12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (1348)

168. mál, aðild Grikklands að Efnahagsbandalagi Evrópu

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. um að Alþingi álykti að heimila ríkisstj. að fullgilda fyrir Íslands hönd viðbótarbókun við samninginn milli lýðveldisins Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu vegna aðildar lýðveldisins Grikklands að bandalaginu og viðbótarbókun við samninginn milli lýðveldisins Íslands og aðildarríkja Kola- og stálbandalags Evrópu vegna aðildar lýðveldisins Grikklands að bandalaginu.

Þáltill., sem hér um ræðir, er lögð fram vegna aðildar Grikklands að Efnahagsbandalagi Evrópu og Kola- og stálbandalagi Evrópu hinn 1. jan. n.k. Af þessum sökum er talið eðlilegt að gera viðbótarbókanir við samninga Íslands við þessi Evrópubandalög svo að sams konar fríverslun geti farið fram milli Íslands og Grikklands og nú gildir milli Íslands og hinn níu aðildarríkja bandalaganna.

Aðildarlönd Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, höfðu með sér samráð vegna formlegra samningaviðræðna einstakra EFTA-landa um breytingar á samningum þeirra við Evrópubandalögin. Fóru viðræðurnar fram í Brussel fyrr á þessu ári. Viðbótarbókanirnar tvær voru undirritaðar þar af Íslands hálfu hinn 6. nóv. s.l. með fyrirvara um fullgildingu.

Við gildistöku viðbótarbókananna taka ákvæði viðskiptasamninga Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu og aðildarríkja Kola- og stálbandalags Evrópu um fríverslun með ýmsar vörur einnig til viðskipta Íslands og Grikklands. Af þessu leiðir ekki aðeins að tollar og gjöld, sem hafa sömu áhrif, falla þá niður á iðnaðarvörum, heldur og ýmsum sjávarafurðum og vörum sem unnar eru úr landbúnaðarafurðum.

Grikkland fær að vísu fimm ára aðlögunartíma varðandi tollalækkanir og magntakmarkanir á innflutningi nokkurra vara, en slíkt skiptir Ísland engu sérstöku máli vegna eðlis viðskipta landanna.

Viðskipti landanna á undanförnum árum felast svo til eingöngu í útflutningi á óverkuðum íslenskum saltfiski til Grikklands. Á árinu 1979 var útflutningur Íslands til Grikklands 1.2% af heildarútflutningi Íslands það ár. Voru 99.9% útflutningsins þangað sjávarafurðir, en aðalútflutningsvaran, óverkaður saltfiskur, nam 92.8% af útflutningi. Innflutningur Íslands frá Grikklandi á árinu var hverfandi eða 0.01% af heildarinnflutningnum það ár. Aðalinnflutningsvörurnar voru ávextir og grænmeti.

Viðskipti landanna á síðustu árum hafa verið með svipuðu móti og árið 1979. Þá var útflutningur óverkaðs saltfisks að magni til 4 661 tonn, en að verðmæti 3 milljarðar 183.6 millj. kr. Þó hefur magn og verðmæti aukist nokkuð á síðustu árum. Á árunum 1977–1979 var Grikkland fjórða mikilvægasta útflutningsland Íslendinga fyrir þessa vörutegund, með 11.6% af heildarútflutningi. Er því þessi markaður mikilvægur. Útflutningur hefur þó verið meiri á óverkuðum saltfiski til Portúgals, Spánar og Ítalíu, en Grikkland er eitt af fjórum þýðingarmestu viðskiptalöndum okkar að því er varðar óverkaðan saltfisk. Á þessu ári hefur selst álíka magn og í fyrra. Viðskiptasamningurinn milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu tekur ekki til saltfisks og leiðir viðbótarbókunin við samninginn sem slík af þessum sökum ekki til lækkunar tolla eða annarra fríðinda. Hins vegar fékkst því framgengt í samningaviðræðum Íslendinga við Efnahagsbandalagið, að það mundi í tengslum við samningsgerðina tilkynna Íslendingum formlega þá ákvörðun grískra stjórnvalda að beita sömu reglum og önnur ríki bandalagsins frá 1. jan. 1981 um innflutning á söltuðum þorski og söltuðum þorskflökum.

Reglurnar eru í því fólgnar, að tollar hafa verið felldir niður um óákveðinn tíma, þ.e. allt að 13% tollur af söltuðum þorski og 20% tollur af söltuðum þorskflökum. Ekki er talin sérstök hætta á að núverandi niðurfellingu tolls á þessum saltfiski verði hætt. Af þessu leiðir að Grikkir munu fella niður innflutningstoll af óverkuðum saltfiski, sem talinn er jafngilda 0.4% af útflutningsverðmæti. Auk þess munu þeir fella niður þrenns konar gjöld, rösk 6% samanlagt, þegar þeir taka upp virðisaukaskatt innan nokkurra ára.

Af viðbótarbókununum mun hins vegar beinlínis leiða að söltuð beituhrogn og önnur söltuð matarhrogn en grásleppuhrogn, sem flutt hafa verið út til Grikklands á undanförnum árum, verða tollfrjáls. Tollurinn á þessum vörum hefur verið 11%.

Þótt ofangreindar tollalækkanir á saltfiski og söltuðum hrognum vegi ekki mikið í krónutölu, innan við 40 millj. miðað við útflutningsverðmæti árið 1979, eru þær þó til bóta. Þá er einnig girt fyrir það, að Grikkir hækki tollana á þessum vörum einhliða. Á hinn bóginn má nefna að helstu innflutningsvörur Íslands frá Grikklandi, ávextir og grænmeti, falla ekki undir bókunina og verður því engin breyting varðandi tollmeðferð þeirra.

Með hliðsjón af málavöxtum tel ég rétt að Ísland stígi skref í átt til aukinnar fríverslunar Evrópulanda með því að taka upp fríverslunartengsl við Grikkland við inngöngu þess í Efnahagsbandalag Evrópu og Kola- og stálbandalag Evrópu.

Með þáltill. þessari er farið fram á heimild Alþingis til þess, að ríkisstj. megi fullgilda viðbótarbókanir Íslands við þessi bandalög síðar í þessum mánuði. Ganga þær þá í gildi hinn 1. jan. n.k.

Rétt er að taka fram að lokum að ráðgert er að leggja fram frv. til l. um breyt. á lögum um tollskrá o.fl., nr. 120 31. des. 1976, vegna aðildar Grikklands að áðurnefndum Evrópubandalögum. Þessi væntanlegu lög mundu ekki hafa nein áhrif á viðskipti okkar í þessum efnum vegna þess að innflutningurinn er sáralítill, eins og ég hef greint frá áður. Með hliðsjón af því, að við flytjum talsvert út til Grikklands, en innflutningurinn þaðan er óverulegur, verður þessi viðbótarbókun okkur áreiðanlega hagstæð.

Ég held að það sé ekki ágreiningur um þetta mál hér á hv. Alþingi. Ég hef ekki orðið var við það. Ég vil því mælast til þess, að sú nefnd, sem fær málið til meðferðar, hraði afgreiðslu þess eins og kostur er til þess að hægt verði að fullgilda samninginn fyrir n.k. áramót.

Ég leyfi mér svo að leggja það til að till. verði að lokinni þessari umr. vísast til hv. utanrmn.