð.

Þá er fyrst til að taka að sótt er eftir lánsheimild til að lána Rafmagnsveitum ríkisins til framkvæmda við Kröfluvirkjun og nemur sú fjárhæð 1111 millj. kr. Þessi upphæð er þannig til komin, að 744 millj. voru ætlaðar til borunar á nýrri holu við Kröflu, en 367 millj. vegna þess að framkvæmdakostnaður hefur þar farið fram úr áætlun vegna þess að fyrri áætlanir voru miðaðar við verðlag í ársbyrjun og reyndust því ekki eins raunhæfar og efni stóðu til.

Í öðru lagi er sótt eftir heimild til að lána Jarðvarmaveitum ríkisins til framkvæmda í Bjarnarflagi 300 millj. kr. Þar er um það að ræða að fjárveiting í lánsfjáráætlun til borunar einnar holu í þágu Kísiliðjunnar í Mývatnssveit var ónóg og óhjákvæmilegt að bæta þar við til þess að framkvæmd þessi mætti verða að veruleika.

Í þriðja lagi er um að ræða að lána Rafmagnsveitum ríkisins til lagningar byggðalína 174 millj. kr. Þessi fjárhæð rennur fyrst og fremst til lúkningar Vesturlínu á Vestfirði, enda kom í ljós að fyrri áætlanir um fjármagnskostnað reyndust rangar og óhjákvæmilegt að bæta við 174 millj. vegna verðlagsbreytinga á tímabilinu.

Í fjórða lagi er þarna um að ræða almennar framkvæmdir á vegum Rafmagnsveitna ríkisins upp á 473 millj. kr. þar er um margvíslegar framkvæmdir að ræða, sem stóð þannig á fyrir að ekki var hægt að ljúka, verki í miðjum klíðum, og var því óhjákvæmilegt að vinna fyrir meira fé en ráð var fyrir gert í lánsfjáráætlun.

Í fimmta lagi er um að ræða að lána Orkusjóði til fjármögnunar á virkjunarrannsóknum 260 millj. kr. Á lánsfjáráætlun er þessi liður, virkjunarrannsóknir, en vegna umfangsmikilla rannsókna á möguleikum til virkjunar á Héraði — við skulum nefna það Fljótsdalsvirkjun — reyndist óhjákvæmilegt að gera þarna ráð fyrir meiri rannsóknum en áður hafði verið reiknað með og bættust þar við 260 millj. kr.

Þá er sótt eftir heimild til að lána Orkubúi Vestfjarða 300 millj. kr. til framkvæmda og til að mæta rekstrarhalla 1980 og skýrir það sig nokkuð sjálft. Forráðamenn Orkubúsins tjáðu okkur að þessi rekstrarhalli hefði verið fyrirsjáanlegur, en hins vegar hefði ekki verið gert ráð fyrir honum í lánsfjáráætlun, sem samþ. var í vor, og óhjákvæmilegt væri að gera þessa bragarbót.

Þá er um að ræða heimild til að lána Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar til að ljúka tengingu hitaveitu í Borgarnesi 620 millj. kr. Var þar fyrst og fremst um það að ræða, að þannig stóð á verkum að óhyggilegt og mjög óarðbært hefði verið að hætta verkum í miðjum klíðum. Var því óhjákvæmilegt að bæta þessari fjárhæð við.

Enn er að nefna heimild til að lána Landhelgissjóði til kaupa á þyrlu. Þar er um að ræða gamlan kunningja alþm., sem lengi hefur verið á döfinni, en ekki verið tekin formleg afstaða til af hálfu Alþingis. Ég hygg að einar fjórar ríkisstjórnir beri meiri eða minni ábyrgð á þessum kaupum, enda þótt aldrei væri um þau fjallað formlega í lánsfjáráætlunum eða fjárlögum. Þetta eru auðvitað mjög óeðlileg vinnubrögð og forkastanleg, en svona er þetta nú og verða víst margir aðilar að taka á sig ábyrgð á því, hvernig að hefur verið staðið í þessu máli. Ég vil segja það fyrir hönd þessarar ríkisstj., að við gerðum ráð og 1981 og ábyrgðarheimildir. 1318 fyrir því þegar lánsfjáráætlunin var undirbúin í vor, að þessi þyrla kæmi til landsins eftir áramót, gengum út frá því og töldum því ekki nauðsynlegt að taka þessa þyrlu inn í lánsfjáráætlun, en seinna kom á daginn að þyrlan var til afhendingar í ágústmánuði og ekki væri hægt að skjóta því á frest að taka við henni. Hér er því leitað staðfestingar Alþingis á þeirri ákvörðun að veita henni viðtöku og gjalda kaupverðið fyrir.

Þá er hér um að ræða lán til undirbúnings félags um saltvinnslu á Reykjanesi að fjárhæð 60 millj. kr., en til þess að endanleg niðurstaða fáist um hvort arðvænlegt sé að setja upp saltvinnslufyrirtæki á Reykjanesi þarf að halda þar tilraunavinnslu áfram lengur en áður hafði verið ráð fyrir gert og þörf á þessu fjármagni upp á 60 millj. kr.

Næstseinasti liðurinn í 2. gr. hljóðar svo: „Til að greiða hlut ríkissjóðs í dráttarbrautarframkvæmdum 520 millj. kr.“ — Hér er eingöngu um að ræða bókfærsluatriði, því að þau mistök urðu við gerð lánsfjáráætlunar í vor að þessi liður var færður með atvinnufyrirtækjum, en ekki með opinberum framkvæmdum, eins og þó var ætlunin, og komu menn ekki auga á þessi mistök fyrr en málið hafði verið afgreitt hér á Alþingi. Hér var eingöngu um að ræða venjulegar dráttarbrautarframkvæmdir, sem Alþingi og ríkissjóður kosta að sinum hluta, og var því eðlilegt að þessi liður hefði verið í flokki opinberra framkvæmda í lánsfjáráætlun. En það var ekki og er gerð bragarbót með þessari tillögu.

Loks er um það að ræða að lána sveitarfélögum til hafnarframkvæmda 130 millj. og er það þáttur í sama máli sem ég nefndi nú, því að upphæðin í lánsfjáráætluninni 1980 er einmitt 650 millj. kr. og hefur skipst með þeim hætti að 520 falla í hlut ríkissjóðs, en 130 í hlut sveitarfélaga.

Í 4. gr. frv. eru ákvæði þessa efnis: „Fjmrh. f.h. ríkissjóðs er heimilt að taka lán allt að jafnvirði 25 þús. millj. kr. í erlendum gjaldeyri á árinu 1981 og verja andvirði þess til framkvæmda á vegum ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja eða endurláns til sveitarfélaga eða samtaka á þeirra vegum í samræmi við lánsfjáráætlun 1981“.

Þetta er óvenjulegt ákvæði, en á sér þó skýringar og eðlileg rök. Þannig stendur nú á, að sýnt er að lánsfjárlög verða ekki afgreidd fyrir áramót. Hins vegar er stefnt að því að gerð verði grein fyrir megindráttum lánsfjáráætlunar í næstu viku, áður en 3. umr. um fjárlög fer fram. Lánsfjárlögin veita heimildir til lántöku í tengslum og í samræmi við lánsfjáráætlun fyrir árið 1981 og væri því að öllu óbreyttu ekki hægt að taka lán fyrr en þau hefðu verið afgreidd. Hins vegar stendur svo á, að Íslendingum býðst fremur hagstætt lán með allgóðum kjörum á lánsfjármarkaði í Lundúnum og við höfum tekið frá dag, 12. jan. n.k., til að geta gengið frá þessu láni sem er á margan hátt sérstætt, m.a. til 25 ára og afborgunarlaust fyrstu 24 árin. Þess vegna þykir hagstætt að ganga frá þessari lántöku nú og veita heimild til hennar þannig að hún megi fara fram í janúar, en hins vegar er ekki áformað að verja þessu fé til neinna framkvæmda fyrr en lánsfjárlög hafa verið samþ. og lánsfjáráætlun hefur verið afgreidd hér í þinginu. Þetta er því einungis heimild til að taka lánið, en ekki til að nota það.

Ég vil taka það fram, að að athuguðu máli má vel vera að niðurlag 4. gr. þyki ekki vera nægilega ótvírætt í þessum efnum og það sé ekki nægilegt að segja hér að það megi verja andvirði þessa láns til framkvæmda á vegum ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja eða endurláns til sveitarfélaga eða samtaka á þeirra vegum í samræmi við lánsfjáráætlun 1981, það þurfi beinlínis að segja að ráðstafa skuli þessu fé í samræmi við samþykkta lánsfjáráætlun eða í samræmi við lánsfjárlög fyrir árið 1981, sem kannske er skýrasta orðalagið í þessum efnum.

Ég veit að menn kynnu kannske að vilja túlka þetta á þann veg, að lánsfjáráætlun 1981 geti verið fyrirhuguð lánsfjáráætlun ríkisstj., sem kannske hefur ekki hlotið samþykki Alþingis, og þá sé ríkisstj. að taka forskot á sæluna með því að afla sér þessarar heimildar, áður en Alþingi hefur samþykkt lánsfjárlögin, og sé svo kannske farin að nota heimildina áður en lánsfjáráætlun hefur hlotið staðfestingu á Alþingi. Þetta var ekki ætlunin. Ætlunin er einungis sú, að ríkisstj. eigi þess kost að taka hagkvæmt lán sem stendur til boða nú, en er alls óvíst hversu lengi stendur til boða eða hvort verður jafnhagstætt að nokkrum mánuðum liðnum. Þetta lán er á margan hátt sérstætt og slík lán hafa ekki verið í boði á þessum markaði um langt skeið. Danir áttu kost á að taka lán af þessu tagi nýlega og gerðu það, og Íslendingum var boðið slíkt hið sama nýlega. Þykir eðlilegt að taka þessu boði. Þess vegna er frv. með þessu ákvæði flutt hér. Ef ekki stæði svo sérstaklega á væri ekkert því til fyrirstöðu að bíða með að ganga frá ákvæði af þessu tagi.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál, en legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.