12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (1371)

1. mál, fjárlög 1981

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð.

Ég verð að segja að ég gerði ekki ráð fyrir að fjárlagagerð þessi væri til sérstakrar fyrirmyndar, en mér kom það nokkuð á óvart þegar hæstv. fjmrh. sagði að það væru mörg tilfelli um að útgjöld ríkisins samkv. fjárlagafrv. væru ekki í samræmi við gildandi lög. Ég held að hæstv. ráðh. hefði átt um leið eða áður en fjárlagafrv. var lagt fram að leggja fram frv. um breytingar á þessum lögum og þá líka um launaskattinn.

Hann sagði að þetta væri ekkert nýmæli í sambandi við tekjur Byggingarsjóðs, þetta hefði verið svo í fyrra og hittiðfyrra, en þá hefði verið gert út um þetta og breytt með lögum um lánsfjáráætlun. Þetta er alveg rétt. Þetta var gert í fyrra, það man ég. En hæstv. ráðh. lagði þá fram frv. um lánsfjáráætlun og það var afgreitt fyrir áramót. Sá er munurinn á þessu í fyrra og í ár.

Að gefnu tilefni vil ég aðeins segja að ég óska eftir að hæstv. ráðh. geri við 3. umr. nákvæma grein fyrir hvaða lög það eru sem hann telur að þurfi að breyta til þess að þetta fjárlagafrv. fái staðist. Það verður gengið eftir því, að hæstv. ráðh. geri grein fyrir þessu.